Fréttir
  • Umferð.
  • Samantektartafla nr. 3
  • Vísitala meðalumferðar eftir landsvæðum.
  • Meðalumferð eftir vikudögum frá áramótum, fyrir 16 lykilteljara á Hringvegi.
  • Vísitala umferðar á 16 lykilstöðum á Hringvegi borin saman við vísitölu hagvaxtar.

Umferð um Hringveg í júní jókst um 6,1 %

Umferð á Austurlandi dróst saman

1.7.2019

Umferðin á Hringvegi í júní jókst um 6,1% sem er mun meiri aukning en á sama tíma í fyrra.  Aftur dróst umferðin saman á Austurlandi.  Aukningin í umferðinni fyrstu 6 mánuði ársins er töluverð en eigi að síður er gert ráð fyrir lítilli aukningu nú í ár eða um 1%.

Milli mánuða 2018 og 2019
Umferðin yfir 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi jókst um 6,1% í júní miðað við sama mánuð á síðasta ári. Þessi aukning er talsvert meiri en á milli sömu mánuða á síðasta ári en langt undir aukningunni 2017.

Mest jókst umferðin um Vesturland eða 10,7% og er það annan mánuðinn í röð sem umferðin eykst mest á því svæði. 2,0% samdráttur varð hins vegar í umferð um lykilteljara á Austurlandi og er það eina svæðið sem sýnir samdrátt í júní.

Frá áramótum
Núna hefur umferðin aukist um 4,9%, frá áramótum borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Þessi aukning er svipuð mv stöðuna á síðasta ári en þá hafði umferðin aukist um 4,7% mv árið þar á undan (2017).

Mest hefur umferðin aukist um Hringveg á Vesturlandi eða 8,7% og er það freistandi að draga þá ályktun að þessi aukning sé, a.m.k. að einhverjum hluta, tilkomin vegna þess að hætt var að að rukka í Hvalfjarðargöng á síðasta ári.  Umferðin hefur hins vegar dregist saman um 1,7% á Austurlandi og er það eina svæðið sem sýnir samdrátt á þessum tímapunkti.

Umferð vikudaga
Það sem af er ári er mest ekið á föstudögum en minnst á þriðjudögum.  
Hlutfallslega hefur umferð aukist mest á sunnudögum en minnst á þriðjudögum, miðað við sömu vikudaga á síðasta ári.

Horfur út árið 2019
Núna þegar árið er hálfnað gerir spálíkan umferðardeildar ráð fyrir að umferðin um Hringveginn gæti aukist um 1%.  Gangi þessi spá eftir er það mun minni aukning en varð á síðasta ári en þá jókst hún um 4,6%.  

Vegagerðin hefur oft bent á fylgni milli hagvaxtar og umferðar og þar sem spáð er samdrætti í hagvexti nú í ár kemur spá um litla umferðaraukningu ekki á óvart, en þetta skýrist frekar í lok sumars.

Nánari upplýsingar um tölfræði umferðar má nálgast hér.