Fréttir
  • Merkingar á Suðurstrandarvegi 22. mars
  • Suðurstrandarvegur skemmdir mars 2021 myndir 22. mars
  • Suðurstrandarvegur skemmdir mars 2021 myndir 22. mars
  • Suðurstrandarvegur skemmdir mars 2021 myndir 22. mars
  • Suðurstrandarvegur skemmdir mars 2021 myndir 22. mars

Suðurstrandarvegur opnaður með takmörkunum

Einstefna í austur frá Grindavík

22.3.2021

Suðurstrandarvegur verður opnaður með takmörkunum í kvöld mánudaginn 22. mars. Einstefna verður á veginum frá lokuninni sem verið hefur við bæinn Hraun Grindavíkurmegin en tvístefna verður frá vegamótunum við Krýsuvíkurveg í vestur u.þ.b. að Ísólfsskála sem verður þá nálægt þeim stað þar sem mögulegt verður að leggja bílum t.d. út í kant á veginum ef ætlunin er að skoða gosið í Geldingadal. 

Á leiðinni milli Grindavíkur og gosstöðvanna þar sem verður einstefna er fólk beðið að stöðva hvorki né leggja bifreiðum sínum fyrr en eftir að komið er yfir Festarfjall, eða eftir í fyrsta lagi 2 km frá Hrauni. Hámarkshraði verður 50 km á klukkustund. Þungatakmarkanir eru í gildi og miðast við 7t ásþunga. Engar takmarkanir eru ef komið er að austanverðu. Þeir sem aka frá Grindavík og austur um þurfa síðan að aka áfram austur á bakaleiðinni og taka þá Krýsuvíkurveg til að komast til Reykjavíkur.

Unnið er að gerð skilta og einhvern tíma tekur að koma þeim þannig að svæðið sé tryggilega og rétt merkt áður en opnað er. Reikna má með að þeirri vinnu ljúki í kvöld, og þá verður leiðin opnuð um leið. Ekki er hægt á þessari stundu að tímasetja það nákvæmlega. Rétt er að benda á að svæðið við gosstöðvarnar er lokað og verður væntanlega lokað fram yfir það að þessari vinnu lýkur.

Ekki er sérstakt bílaplan á svæðinu en vegfarendur beðnir um að taka tillit til þess að það er erfitt að leggja og valda ekki spjöllum með utan vega akstri né loka leiðum neyðaraðila um veginn. Viðbragðsaðilar miða við að settur verði niður gámur við upphaf gönguleiðar þar sem hægt verður að afla upplýsinga og leita aðstoðar ef þörf reynist.

Leiðin að gosinu verður stikuð og ætti að auðvelda áhugasömum að berja gosið augum þegar það er heimilt frá hendi almannavarna sem metur t.a.m. hættuna af gasi á svæðinu.

Vegfarendur eru beðnir um að aka varlega og skoða vel aðstæður til að leggja bílunum því þær eru ekki með besta móti á þessu svæði og ekki víst að það verði hægt að taka þar við viðlíka fjölda og lagði á og við Grindavíkurveg og við Suðurstrandaveg við Grindavík núna um helgina. 

Við skoðun á Suðurstrandarvegi í morgun kom í ljós að sprungumyndun og sig hafði ekki aukist frá því fyrir helgi en myndirnar sem fylgja fréttinni voru teknar í dag.

Á kortinu sem fylgir fréttinni má sjá merkingar Grindavíkurmegin en einnig verður merkt við Krýsuvíkurafleggjarann þannig að skýrt sé að um botnlanga sé að ræða og ekki sé hægt að fara þá leið til Grindavíkur.