Fréttir
  • Strætisvagn í almenningssamgöngum

Tryggðar almenningssamgöngur á Suðurnesjum á næsta ári

Vegagerðin mun bera ábyrgð á þjónustunni

21.12.2018

Þjónusta Strætó á Suðurnesjum hefur verið tryggð út árið 2019. Fyrir viku síðan var greint frá því að Vega­gerðin hafði lokið samn­ing­um við öll lands­hluta­sam­tök sveit­ar­fé­laga um al­menn­ings­sam­göng­ur á næsta ári, nema Sam­band sveit­ar­fé­laga á Suður­nesj­um (SSS). SSS hefur séð um rekstur almenningssamgangna á Suðurnesjum frá árinu 2015. Samningi samtakanna við Vegagerðina var hins vegar sagt upp í byrjun árs og því hefur nokkur óvissa legið yfir samgöngum á Suðurnesjum.

Samkomulagi hefur nú verið náð og mun Vegagerðin taka yfir ábyrgð á almenningssamgöngum á svæðinu í stað Sambands Sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þjónusta vagnanna verður óbreytt og munu þeir fylgja sömu tímatöflum og eru nú í gildi. Þetta fyrirkomulag mun gilda út árið 2019.

Leiðir Strætó á Suðurnesjum eru:

  • Leið 55 milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur
  • Leið 87 milli Voga og Vogaafleggjara.
  • Leið 88 milli Grindavíkur og Reykjanesbæjar.
  • Leið 89 milli Sandgerðis, Garðs og Reykjanesbæjar.

Allar nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Strætó, straeto.is