Fréttir
  • Malbikunarframkvæmdir eru í fullum gangi.
  • Yfirlitsmynd yfir framkvæmdir á Suðurlandsvegi í október 2019.
  • Malbikunarframkvæmdir eru í fullum gangi.
  • Malbikunaráætlun - Austurendi
  • Malbikunaráætlun - austurendi.

Tafir vegna framkvæmda á Suðurlandsvegi við Hveragerði

Hámarkshraði takmarkaður við 30 km/klst

8.10.2019

Vegna vinnu við breikkun Hringvegar (1) má búast við umferðartöfum á um þriggja km kafla frá Hveragerði austur að Kotstrandarkirkju á næstu dögum. Á afmörkuðum kafla við Varmá og á afmörkuðum kafla við Gljúfurholtsá má búast við að hámarkshraði verði takmarkaður við 30 km/klst meðan vinna við malbikun á nýjum Hringvegi fer fram.

„Það hefur verið ágætur gangur í framkvæmdunum. Nú erum við komin í lokafasann. Við klárum að malbika Hringveginn sjálfan á morgun, miðvikudag, utan tenginga til vesturs og austurs. Við þurfum að hægja aðeins á umferðinni í nokkra daga og þurfum að breyta hjáleiðum meðan við tengjum veginn. Ég býst ekki við miklum umferðarteppum og með smá þolinmæði kemst fólk leiðar sinnar,“ segir Ágúst Jakob Ólafsson yfirverkstjóri hjá ÍAV.

Gera má ráð fyrir að framkvæmdir hefjist miðvikudaginn 9. október. Umferð verður beint um hjáleið vestan við Varmá en vestan við Gljúfurholtsá verður umferð ljósastýrð. Ráðgert er að  vinna  við malbikun á ofangreindum stöðum standi yfir í  um vikutíma og má  búast við talsverðum umferðartöfum á meðan.

Það er von Vegagerðarinnar að vegfarendur sýni þessum framkvæmdum skilning og þolinmæði en þessi leið er farin til að koma í veg fyrir að veginum verði lokað alveg meðan á malbikun stendur.  Eftir að þessum malbikunarframkvæmdum er lokið verður umferð aftur hleypt á Ölfusveg norðan við nýjan Hringveg þar sem umferð hefur verið undanfarna mánuði.

Annars erum við að sinna lokafrágangi á Hringveginum. Erum að setja niður víravegrið, mála merkingar og setja niður skilti. Við stefnum svo á að opna Hringveginn í lok þessa mánaðar,“ segir Ágúst en þá lýkur fyrsta áfanga tvöföldunar Suðurlandsvegar milli Hveragerðis og Selfoss.

Hér má sjá myndband af allir framkvæmdinni.

https://www.youtube.com/embed/pEnyHqN9Aq4"