Fréttir
  • Umferðin samtals
  • Umferðin hlutfallsleg breyting
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin eftir vikudögum

Umferðarmesti september á höfuðborgarsvæðinu

meiri umferð hefur ekki mælst í september

6.10.2021

Umferðin í september á höfuðborgarsvæðinu reyndist sex prósentum meiri en í fyrra. Aldrei áður hefur jafnmikil umferð mælst í september og er þetta mesta umferð í einum mánuði fyrir utan að örlítið meiri umferð mældist í maí árið 2019. Útlit er fyrir að umferðin í ár á svæðinu aukist um níu prósent sem er verulega mikið en dugi þó ekki til að umferðin verði meiri en hún var árið 2019.

Milli mánaða 2020 og 2021
Nýtt met var slegið í umferðinni í nýliðnum september á höfuðborgarsvæðinu en aldrei áður hafa fleiri ökutæki ekið yfir lykilmælisnið Vegagerðarinnar á þessu svæði í september. Í síðasta mánuði fóru daglega tæplega 178 þúsund ökutæki yfir sniðin þrjú.  Þetta er jafnframt næst mesti umferðarmánuður frá upphafi mælinga. Umferðin hefur aðeins einu sinni áður mælst meiri en það var í maí 2019 en þá reyndist umferðin rétt rúmlega 178 þús. ökutæki á sólarhring.

Umferðaraukningin milli september 2020 og 2021 varð 6%. Öll snið sýndu aukningu en mest jókst umferð um mælisnið ofan Ártúnsbrekku eða um rúmlega 7%.

Frá ármótum
Nú hefur umferðin aukist um 6,3% frá áramótum það sem af er árs miðað við sama tímabil á síðasta ári.  Leita þarf aftur til ársins 2017 til að finna meiri aukningu miðað við árstíma.

Umferð eftir vikudögum
Umferð jókst í öllum vikudögum og mest á laugardögum eða um 10,0% en minnst á þriðjudögum eða um 2,4%. 

Mest var ekið á föstudögum minnst á sunnudögum.

Miðvikudagar reyndust næst meðalumferð virkra daga í mánuðinum.  Bíllausi dagurinn 22. september var með svipaða umferð og meðalumferðin reyndist á miðvikudögum í september mánuði.

Horfur út árið
Ef umferð hegðar sér, það sem eftir er ársins, líkt og í hefðbundnu ári er von á um 9% aukningu á umferðinni nú í ár miðað við síðasta ár.  Þó þessi aukning kæmi til yrði umferðin samt rúmlega 2% minni en hún var árið 2019.