Fréttir
  • Gunnar Bjarnason byrjaði hjá Vegagerðinni fyrst sem unglingur í brúavinnuflokki en varð síðar forstöðumaður jarðefnadeildar.
  • Á myndinni er Gunnar um það bil tveggja ára.
  • Gunnar rýnir í bergsýni á Tjörnesi þar sem unnið var að berggrunnskortlagningu á öllum austanverðum skaganum, sem gerð var skil í BS ritgerð.
  • Á ferð yfir Sprengisand eftir ferð til kortlagningar á Tjörnesi. Guðrún Gísladóttir, Jón Eiríksson, Steingrímur J. Sigfússon, Andrés I. Guðmundsson, Gunnar Bjarnason og Kristjana G. Eyþórsdóttir.
  • Gunnar flutti sig í brúarvinnuflokk Ásgeirs Kristinssonar vorið 1974. Ásgeir var síðar lengi forstöðumaður starfsmannadeildar Vegagerðarinnar.
  • Hjalti Sigfússon, Gunnlaugur Jónsson (Bóbó) og Baldur Kristensen voru bílstjórar sem Gunnar minnist með hlýju.
  • Sigfús Kristjánsson brúarsmiður var verkstjóri Gunnars í brúarflokknum fyrstu sumrin.
  • Sigurður Jóhannsson sem var Vegamálstjóri frá 1956 – 1976 réð Gunnar til starfa. Við hlið hans er Geir G. Zoega fyrsti vegamálastjórinn. Myndin er tekin 1956.
  • Gunnar með góðvini sínum Pétri Péturssyni og eiginkonu Péturs, Dóru Kristínu Björnsdóttur.
  • Þarna lítur Gunnar yfir farinn veg og dáist að handverki sínu á gömlu brúnni yfir Kjálkafjarðará.
  • Dæmigerður vegavinnuskúr sem tók við af hvítu vegavinnutjöldunum.
  • Matartími í brúavinnuflokki Huga Jóhannessonar við Köldukvísl árið 1974. Dæmigerður 24 manna eldhússkúr.

Toppurinn að byggja Borgarfjarðarbrú

Viðtal við Gunnar Bjarnason í Framkvæmdafréttum

18.3.2021

Gunnar Bjarnason forstöðumaður jarðefnadeildar lét af störfum hjá Vegagerðinni nýverið eftir rúmlega hálfrar aldar starf. Hér verður rætt við Gunnar um uppvaxtarár hans og skólagöngu, rifjaðar upp sögur úr brúarvinnunni þar sem ýmislegt var brallað og farið yfir helstu störf hans og rannsóknir.

Þessi grein birtist í 2. tbl Framkvæmdafrétta. Rafræna útgáfu má finna hér. Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.

Gunnar fæddist í Reykjavík 13. desember 1951. Sonur Dr Med Bjarna Oddssonar læknis (1907-1953) og Ástu Júlíu Árnadóttur (1914-1997). Móðir hans ólst upp frá níu til sextán ára aldurs í Norður Dakota í Bandaríkjunum en um hana og fjölskyldu hennar hefur verið fjallað í sex bókum og má þar nefna sögulegu skáldsöguna „Höll  minninganna“ eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og Loftklukkuna eftir Pál Benediktsson. Gunnar á þrjá eldri bræður, Odd, sem er læknir og fæddur 1935 en Örn (1937-2006) og Halldór (1940-2011) eru báðir látnir.

„Pabbi var í framhaldsnámi í læknisfræði fyrir stríð í Danmörku og Þýskalandi og varð fjölskyldan innlyksa erlendis öll stríðsárin. Pabbi Bjarni lést í bílslysi á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar haustið 1953, sem var að sjálfsögðu mikið áfall fyrir okkur öll,“ lýsir Gunnar en móðir hans giftist síðar Dr Med Jóhannesi Björnssyni lækni (1907-1966) og Gunnar eignaðist þar með þrjú stjúpsystkini; Valdimar, Björn og Hildi. Jóhannes lést langt fyrir aldur fram.

Í sveit frá þriggja ára aldri

„Uppvaxtarárin voru af mörgum ástæðum nokkuð erfið og róstursöm og hvað mig varðaði var mikil áhersla lögð á að ég færi í sveit og helst ekki seinna en strax. Ég var í sumardvöl á Silungapolli þegar ég var þriggja ára og á Vík í Skagafirði þegar ég var fjögurra ára. Eftir það datt ég í lukkupottinn og komst í sveit hjá yndislegu frændfólki mínu á Oddsstöðum í Lundarreykjadal í Borgarfirði, þeim Ástríði Sigurðardóttur, kölluð Ásta, og Kristjáni Davíðssyni. Faðir Ástu var tvíburabróðir Odds afa míns. Oddsstaðir voru tvíbýli og á hinum bænum bjuggu Ragnar Olgeirsson og Hanna systir Ástu. Dvölin í sveitinni var mjög ánægjuleg og ég byrjaði ungur að vinna öll störf sem herti mig fyrir þá vinnu sem var í vændum í brúarvinnunni. Sigurður Kristjánsson sem er nýlega hættur sem smiður og húsvörður hjá Vegagerðinni er frændi minn frá Oddsstöðum.“

Gunnar telur að áhugi hans á jarðfræði hafi vaknað á Oddsstöðum í fögru umhverfi við fossana í Grímsá sem falla þar niður í dalinn. Jötnabrúarfoss er neðsti fossinn og heitir hann eftir miklum berggangi sem er rétt neðan við fossinn.

Laugarvatn – Nýja Mexíkó - Reykjavík

Frá sex ára aldri til sextán ára var Gunnar við nám í grunnskólum í Reykjavík, Laugarnesskóla, Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla. Eftir landspróf fór hann í Menntaskólann á Laugarvatni og útskrifaðist þaðan með stúdentspróf vorið 1972. Laugarvatn varð fyrir valinu þar sem ekki voru kjöraðstæður heima en vistin á Laugarvatni var góð og þar eignaðist Gunnar marga af sínum bestu og nánustu vinum.

Frá 1972 - 1975 tók  Gunnar hlé frá námi og vann við ýmis störf á veturna. Var m.a. kennari 13 til 15 ára unglinga í Gagnfræðaskólanum í Keflavík veturinn 1972 – 1973 en vann einnig í tvo vetur við skúrasmíði hjá Vegagerðinni.

„Árin 1975 - 1976 var ég við nám í jarðfræði við „University of New Mexico“ í Albuquerque New Mexico en hætti í því námi eftir þrjú misseri. Það var ævintýraþráin og ferðaþráin sem olli því að ég fór til NM og nýtti ég tímann vel m.a. til að ferðast um Bandaríkin og Mexíkó. Þarna voru í skóla vinir mínir Reynir Böðvarsson og Svanbjörg Helga Haraldsdóttir. Svana varð síðar samstarfskona mín hjá Vegagerðinni í nokkur ár.“  

Á árunum 1977 til 1980 stundaði  Gunnar nám í jarðfræði við Háskóla Íslands og lauk BS prófi vorið 1980. Hann hélt áfram að mennta sig meðfram vinnu. Haustið 1993 fór hann í fjögurra mánaða námsleyfi til að stunda nám við University of California, Berkeley og sótti þar námskeið í fjórum greinum þ.e. jarðtækni, jarðverkfræði, burðarþolshönnun vega og flugvalla og hönnun malbiks.

Brúarvinna í fimmtán ár

Vinna Gunnars hjá Vegagerðinni spannar 54 ár og vann hann með sex af þeim sjö  vegamálastjórum sem hafa verið við störf frá því Vegagerðin var stofnuð árið 1918. „Fyrsti vegamálastjórinn, Geir Zoega, er sá eini sem ég vann ekki með en hann hætti árið 1957. Það var annar vegamálastjórinn, Sigurður Jóhannsson sem réði mig sumarið 1966 í gegnum klíku en hann var náfrændi stjúpföður míns Jóhannesar Björnssonar sem reyndar lést þá um haustið. Það var nánast regla að unglingar væru ráðnir í gegnum mismikla klíku; þeir í minnstu klíkunni fóru í vegavinnu, svo var það brúarvinnan en „aðallinn“ komst í mælingar,“ segir hann kíminn og áréttir að þetta sé nú að mestu sagt í gríni. „Sigurður Jóhannsson vegamálastjóri lést árið 1976 og eftir það varð ég að treysta á eigin verðleika, sem var hinsvegar ekkert grín.“ 

Árin í brúarvinnu voru að flestu leyti skemmtileg. „Þetta var fjölbreytt vinna í góðra vina hópi um og yfir tuttugu ungmenna, þó voru mun fleiri við Borgarfjarðarbrúna en þar komu saman þrír brúarflokkar. Auk þess hafði maður það upp úr krafsinu að læra trésmíði eða öllu heldur brúarsmíði, sem er ekki alveg sama vinnan enda er lítið um glugga, hurðir og innréttingar á brúm. Þegar ég hinsvegar keypti fokhelt raðhús í Hamrahverfi í Grafarvogi og hélt áfram með byggingu þess komst ég að því að nákvæmni okkar í brúarvinnunni hafði ekki verið síðri en í húsasmíði,“ rifjar Gunnar upp.

Brúarvinnunni fylgdu talsverð ferðalög, sem var frábært fyrir Gunnar sem segist ferðasjúkur bogamaður. „En flokkarnir mínir voru þó mest á Vesturlandi og Vestfjörðum.“

Fljótlegra að ríða belju í bæinn

Brýrnar sem Gunnar byggði voru allar einreinungar þar til kom að Borgarfjarðarbrúnni og raunar einnig lengi eftir að hún var byggð. „Nokkrar af brúnum eru þó enn í notkun en margar hafa verið leystar af hólmi með tvíreinungum og ræsum og má þar nefna eina fyrstu brúna sem ég byggði; 50 m langa brú yfir Brúará í Biskupstungum árið 1967. Þar vann ég við niðurrekstur staura og stálþils sem var skemmtileg en krefjandi vinna fyrir unglinginn,“ segir Gunnar sem er þetta sumar mjög minnisstætt.

„Þarna man ég eftir mínum fyrstu kynnum af Ólafi Ketilssyni rútubílstjóra sem ég átti eftir að kynnast nánar þegar ég var í Menntaskólanum á Laugarvatni. Ég fékk heiftarlega flensu og yfir 40 stiga hita þetta sumar og Sigfús verkstjóri varð að senda mig í bæinn með rútunni. Hann bað Óla sérstaklega um að gæta mín en dæmigert fyrir Óla Ket þá lét hann mig vinna alla leiðina við að aðstoða farþega og t.d. bera töskur og hagræða speglum allan þann óratíma sem ferðin tók. Óli var ekki þekktur fyrir hraðferðir; sumir sögðu að það væri fljótlegra að ríða á belju í bæinn eins og hann lagði raunar til þegar farþegar kvörtuðu.“

Tjöldin notalegri en skúrarnir

Fyrstu sumrin sváfu allir í tjöldum nema verkstjórinn og ráðskonan sem bjuggu í skúrum. Einnig var áhaldaskúr og eldhús. Tjöldin voru þessi hvítu sem margir kannast við og höfðu verið nánast óbreytt síðan í borgarastríðinu í Bandaríkjunum hundrað árum áður.

Vinnufélagar Gunnars voru margir Reykvíkingar en einnig Bílddælingar. „Sigfús Kristjánsson var verkstjóri en flokksstjóri var Kiddi frá Bíldudal (Kristinn Ásgeirsson) faðir Ásgeirs Kristinssonar en hann varð brúarsmiður með eigin flokk sumarið 1973. Gunnar flutti sig í flokk Ásgeirs vorið 1974 en Ásgeir var síðar lengi forstöðumaður starfsmannadeildar Vegagerðarinnar.“

Smám saman tóku skúrar við sem híbýli. Næstu vetur var unnið ötullega við skúrasmíði og Gunnar vann við það sjálfur í tvo vetur. Svo kom að allir gátu sofið í skúr en Gunnar segir að honum hafi þótt notalegra að sofa í tjaldi. „1977 komu svo fyrstu baðskúrarnir sem var mikil bylting. Áður en þeir komu böðuðum við okkur í ánni eða við skólpuðum af okkur úr volgu vatni sem við hituðum í fötu á „Alladin“ olíuofninum í tjaldinu.“

Vélknúin verkfæri voru fábrotin fyrstu árin í brúarsmíðinni. Aðallega aflóga bensínknúin hjólsög og einspokasteypuhrærivél. Verkfærin bötnuðu þó hratt og síðustu árin var kranabíll í flokknum sem auðveldaði vinnuna mjög mikið þar sem kraninn kom í stað handlangara og einnig lyfti hann steypunni í sílói að mótunum þannig að ekki þurfti lengur að aka steypu í hjólbörum. Gunnar minnist sérstaklega Volvo vörubílanna m.a. R7276, R7277 og R7278 og bílstjóra þeirra sem fluttu birgðir og ómissandi fréttir til afskekktra flokka. „Bílstjórarnir voru góðir og ljúfir félagar og má þar nefna Gunnlaug (Bóbó), Hjalta, Baldur, Svenna og Gunnstein.

Laumuðu bílnum í fyllinguna

Sólskinssumarið og þjóðhátíðarárið 1974 hóf flokkur Ásgeirs störf um vorið ásamt tveimur öðrum brúarflokkum við byggingu brúa og ræsa á Þingvallavegi til að gera allt klárt fyrir þjóðhátíðina. Hinir flokkarnir voru undir stjórn Huga Jóhannessonar og Sigfúsar Kristjánssonar en þetta var síðasta árið hans sem brúarsmiður.

„Eftir að hafa lokið við gerð palla og ýmiskonar aðstöðu á Þingvöllum vegna þjóðhátíðarinnar var haldið vestur að Kaldá á sunnanverðu Snæfellsnesi. Ómissandi hluti lífsins í brúarvinnunni var að fara á sveitaböll um helgar og fór vikan í að bollaleggja hvaða ball skildi valið en um mörg böll var að velja á Snæfellsnesi og í Borgarfirði. En þú ferð ekki á sveitaball nema þú eigir bíl og ákváðum við Eyþór Benediktsson, sem hafði verið skólafélagi minn í Menntaskólanum á Laugarvatni, að skella okkur á einn Voffa (VW) á 25 þúsund krónur. Fólksvagninn var hannaður af Porsche að fyrirmælum Hitlers og dugði á nokkur böll en svo bræddi vélin úr sér. Þá voru góð ráð dýr og urðum við Eyþór að skella okkur á annan Voffa og þar sem sá fyrri var í betra standi var ákveðið að flytja vélina á milli bíla. Komið var að lokum brúarsmíði á Kaldá og byrjað að fylla möl að brúarstöplunum en áður höfðum við félagarnir komið Voffanum fyrir undir fyllingunni. Það var svo mörgum áratugum seinna þegar byggt var ræsi í stað einreinungsins á Kaldá að Voffinn kom í ljós undir fyllingunni mönnum til mikillar undrunar enda um að ræða brot á reglum um gæði fyllingarefna,“ segir Gunnar og hlær að minningunni.

Bitar steyptir í Borgarfjarðarbrú

Gunnar vann við margar fallegar brýr og má þar nefna bogabrú á Haukadalsá í Dölum og einbita brú með millisúlum á Laugardalsá í Djúpi. Honum er eftirminnileg dvölin í Kerlingarfirði, Mjóafirði og Kjálkafirði en með brúm sem þar voru byggðar var tengdur nýr vegur um þessa firði og lagðist þá af vegurinn yfir Þingmannaheiði.

„Við rifum kláfabrýrnar á Þingmannaheiði og byggðum brýr úr timbrinu úti á Skálmarnesi og víðar. Nú hafa verið byggðar nýjar brýr (tvíreinungar) sem þvera þessa firði mun utar en gömlu brýrnar sem ég byggði voru í fjarðarbotnum. Einnig er eftirminnilegt að hafa tekið þátt í tengingu nýs Djúpvegar með byggingu brúa m.a. á Hestfjarðará.“

Toppurinn var þó að mati Gunnars að vinna við byggingu flaggskipsins Borgarfjarðarbrúar. „Okkar flokkur steypti þá 52 bita sem brúin hvílir á. Það er pínulítið svekkjandi að þessir bitar sjáist ekki frá veginum þannig að vegfarendur geti dáðst að þessu handverki sem sér varla á nú 44 árum seinna,“ segir hann kíminn.    

Haustið 1982 fór Ásgeir brúarsmiður til vinnu hjá Reykjavíkurhöfn. Þetta var eftir að Gunnar hóf störf sem jarðfræðingur en hann var fenginn til að taka við af Ásgeiri sem verkstjóri brúarvinnuflokksins. Hann lauk við byggingu brúar á Naðurdalsá sunnan við Bjarkarlund og byggði svo undirgöng undir Hafnarfjarðarveg.

Hagnýtar rannsóknir í fyrirrúmi

Starf Gunnars sem jarðfræðingur hefur alla tíð byggst á hagnýtum rannsóknum á námum og undirstöðu vega en ekki síður á þátttöku í rannsóknarverkefnum sem kostuð eru af Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar sem og erlendum sjóðum. „Raunar var eitt af mínum stærstu rannsóknarverkefnum einnig mitt fyrsta verkefni. Velgjörðarmaður minn Jón Rögnvaldsson, síðar vegamálastjóri, réð mig haustið 1980 til að stjórna yfirgripsmiklu verkefni um burðarþolsmælingar á vegum í Hvalfirði. Það verkefni vann ég í samstarfi við vin minn Jón Helgason heitinn sem síðar varð forstöðumaður hönnunardeildar og framkvæmdastjóri mannvirkjasviðs. Þessar rannsóknir á burðarþoli vega stóðu yfir á árunum 1980 til 1985 og voru framkvæmdar með plötuprófi og benkelmanbita og síðasta árið með falllóði. Alls voru mældir yfir 40 mælistaðir á sjö mæliköflum og var mikil áhersla lögð á að mæla alla mælistaðina vikulega á þáartíma, það er þeim tíma þegar freri er að fara úr jörðu. Settir voru niður frostdýptarmælar í alla kaflana og einnig höfð hliðsjón af úrkomu á svæðinu. Þá voru tekin sýni á öllum mælistöðum og voru þau sett í prófanir á rannsóknarstofu. Margar skýrslur voru gefnar út og lokaskýrsla árið 1985. Ein meginniðurstaða verkefnisins var sú að mjög mikil árstíðarsveifla var í burðarþoli þessara malarvega og gat burðarþol á þáartíma jafnvel verið allt niður í 20% af sumarburðarþoli þar sem mestur munur var,“ lýsir Gunnar og bendir á að margir kaflarnir voru byggðir á mó (afvatnaðri mýri). Önnur niðurstaða verkefnisins var að nokkurn veginn fullt burðarþol næst ekki nema þykkt veghlotsins nái um 1,2 m ef mór er í undirstöðu.

Á þessum árum og fram á nýja öld var mjög mikið að gera í hagnýtum rannsóknum og gerð útboðslýsinga fyrir vegi um allt land enda hófst þarna mikil uppbygging vega sem lagðir voru bundnu slitlagi, langmest klæðingu. „Sem dæmi stóð ég fyrir jarðfræðirannsóknum á flestum fjallvegum frá Vesturlandi til Austfjarða það er Holtavörðuheiði, Laxárdalsheiði, Vatnsskarði, Þverárfjalli, Öxnadalsheiði, Fljótsheiði, Jökuldalsheiði og Fjarðarheiði. Sérstaklega eftirminnilegar voru rannsóknir á um 40 km leið um Háreksstaðaleið á Jökuldalsheiði, en sá vegur var byggður fjarri alfaraleið. Þar kynntist ég sögu heiðarbýlanna sem þar eru nokkur meðfram veginum t.d. Háreksstaðir, Gestreiðarstaðir og Lindarsel. Manni leið svolítið eins og landkönnuði en sögur um þá hafa alltaf verið í uppáhaldi.“

Aftur jókst vinna við rannsóknarverkefni sem kostuð voru af rannsóknasjóðnum á síðasta áratug síðustu aldar. Þá tók Gunnar að sér formennsku í efnisgæðanefnd BUSL samstarfsins (1994-2001) (BUSL stendur fyrir burðarlög og slitlög) en var einnig formaður í rannsóknanefndunum Rannveg (2001-2007), Vegvirki (2007-2013) og Rannvirki (2013-2020). „Pétur Pétursson var ritari í öllum þessum nefndum en vinátta og náið samstarf okkar Péturs nær allt aftur til námsáranna.“

Skemmtileg vinna við vegorðasafn og námuvef

Gunnar hefur alltaf tekið virkan þátt í einstökum rannsóknarverkefnum sem tengjast steinefnum, malbiki og klæðingum. Hann hefur gætt þess að nýjungar skili sér í leiðbeiningarit og þá sérstaklega Efnisgæðaritið sem hann ritstýrði og endurskoðaði árlega í samvinnu við Pétur Pétursson. Í ritinu er gerð ítarleg grein fyrir kröfum til efnisgæða í veghloti og steinsteypu.

http://www.vegagerdin.is/upplysingar-og-utgafa/leidbeiningar-og-stadlar/efnisrannsoknir/

Hann hefur frá 2005 verið virkur í erlendum nefndum á sviði rannsókna og staðlagerðar, bæði norrænu samstarfi og evrópsku.

Ein skemmtilegustu verkefnin að mati Gunnars var að gegna formennsku í Vegorðanefnd og nefnd um Námuvefinn.

„Í Vegorðasafninu https://vegordasafn.vegagerdin.is eru skýringar og skilgreiningar á um 2.300 íðorðum sem varða vegagerð. Vegorðasafnið er einnig birt í Íðorðabankanum.“

Námuvefurinn http://www.namur.is er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Landsvirkjunar og Umhverfisstofnunar. „Á námuvefnum eru fjölbreyttar og ítarlegar upplýsingar m.a. um lög og reglugerðir sem varða undirbúning verka en einnig mikil umfjöllun um frágang og uppgræðslu á vinnusvæðum og þar með talið námusvæðum.“  

Frábær árangur í frágangi gamalla náma

Gunnar hefur haft umsjón með frágangi eldri efnistökusvæða. „Vegagerðin gaf út langtímaáætlun um námufrágang fyrir árin 2004 – 2018 og gerði áætlunin ráð fyrir að ganga frá alls 900 námum á þessum árum. Í dag eru örfáar námur eftir á þessum frágangslista. Eftir að frágangi er lokið hef ég skoðað námusvæðin ásamt Birni Stefánssyni frá Umhverfisstofnun sem hefur vottað fráganginn. Mikil og skemmtileg ferðalög hafa fylgt þessari vinnu og spanna þau nánast allt landið.“

Gunnar nefnir einnig Námukerfið en það er gagnagrunnur fyrir efnisnámur landsins þar sem finna má nauðsynleg hjálpartæki fyrir jarðfræðirannsóknir. „Í Námukerfið eru skráðar allar námur landsins óháð því hver er námurétthafi. Í gagnagrunninum eru nú skráðar yfir 3.300 námur. Almenningur hefur aðgang að upplýsingum um námur og um niðurstöður steinefnaprófana á vefsíðunni http://namur.vegagerdin.is/.“

Hlakkar til draumaferða framtíðarinnar

Nú er komið að starfslokum og Gunnar hlakkar til næstu ára. „Þetta hefur liðið ótrúlega fljótt miðað við hvað þessi tímamót virtust vera óralangt í burtu þegar við Sigga tókum húsbyggingarlán til 40 ára um 1980,“ segir hann glettinn en Gunnar er giftur Sigríði Birnu Björnsdóttur og eiga þau þrjú börn, Heiðrúnu kennara, Þorra Björn verkfræðing og Ástu Birnu hagfræðing. Barnabörnin eru orðin sjö á aldrinum tveggja til sextán ára.

„Við Sigga vorum búin að skipuleggja draumaferðina okkar og ætluðum að sigla inn í sólarlagið á skemmtiferðaskipi en aðstæður buðu ekki upp á að sá draumur gæti ræst. Þess í stað stundum við gönguferðir grimmt til að skankarnir verði í lagi fyrir draumaferðir framtíðarinnar,“ segir hann og brosir.

En hvernig er að hætta hjá Vegagerðinni eftir rúmlega hálfrar aldrar starf? „Þegar horft er til baka um farinn veg verður mér hugsað til þess hversu heppinn ég var að hljóta mitt uppeldi hjá Vegagerðinni þar sem alla tíð hefur ríkt einstaklega góður og jafnvel ástúðlegur vinnuandi. Það var gott fyrir unglinginn að geta leitað á náðir móðurlegra ráðskvenna í brúarvinnunni þegar eitthvað bjátaði á og síðar var ekki síður mikilvægt að geta leitað ráða hjá vinnufélögum sem alltaf tóku mér opnum örmum.“

Gunnar vill þakka öllum samstarfsmönnum sínum hjá Vegagerðinni ánægjulegt samstarf.

 

Skúralífið

Góður félagi Gunnars hjá Vegagerðinni, Viktor Arnar Ingólfsson, m.a. brúarvinnufélagi 1969-1972, gerði ítarlega grein fyrir aðbúnaði og vinnutilhögun í brúarvinnu í átta tölublöðum í Innanhúss blaði Vegagerðarinnar á árunum 2015 – 2016. Hér má sjá örstutt brot.

Á árunum 1967 til 1969 varð sú bylting í brúarflokknum að tjaldbúskapur lagðist af að mestu en íbúðarskúrar voru teknir í notkun í staðinn. Þó fylgdu flokkun áfram 2-3 tjöld árin sem ég var í brúarvinnu og nokkur ár þar á eftir.

Þessi fyrsta kynslóð nýrrar gerðar íbúðarskúra var með svefnplássi fyrir fjóra í einu rými (8 bil). Í sitthvorum gaflinum hékk koja þvert á veggnum en síðan voru tvö rúm langs eftir skúrnum. Síðar voru smíðaðir aðeins stærri skúrar (10 bil) sem skiptust í tvö tveggja manna herbergi. Þetta voru ágætar vistarverur og það fór vel um menn þótt þröngt væri. Skúrarnir voru vel einangraðar og vönduð smíði. Tæknimenn Vegagerðarinnar hönnuðu þá og brúarsmiðirnir sáu um smíðina á veturna, víða um land.

[…]

Einn steinolíuofn (Husquarna) var í miðjum íbúðarskúr og olíutankur hékk á öðrum skúrgaflinum að utanverðu. Með því að banka í tankinn heyrði maður hvað steinolían stóð hátt í tankinum. En ofnarnir voru dálítið erfiðir í notkun, það gat sest sót í þá og þurfti þá að þrífa brennsluhólfið og kveikinn ef það gerðist. Það var sóðalegt starf. Íbúarnir voru ekki alltaf sammála um hve mikið átti að hita upp. Það gat verið svalt niðri við gólf í skúrnum en molluheitt í efri kojunum því hitinn leitaði upp.

Íbúarnir báru ábyrgð á sínum skúr og urðu að sjá um þrif innanhúss og tiltekt í sínum frítíma. Litlir opnir skápar voru við endana á kojunum í gaflinum. Þar var hægt að hengja upp föt en annars voru fötin geymd í ferðatöskum sem hægt var að setja undir rúm. Snæri var oftast bundið upp á milli þverbita í loftinu og voru föt hengd þar upp til þerris. Lausar dýnur voru í kojunum og var persónulegum munum gjarnan stungið undir þær, tóbaki og lesefni. Flestir sváfu með lak og sæng en nokkrir voru með svefnpoka. Sumir settu teppi yfir rúmin á daginn. Ekki man ég til þess að strákarnir sem ég var með í skúr svæfu í náttfötum. Menn brugðu sér bara úr vinnufötunum og sváfu í nærfötunum yfir nóttina. Margir lögðu sig í hádeginu og var þá bara lagst í rúmið í vinnufötunum.

[…]

Þessi fjögur sumur sem ég var í brúarflokknum voru ekki snyrtiskúrar í flokknum, þ.e.a.s. með klósetti og sturtum. Þeir komu síðar. Þvottaaðstaða var því engin. Íbúarnir skiptust á að sækja vatn í blikkfötu í hádeginu og setja á olíuofninn. Um kvöldið var vatnið sæmilega heitt og dugði fyrir fjóra, a.m.k. til að þvo sér um andlit og hendur. Ráðskonurnar voru alltaf með stóran pott með vatni á olíueldavélinni í eldhússkúrnum og það mátti semja við þær ef meiri þvottur stóð fyrir dyrum, s.s. hárþvottur. Það gat gerst að menn yrðu að þrauka í þrjár vikur án þess að komast í bað. Það kom fyrir á góðviðrisdögum að menn böðuðu sig í ánni sem verið var að brúa en auðvitað var það ansi kalt. Þessi skortur á baðaðstöðu var sérstaklega tilfinnanlegur eftir steypuvinnu þegar sementsryk hafði smogið um allt.