Fréttir
 • Morgunverðarfundur um umferðaröryggi: Bergþóra Þorkelsdóttir bíður gesti velkomna
 • Morgunverðarfundur um umferðaröryggi
 • Morgunverðarfundur um umferðaröryggi
 • Morgunverðarfundur um umferðaröryggi: Auður Þóra Árnadóttir
 • Morgunverðarfundur um umferðaröryggi
 • Morgunverðarfundur um umferðaröryggi
 • Morgunverðarfundur um umferðaröryggi: Einar Pálsson
 • Morgunverðarfundur um umferðaröryggi: Jóhannes Þór Skúlason
 • Morgunverðarfundur um umferðaröryggi: Hörður Gunnarsson
 • Morgunverðarfundur um umferðaröryggi

Minni hraði, meira öryggi og kýr við Dettifoss

margt rætt á morgunverðarfundi um umferðaröryggi

19.2.2019

Mörg álitamál varðandi umferðaröryggi voru rædd á morgunverðarfundi Vegagerðarinnar um umferðaröryggi á þjóðvegum. Það er kallað á umbætur og úrbætur í vegagerð á mörgum sviðum en á fundinum voru flutt erindi fulltrúa Vegagerðarinnar, Samtaka ferðaþjónustunnar og flutningasviðs Samtaka verslunar og þjónustu. Eitt álitaefni er hraðinn á þjóðvegunum, annað hinn mikli fjöldi ferðamanna á vegunum, og þriðja vegir sem illa ráða við mikla umferð þungra ökutækja.

Haldin voru fjögur erindi á fundinum: 

 

 

 • Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar (pdf)
 • Einar Pálsson, forstöðumaður þjónustudeildar Vegagerðarinnar (pdf)
 • Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (pdf)
 • Hörður Gunnarsson, forstjóri Olíudreifingar fyrir flutningasvið Samtaka verslunar og þjónustu (pdf)

 

Auður Þóra Árnadóttir lagði áherslu á að öll verkefni Vegagerðarinnar, stór og smá, stuðli að auknu umferðaröryggi. Hún sagði líka að lykilatriði væri að aðskilja aksturstefnur auk þess sem ökuhraði skipti gríðarlega miklu máli þegar kemur að auknu öryggi. Hún talaði einnig um meðalhraðaeftirlit sem hefði skilað mjög góðum árangri í mörgum nágrannalanda okkar og væri mikilvægt að taka upp hér líkt og stefnt er að. Einar Pálsson fór yfir hið mikla svið sem þjónustudeild Vegagerðarinnar sinnir hvort heldur er varðandi vetrarþjónustu og sumarþjónustu, hvort sem er hálkuvarnir eða umhirða umferðarmerkja sem skipta tugum þúsunda á vegakerfinu og fjölgar um nokkur þúsund við það eitt að taka niður leyfðan hámarkshraða við 75 einbreiðar brýr. Þjónustan skiptir líka miklu máli þegar kemur að umferðaröryggi. Lokanir vega hafa sannað sig í því breytta umhverfi sem er á vegakerfinu í dag, Vegagerðin er góð í að loka en þyrfti að verða betri í því að opna og við reynum það, sagði Einar.
Jóhannes Þór Skúlason kom víða við. Benti á að það þyrfti að tryggja meira fjármagn til Vegagerðarinnar og benti á að bara uppsöfnuð viðhaldsþörf nemi 60-70 milljörðum króna. Hann sagði upplýsingagjöf til ferðamanna skipti gríðarlega miklu máli og væri unnið í þeim málum bæði með stýrisspjöldum bílaleiganna, SafeTravel upplýsingaveitum og með því sem Vegagerðin gerir. Þá kallað hann á aukið eftirlit á vegunum, það væri ekki nóg að eftirlitsaðilar sætu við skrifborðið. Hann nefndi líka að marga hluti mætti hugsa upp á nýtt, t.d. væri ekki sjálfgefið að það þyrfti að vera sami hámarkshraði allsstaðar á Hringveginum. Hann kallaði einnig eftir breyttum reglum um vetrarþjónustu þar sem meira væri tekið mið af ferðaþjónustunni, það dygði ekki lengur að þjónusta einungis mjólkurbílinn, tugþúsundir ferðamanna vildu t.d. heimsækja Dettifoss að vetri til en kæmu að ófærum vegi. Þessu verður að breyta, sagði Jóhannes Þór. Ekki færu menn að draga kýr að Dettifossi til þess að fá þjónustu.

 

Hörður Gunnarsson hrósaði Vegagerðinni fyrir að sinna sínu verki vel þótt fjárveitingar væru takmarkaðar. Hann benti á að víða væru vegir mjóir og burðarþolslitlir á miklum og löngum flutningaleiðum og sýndi hversu lítið þarf til að stórir flutningabílar hafni utan vegar og oftar en ekki eftir veltu vegna veikra kanta og mjórra vega. Hann lagði áherslu á að hraðinn skipti mestu máli, vegakerfið réði einfaldlega t.d. ekki við að hraði þungra ökutækja væri meiri en 80 km/klst. Hann sagði flutningageirann ekki á því að hækka ætti leyfilegan hámarkshraða í 90 km/klst. hjá þungum ökutækjum til samræmis við aðra vegfarendur. Hann tók undir sjónarmið Vegagerðarinnar sem Auður Þóra benti á, um að lækka frekar hraðann niður í 80 km/klst. til að umferðin sé öll á sama hraða. Vegirnir þurfa að þola hraðann sagði Hörður og það þarf að bæta þá mikið ef þungir flutningabílar eigi að geta ekið hraðar en nú er. 

Líkt og Jóhannes Þór nefndi Hörður að geirinn ætti í góðum samskiptum við Vegagerðina og ættu gott samtal og samstarf. Benti hann t.d. á upplýsingar um vindaviðmið sem er að finna á heimasíðu Vegagerðarinnar sem væri verkfæri sem flutningageirinn notaði daglega. Þá fagnaði hann lokunum vega og sagði að þótt það væri heit kartafla þá væri mun betra að hafa lokað klukkutíma of lengi en að opna of snemma og hætta þannig á að vegfarendur lentu í ógöngum.