Fréttir
  • Skilti hjá Fitjum
  • Skilti við hringtorg að Flugstöðinni
  • Skilti við hringtorg að Flugstöðinni

Umferðaröryggi er í algerum forgangi

Vegagerðin fjarlægir skilti sem sett voru upp í óleyfi

19.7.2016

Vegagerðin lét í morgun (19. júlí) fjarlægja tvö skilti sem sett höfðu verið upp í óleyfi við Reykjanesbraut á kaflanum frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Skiltin voru inn á veghelgunarsvæði Vegagerðarinnar þar sem ekkert má setja upp án samráðs við Vegagerðina og með hennar leyfi. Skiltin voru á óheppilegum stöðum, annars vegar nálægt hringtorgi þar sem Vegagerðin setur alla jafna ekki upp skilti, og hins vegar við gangbraut yfir Reykjanesbrautina. 

Það er virðingarvert að reyna að koma í veg fyrir slys og að hvetja ökumenn til að aka varlega. Vegagerðin vinnur stöðugt að því að auka öryggi í umferðinni, m.a. með því að bæta umhverfi vega, með því að aðskilja akstursstefnur, með uppsetningu vegriða og með því að taka af hættulegar beygjur eins og gert verður á þessum kafla, á vegamótum þar sem banaslys varð nýlega.

 

 

Umferðaröryggis vegna skiptir líka máli hvernig skilti eru, þau þurfa að vera einföld og skýr. Of mikill texti, með smáu letri kallar of mikið á athygli ökumanns sem leitt getur til verulegrar truflunar. Þess vegna eru settar reglur um útlit og gerð skilta sem fara þarf eftir.

 

Viðvaranir um að ákveðinn kafli sé varasamur verður auk þess að byggja á því að sú sé raunin og þá eðlilegt að vara við hættulegustu köflunum á vegakerfinu sem þurfa ekki endilega að vera staðir þar sem slys hefur nýlega átt sér stað.

 

Vegagerðin hefur einnig merkt staði sem eru þekktir slysastaðir vegna umferðarinnar svo sem á kafla vestan Hafnarfjalls á Hringveginum. Einnig er dæmi þess að sett hafi verið upp tímabundin skilti vð sérstakar aðstæður.

Skilti verða þó eigi sett upp nema í samráði við Vegagerðina og með hennar leyfi. Það hafa víða orðið alvarleg slys á vegakerfinu og rétt að fara varlega í það hvar best er að vara við hættum hverju sinni. Því fé sem Vegagerðin fær til að sinna umferðaröryggi er varið eftir áætlun þar  sem aðgerðum er forgangsraðað. Síðan skiptir auðvitað mestu máli að geta farið í stærri aðgerðir svo sem stefnt er að til dæmis með breikkun Suðurlandsvegar á milli Hveragerðis og Selfoss og aðskilnaði akstursstefna.