Fréttir
  • Bergur Ebbi flutti fyrirlestur um gildismat framtíðarinnar og heillaði viðstadda með pælingum um iðnbyltingarnar fjórar. Mynd/GPM
  • Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar. Mynd/GPM

Um 220 manns á rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar

Ráðstefnan haldin í 18. sinn

8.11.2019

Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar var haldin í 18. sinn föstudaginn 1. nóvember sl. í Hörpu og var almenn ánægja með ráðstefnuna. Kynnt voru alls 17 rannsóknaverkefni sem er þó bara hluti þeirra verkefna sem er í gangi hjá Vegagerðinni hverju sinni. Í setningarræðu sinni sagði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, meðal annars; „Styrkur rannsóknasjóðs Vegagerðarinnar hefur legið í því að styrkja verkefni á mjög breiðu fræðasviði þar sem ekki er endilega einblínt á hefðbundna vegagerð. Verkefnin falla þó undir fjóra almenna flokka en þeir eru: mannvirki, umferð, umhverfi og samfélag. Af þessari upptalningu má sjá að hægt er að sækja um nánast hvaða rannsóknaverkefni sem er. Það hefur leitt til þessa mikla fjölbreytileika. Segja má að afrakstur verkefna rannsóknasjóðs sé annar stóri þátturinn í endurmenntun og nýsköpun stofnunarinnar meðan hinn er fjölþætt erlend samvinna.“


Ágrip og glærur frá flestum erindum má finna á vefsíðu ráðstefnunnar og þar er líka að finna fjölda mynda frá henni.
Áhugi á ráðstefnunni er alla jafna mikill en nú skráðu sig um 220 manns ráðstefnuna. Lokað var fyrir skráningu þegar vel ríflega var fullbókað í salinn Kaldalón í Hörpu.
Erindin voru að vanda mjög fjölbreytt og víða komið við, má nefna nokkur erindi sem snúa að umferðaröryggi og önnur sem snúa að umhverfi, s.s. svifryki. 

Nánari upplýsingar um hvert og eitt erindi auk fjölda mynda, má nálgast á síðu ráðstefnunnar.