Fréttir
  • Nýi kaflinn liggur frá hringtorgi við Biskupstungnabraut og fjóra kílómetra í vestur undir Ingólfsfjalli.
  • Nýtt hringtorg við Biskupstungnabraut.
  • Hér sést aðkoman að nýja hringtorginu frá Selfossi.
  • Vonast er til að hægt verði að klára kaflann milli Kirkjuferjuvegar og Kotstrandar fyrir áramót.
  • Unnið er að því að steypa brúargólf í brúnna yfir Bakkárholtsá.
  • Undirgöng við Kotströnd eru langt komin.
  • Hér sést hvar ekið verður inn á nýja kafla Hringvegar.

Suðurlandsvegur – umferð hleypt á 4 km kafla

Nýtt hringtorg við Biskupstungnabraut tekið í notkun

7.9.2022

Umferð verður hleypt á nýtt hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan kafla Suðurlandsvegar fimmtudaginn 8. september milli klukkan 15 og 16. Kaflinn nær frá hringtorginu og um fjóra kílómetra í átt að Hveragerði. Verkið er nokkuð á undan áætlun en vonir standa til að opna allan veginn milli Hveragerðis og Selfoss fyrir árslok.

Verkið Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá er annar áfangi breikkunar Suðurlandsvegar milli Selfoss og Hveragerðis. ÍAV er aðalverktaki framkvæmdanna sem hófust í apríl 2020.

Framkvæmdin nær um sveitarfélagið Ölfus og sveitarfélagið Árborg og skiptist í Hringveg (um 7,2 km), Ölfusveg (um 6,6 km), Þórustaðaveg (um 0,4 km) og Biskupstungnabraut (um 0,7 km). Tvö stærri vegamót eru í framkvæmdinni, hringtorg við Biskupstungnabraut og nýjan Hringveg og svo hliðfærð T-vegamót á Hringvegi við Hvammsveg eystri og Kirkjuferjuveg. Til framkvæmdanna teljast einnig bygging fimm steyptra brúa og undirganga ásamt tveimur reiðgöngum úr stáli, auk breytinga á lagnakerfum veitufyrirtækja. Hringvegur er byggður upp sem 2+2 vegur en gengið verður frá yfirborði hans sem 2+1 vegi.

Framkvæmdir hafa gengið framar vonum og eru nokkuð á undan áætlun. Enn á eftir að steypa brúargólf á tvær brýr, yfir Bakkárholtsá og við Kotströnd. Þá á eftir að malbika veginn frá Kotströnd að Kirkjuferjuvegi en sá hluti Hringvegar var byggður nýr frá grunni.

Verkinu í heild á að ljúka í september 2023 samkvæmt útboði og verksamningi en útlit er fyrir að umferð verði hleypt á allan kaflann fyrir árslok en gera má ráð fyrir einhverjum frágangi fram eftir árinu 2023.

Samhliða þessum framkvæmdum er unnið að verkinu Hringvegur (1), Biskupstungnabraut-Hveragerði: Ölfusvegur um Varmá. Það er nýbygging um 780 metra langs vegar frá gatnamótum Sunnumerkur og Dalsbrúnar í Hveragerði að gatnamótum Ölfusvegar við Ölfusborgir austan Varmár. Stærstur þáttur í því verki er bygging nýrrar brúar á Varmá norðan Suðurlandsvegar.

Myndband um framkvæmdir við 2. áfanga Hringvegar milli Hveragerðis og Selfoss.

Nánar um verkið Hringvegur (1), Biskupstungnabraut – Gljúfurholtsá

Slitlag á Hringvegi, Biskupstungnabraut og hringtorgi verður tvöfalt malbik, samtals 110 mm þykkt. Á Ölfusvegi og Þórustaðavegi verður tvöföld klæðing með flokkaðri möl úr möluðu bergi, samtals 30 mm þykk

Inn í verkinu eru eftirfarandi vegaframkvæmdir:

  • Breikkun Hringvegar í 2+1
  • Hringtorg við Biskupstungnabraut
  • Ný vegamót og tengingar við Kirkjuferjuveg og Hvammsveg eystri
  • Að- og fráreinar við Þórustaðaveg
  • Ölfusvegur með hjólareinum
  • Þórustaðavegur
  • Tenging við Biskupstungnabraut
  • Heimreiðar að Mæri, Hvoli og Þórustöðum
  • Eftirlitsstaðir við Hringveg
  • Áningarstaður við Ölfusveg

Vegir

  • Hringvegur verður 22 m að heildarbreidd.
  • Ölfusvegur verður með hjólareinum og engum öxlum, heildarbreidd 9 m.
  • Þórustaðavegur verður 7 m breiður.
  • Biskupstungnabraut verður 10 m breið.
  • Hringvegur (Biskupstungnabraut) frá hringtorgi að Selfossi verður 9,5 m breiður.

Brúarmannvirki, undirgöng og reiðgöng

  • Brú yfir Gljúfurholtsá á Hringvegi. Núverandi brú var byggð árið 1967. Hana á að rífa og farga og byggja nýja lengri og breiðari brú á sama stað. Ný brú verður úr steinsteypu með eitt 12 m langt haf milli hliðarveggja. Brúarplatan er eftirspennt. Breidd brúarinnar er 23 m.
  • Brú yfir Gljúfurholtsá á Ölfusvegi, Byggja á nýja brú yfir Gljúfurholtsá vegna nýs Ölfusvegar. 10 m löng of 20,5 m breið.
  • Brú við Kotströnd á Hringvegi. Undirgöng fyrir akandi og hjólandi þar sem Ölfusvegur fer undir nýjan Hringveg. Brúin er mótuð þannig að rýmið undir henni virki rúmt og bjart. Veggjunum er hallað svo rýmið er víðara upp undir lofti en við jörð. Stoðveggir ganga út frá brúnni og mæta jarðvegsfláum frá vegöxlum svo mannvirkið fellur að landinu með látlausum hætti.
  • Brú yfir Bakkárholtsá á Hringvegi. Byggja á nýja brú yfir Bakkárholtsá vegna Hringvegar í nýju vegstæði. Auk þess að brúa ána eiga að liggja undir brúna vegslóðar sitt hvoru megin við ána.
  • Reiðgöng við Kögunarhól undir Hringveg (stálgöng). Stálplöturæsið er um 37,7 m langt neðst og eru fláar á því beggja megin. Rjúfa þarf núverandi Hringveg og grafa fyrir göngunum. Göngin ná stutt út úr vegfyllingunni beggja vegna.
  • Undirgöng fyrir bílaumferð við Þórustaðaveg undir Hringveg. Göngin verða úr slakbentri steinsteypu og eru 6,5 m milli hliðarveggja. Lengd ganganna er 26,5 m.
  • Reiðgöng við Árbæ undir Hringveg (stálgöng).

Einnig er um að ræða breytingar á lagnakerfum veitufyrirtækja. Um er að ræða lagnir Veitna, Mílu, Gagnaveitu Reykjavíkur, Ölfus, Árborgar, Árbæjarhverfis og Rarik.