Fréttir
  • Framkvæmdasvæðið nær frá Ketilsstöðum að Gunnarsstöðum.
  • Pálmi Þór Sævarsson svæðisstjóri Vestursvæðis Vegagerðarinnar og Óskar Sigvaldason framkvæmdastjóri Borgarverks ehf. við undirritun samnings.
  • Brú yfir Skraumu verður 43 m. löng.

Snæfellsnesvegur (54), Ketilsstaðir – Gunnarsstaðir

Skrifað undir samning við Borgarverk

13.12.2021

Vegagerðin og Borgarverk hafa skrifað undir samning um framkvæmd við verkið Snæfellsnesvegur (54), Ketilsstaðir – Gunnarsstaðir. Verkið felst í endurbyggingu Snæfellsnesvegar á um 5,4 km kafla. Innifalið í verkinu er bygging tveggja brúa á Skraumu og Dunká.

Vegurinn er að mestu endurbyggður í vegstæði núverandi vegar með nokkrum lagfæringum.

Brúin á Skraumu verður 43 m löng í þremur höfum, byggð upp af samverkandi stálbitum og steyptu brúardekki. Milliundirstöður eru tvær hallandi stálsúlur í hvorri undirstöðulínu með stífandi krossum á milli.

Brúin á Dunká verður 52 m löng staðsteypt uppspennt plötubrú í tveimur höfum. Milliundirstaðan er lóðrétt staðsteypt súla. Hún munu standa á steyptri undirstöðu sem grunduð er á klöpp vestan megin við megin rennsli árinnar, þar sem klöpp liggur ofan árfarvegarins.

Gert er ráð fyrir að í flóðum eða klakahlaupum geti vatn og ís náð upp á súlur brúanna án þess að valda skaða.

Verktaki hefur undirbúning framkvæmda fljótlega, framkvæmdir hefjast í mars 2022 en gert er ráð fyrir að verkinu sé að fullu lokið sumarið 2023.