Fréttir
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir vikudögum

Umferðin á Hringvegi dróst saman um 21,5 % í október

dróst mest saman á Norðurlandi

4.11.2020

Umferðin í nýliðnum októbermánuði á Hringveginum dróst sama um 21,5 prósent miðað við sama mánuð fyrir ári síðan. Þetta er langmesti samdráttur á Hringvegi í október og þrefalt meiri en fyrr samdráttarmet sem var á milli áranna 2011 og 2012. Útlit er fyrir að í ár verði um 13 prósenta samdráttur í umferðinni á Hringveginum eða tvöfalt meiri en áður hefur mælst. 


Milli mánaða 2019 og 2020
Umferð yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi dróst saman um 21,5% í nýliðnum október borið saman við sama mánuð á síðasta ári.  Mest dróst umferðin saman um lykilteljara á Norðurlandi, eða um tæp 38% en minnst um teljara á og í grennd við höfuðborgarsvæðið eða um tæp 13%.  Þetta er langstærsti samdráttur í umferð yfir þessi 16 snið sem hefur mælst.  Mesti samdráttur, milli október mánaða fram til þessa, var milli áranna 2011 og 2010 en þá varð 6,7% samdráttur.  Þetta er því rúmlega þrisvar sinnum meiri samdráttur.  Leita þarf aftur til ársins 2015 til að finna minni umferð í október mánuði.

Af einstaka stöðum þá dróst umferð mest saman um mælisnið á Mýrdalssandi eða um rúmlega 76%, sem er nýtt met í samdrætti fyrir einstaka talningarstaði.   Áætlað er að umferð muni dragast saman í kringum 55% um Mýrdalssand fyrir árið í heild, sem yrði mesti samdráttur fyrir einstaka stað, af þessum 16 lykilteljurum á Hringvegi.


SamantektartaflaUmferðin vikudaga
Frá áramótum hefur mest verið ekið á föstudögum en minnst er ekið á laugardögum. Fram til þessa hefur það verið nánast regla að minnst hefur verið ekið á þriðjudögum en mest á föstudögum.  Þannig að nú lítur út fyrir að ástæður þess hvenær minnst er ekið, hafi breyst og e.t.v. má kenna Covid-faraldri um.

Eins og nærri má geta hefur umferð dregist sama í öllum vikudögum og þá mest á sunnudögum eða um tæp 18% en minnst hefur umferð dregist saman á þriðjudögum.

Horfur út árið 2020
Fullyrða má að aldrei hefur ríkt jafn mikil óvissa um hvernig umferðarárið kemur út, þegar svo skammt er eftir af því, eins og nú.  Ljóst má þó vera að sögulegur samdráttur í umferð á Hringvegi blasir við og gerir spálíkan umferðardeildar Vegagerðarinnar ráð fyrir um 13% samdrætti nú í ár miðað við síðasta ár.  Gangi sú spá eftir yrði það rúmlega tvisvar sinnum meiri samdráttur en áður hefur mælst á Hringvegi, í umræddum sniðum.

Talnaefni