Fréttir
  • Rétt sést glitta í vél Elvars Sigurgeirssonar þar sem hann mokar sig með snjóblásara í gegnum fannfergið á Flateyrarvegi (64). Mynd/Haukur Sigurðsson

Tífalt meiri snjóblástur fyrir vestan

Myndband af snjómokstri á Flateyrarvegi (64)

24.3.2020

Elvar Sigurgeirsson sinnir vetrarþjónustu fyrir Vegagerðina á Flateyrarvegi (64). Haukur Sigurðsson ljósmyndari fyrir vestan hitti á Elvar þar sem hann var við störf 20. mars síðastliðinn. Elvar var þá að mjaka sér í gegnum gríðarlega snjóskafla. „Þetta hefur gengið vel miðað við snjómagn, ætli þetta séu ekki rétt rúmir fimm metrar,“ segir Elvar en vélin sem hann vinnur á er 4,20 metrar en á myndbandinu sést að snjórinn nær um meter yfir hana. „Þetta er búið að vera mjög leiðinlegur vetur og erfiður samgöngulega séð. Það er búið að vera ófriður síðan um miðjan desember.“

Í fyrra notaði Elvar snjóblásarann í um 49 tíma allan veturinn. Það sem af er vetri hefur hann þurft að nota blásarann í nærri 500 tíma, tíu sinnum fleiri en í fyrra. Þetta staðfesta tölur frá þjónustusviði Vegagerðarinnar sem Bjarni Már Gauksson á vegaþjónustudeild hefur tekið saman.

h

Einn verktaki fór í kringum jörðina á hálfum mánuði

Þann 24. mars 2020 var akstur snjómoksturstækja á landsvísu kominn í 1.661.000 km sem er talsvert meiri en allur heildarakstur síðasta vetrar 2018-2019 sem var 1.422.639 km. Vinna við snjómokstur og hálkuvarnir þennan veturinn er því nú þegar orðinn 16 prósentum meiri en síðastliðinn vetur. Verði það sem eftir lifir vetrar svipað fyrri vetrum má búast við að enn eigi eftir að bætast hundrað þúsund kílómetrar eða fleiri við núverandi stöðu.

Veturinn 2019-2020 byrjaði raunar rólega og voru vetrarverkin færri en við var búist frá 15. september til 16. desember. Síðan bætti í og hefur verkmagn haldist nokkuð hátt frá mánaðarmótum nóvember- desember að undanskildu tímabilinu 1. til 15. febrúar.

Erfiðustu tímabilin voru dagana 1. til 15. janúar og 16. til 28. febrúar. Þá daga sem mest var ekið í snjómokstri og hálkuvörnum var akstursmagnið yfir 20 þúsund kílómetrar á sólarhring. Lang mest var ekið 28. febrúar þegar eknir voru 28.600 kílómetrar á einum sólarhring. Mesta akstursmagn einstaks verktaka á 15 daga tímabili var um 42.000 km eða rúmlega ummál jarðarinnar.

Djúpur snjór fyrir vestan og þörf á blásurum

Byrjun þessa árs hefur verið æði erfið fyrir vetrarþjónustuna. Þegar hafa verið eknir um 150 þúsund fleiri kílómetrar en áætlanir gerðu ráð fyrir en einnig hafa verið unnir fjölmargir vélatímar í útmokstri og snjóblæstri.

Á leiðinni milli Þingeyrar, Flateyrar og Suðureyrar, sem Elvar Sigurgeirsson ekur meðal annars, er akstursmagn komið í 35.587 km en heildar akstursmagn síðasta vetrar var 25.623 km á þessari leið og veturinn 2017-2018 voru eknir þar 29.549 km. Líkt og Elvar benti á er vélartími snjóblásara kominn í um 500 tíma en í fyrra var hann notaður í um 49 tíma.