Fréttir
  • Covid daglegur munur vika 50
  • Covid umferðin það sem af er ári 14.12.2020

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst töluvert í síðustu viku

Dvínandi áhrif af Covid-19-faraldrinum

14.12.2020

Umferðin í nýliðinni viku, viku 50, reyndist sex prósentum meiri en vikunni á undan eða viku 49. Reikna má með að umsvif í þjóðfélaginu séu að aukast á milli vikna þrátt fyrir að sóttvarnarreglur séu svipaðar og verið hafa um hríð. Eigi að síður er umferðin töluvert minni en í sömu viku fyrir ári síðan eða fimm prósentum minni. Þessa sömu viku fyrir ári var reyndar óvenjulítil umferð vegna veðurs og skýrir það að hluta að munurinn er ekki meiri. 

Þannig er umferðin heldur að aukast þessa dagana þrátt fyrir að vera töluvert mikið minni en að jafnaði á þessum árstíma. 

Þótt umferðin um þrjú lykilmælisnið Vegagerðarinnar á höfuðborgarsvæðinu hafi dregist saman um 5% milli ára, sem er ærinn munur miðað við það sem gengur og gerist, þá er þetta minnsti samdráttur sem hefur mælst í þessum sniðum síðan núverandi bylgja í Covid-faraldrinum hófst. Sem skýrist að hluta til af því að umferðin fyrir ári síðan datt niður í óveðurskafla. 

Sé hinsvegar aðeins horft til síðustu vikna, ekki ár aftur í tímann, sést að þessa síðustu viku tekur umferðin óvenjumikið stökk upp á við sem kemur á óvart. En umferðin hefur samt jafnt og þétt verið að aukast eftir því sem líður á þessa bylgju og það lengist í henni. En ef reynt er að horfa framhjá samdrætti fyrir ári vegna veðurs, má ætla að samdrátturinn sé um 10% sem er mjög mikill samdráttur á milli ára. Allt afleiðing af Covid-faraldrinum og því minni umsvifum almennt í þjóðfélaginu.

Séu línuritin skoðuð sést líka að það kom kippur í viku 40 (fyrir réttum 10 vikum) rétt einsog nú í viku 50 og virðist það hanga saman með því að gerðar voru tilslakanir á sóttvarnarreglum þótt ekki væru þær miklar, sérstaklega ekki núna í viku 50. Það er því freistandi að draga þá ályktun að í hvert sinn sem slakað er á sóttvörnum, hversu smávægilegar sem þær tilslakanir eru og varnaðarorð sóttvarnarteymisins hávær, þá breytir almenningur hegðun sinni, sem aftur smitar út í umferðina sem eykst skarpt.

Mismunur milli ára í viku 50 skiptist svona niður á mælisniðin þrjú:

  • Hafnarfjarðarvegur         -12,2%
  • Reykjanesbraut                 -0,5%
  • Vesturlandsvegur              -2,5%