Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin uppsafnað
  • Umferðin eftir vikudögum

Umferðin á Hringveginum jókst mikið í september

Mikil aukning en samt minni en tvö síðustu ár

2.10.2017

Umferðin í september á Hringveginum jókst um tæp níu prósent. Þótt þetta sé mikil aukning er hún minni en síðustu tvö ár í september. Nú hefur umferðin í ár á Hringveginum aukist um tæp 11 prósent sem er næst mesta aukning þessa mánuði síðan mælingar þessar hófust árið 2005.

Milli mánaða 2016 og 2017
Umferð jókst um tæp 9% yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi í nýliðnum september borið saman við sama mánuð á síðasta ári.  Þótt þetta sé mikil aukning og meira en tvisvar sinnum meiri en í meðalári í septembermánuði þá er þetta minni aukning en tvö síðustu ár.

Umferðin hefur aldrei mælst meiri í septembermánuði en mest jókst umferðin um Suðurland eða um rúmlega 13% og minnst um Vesturland eða um rúmlega 6%.


Samanburdartafla-september








Frá áramótum milli áranna 2016 og 2017

Nú hefur umferðin aukist um 10,6%, frá áramótum borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Þetta er næst mesta aukning sem mælst hefur miðað við árstíma frá því að þessi samantekt hófst árið 2005, en á síðasta ári hafði umferðin aukist um 13,1% á sama tíma miðað við árið á undan.

Mest hefur umferðin aukist um Austurland eða um 14,4% en minnst um Vesturland eða um 8,3%.

Umferð eftir vikudögum
Eins og áður hefur hefur komið fram er að jafnaði mesta umferðin á föstudögum en minnst er ekið á þriðjudögum. Hlutfallslega hefur umferð þó aukist mest á fimmtudögum það sem af er ári miðað við sama tímabil á síðasta ári en minnst hefur aukningin verið á sunnudögum.

Horfur út árið 2017
Nú er gert ráð fyrir því að umferðin aukist um 10,5% miðað við síðasta ár.  Gangi þessi spá eftir verður það önnur mesta aukningin frá upphafi samantektar en núverandi met var sett á síðasta ári en þá jókst umferðin um 13,3% yfir mælisniðin 16 á Hringveginum.