Fréttir
  • Fáni með nýju merki Vegagerðarinnar. Mynd/Baldur Kristjánsson
  • Ólafur Sveinn Haraldsson forstöðumaður rannsóknadeildar Vegagerðarinnar.

Úthlutað úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar

146 milljónir króna skiptast á 71 verkefni

31.3.2020

Úthlutun úr rannsóknasjóði Vegagerðarinnar fyrir árið 2020 er lokið en umsóknarfrestur rann út 14. febrúar. Alls bárust 135 umsóknir og sótt var um samtals rúmlega 390 milljónir króna.

Sjóðurinn hafði að þessu sinni 146 milljónir krónur til ráðstöfunar. Rannsóknaráð Vegagerðarinnar valdi 71 verkefni sem hlýtur styrk að þessu sinni. Umsækjendur og verkefnisstjórar hafa fengið send skeyti um samþykkt eða synjun en upplýsingar um verkefni sem fengu styrk verða birtar á vef Vegagerðarinnar innan skamms. Á sama stað má finna útgefnar rannsóknaskýrslur fyrri ára.

Ólafur Sveinn Haraldsson er nýtekinn við starfi forstöðumanns rannsóknadeildar Vegagerðarinnar en Þórir Ingason sem stýrt hafði deildinni í fjórtán ár lét af störfum fyrir aldurs sakir um síðustu áramót.

„Ég tek við mjög góðu búi af Þóri ,“ segir Ólafur glaðlega en hann er doktor í byggingaverkfræði með áherslu á brýr. Hann kláraði doktorsnám sitt frá University of Washington í Seattle. Eftir það var hann ráðinn lektor við Washington State University þar sem hann var í tvö og hálft ár áður en hann flutti heim til Íslands. Á Íslandi starfaði hann fyrst hjá Eflu verkfræðistofu. „Þar vann ég töluvert með framkvæmdadeild Vegagerðarinnar og kynntist starfsemi stofnunarinnar. Þegar staða á framkvæmdadeildinni var auglýst sótti ég strax um.“

Honum leið mjög vel í starfi sínu en þegar staða forstöðumanns rannsóknadeildar var auglýst ákvað hann að stökkva á tækifærið. „Ég taldi menntun mína og reynslu úr akademíunni og sem starfandi verkfræðingur geta komið að góðum notum.“

Fyrsta verkefni Ólafs í nýju starfi var að auglýsa eftir  umsóknum um styrki í rannsóknasjóðinn. „Úthlutunin hefur aðeins dregist vegna Covid-19 og höfum við þurft að beita nýjum aðferðum við fundahöld líkt og svo margir aðrir.“

Fjölmargar umsóknir bárust og segir Ólafur að erfitt hafi verið að velja á milli þeirra. „Allar voru umsóknirnar frambærilegar og studdu vel markmið rannsóknasjóðsins.“

Valið á verkefnum er í höndum rannsóknaráðs sem forstjóri Vegagerðarinnar skipar í. Í ráðinu eru fimm einstaklingar innan Vegagerðarinnar, Birkir Hrafn Jóakimsson, Hersir Gíslason, Margrét Silja Þorkelsdóttir, Pétur Ingi Sveinbjörnsson og Rúna Ásmundsdóttir. Umsóknir voru svipað margar og síðustu ár en sótt var um mun hærri upphæðir. Upphæðin sem sjóðurinn hafði til umráða var svipuð og síðustu ár.

Ólafur hefur mjög góða tilfinningu fyrir starfinu og árinu framundan. „Í þessu starfi fæ ég að koma að stefnumótun í rannsóknum innan Vegagerðarinnar en held bæði tengslum við akademíuna og atvinnulífið sem er heillandi blanda.“