Fréttir
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn: Guðmundur Ólafsson, Suðurverki
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn: Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn: Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra fær kennslu á græjuna
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn: Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sprengir
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn: Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra sprengir
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn: Sigurður Ingi Jóhannsson, Hreinn Haraldsson, Gísli Eiríksson
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn
 • Dýrafjarðargöng slegið í gegn

Slegið í gegn

gangagröftur í Dýrafjarðargöngum á undan áætlun

23.4.2019

 

Slegið var í gegn með hátíðarsprengingu í Dýrafjarðargöngum 17. apríl, miðvikudaginn fyrir páska, að viðstöddu fjölmenni. Það var samgönguráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson sem sprengdi síðustu sprenginguna. Gangagröftur hefur gengið vonum framar og mörg met slegin, svo sem 405 m í einum mánuði og 111 m á eini viku. Nú heldur áfram vinna við göngin sem munu opna á næsta ári. 

Gröftur hefur gengið mjög vel, hvort tveggja er að bergið hefur reynst mjög gott til gangagerðar og verkið hefur gengið mjög vel hjá verktakanum, engar tafir orðið vegna bilana eða annars. Mannskapurinn er enda orðinn mjög vanur íslenskum aðstæðum og kom hingað nánast beint úr Norðfjarðargöngum.

Að loknum ávörpum frá Guðmundi Ólafssyni Suðurverki og kollega hans frá Metrostav sagði samgönguráðherra nokkur orð í aðdraganda þess að síðasta sprenging yrði sprengd. Sigurður Ingi Jóhannsson benti á að með einum samgöngubótum ykist þrýstingur á aðrar samgöngubætur. Dynjandisheiðin væri á áætlun auk þess sem mikilvægt væri að ljúka vegaframkvæmdum í Gufudalssveit. Sigurður Ingi fékk síðan fyrrverandi vegamálastjóra Hrein Haraldsson til að vera með sér við að sprengja. Fyrst fékk hann þó kennslu á tækið hjá verktakanum. Sprengingin drundi í göngunum við fögnuð viðstaddra sem gengu síðan flestir að haugnum eftir sprenginguna, þar sem slegið var í gegn. Gestir þáðu síðan veitingar en það er verktakinn sem bauð enda þessi atburður á hans vegum.  

 

 

Nokkrar staðreyndir um göngin:

Samningur við verktaka, Metrostav a.s. og Suðurverk hf., var undirritaður 20. apríl 2017.

Samningsupphæð kr. 8.687.208.000,-

Samningur um eftirlit, Geotek ehf. og Efla hf., var undirritaður 17. maí 2017.

Samningsupphæð kr. 342.994.000,-

Lengd ganga í bergi er 5.301 m, vegskálar 144 m og 156 m eða samtals 300 m. Heildarlengd ganga með vegskálum er 5.601 m.  Hæð vegskálaenda er 35 m y.s. í Arnarfirði og 67 m y.s. í Dýrafirði.  Gólf í göngum fer mest í 90 m y.s. í miðjum göngunum og er mesti lengdarhalli 1,5%.  Þversnið er samkvæmt norskum reglum og nefnist T8, breidd þess er um 8,0 m í veghæð, þverskurðarflatarmál 53 m2

Í göngum eru 10 útskot, þar af fjögur snúningsútskot.  Inni í göngunum eru 4 steypt tæknirými og 2 lítil fjarskiptahús utan ganga.  Göngin eru malbikuð með steyptum upphækkuðum öxlum. 

Byggður er nýr vegur beggja vegna gangamunna.  Nýir vegir eru u.þ.b. 3 km Arnarfjarðarmegin og 4,8 km Dýrafjarðarmegin, samtals um 7,8 km auk tenginga.  Vegurinn verður 8 m breiður með 7 m akbraut.

Í tengslum við vegagerð að göngum er verið að byggja nýjar brýr á Mjólká (14 m) og Hófsá (16 m).  Einnig var byggð bráðabirgðabrú á Hófsá.

Rafmagnsbúnaður og öryggisbúnaður er fjölþættur, mest af búnaðinum er í 4 tæknirýmum, meðal annars 4 spennistöðvar.  Símaskápar eru einu skáparnir sem festir eru á veggi ganga, allir aðrir rafbúnaðarskápar eru í tæknirýmum.  Loftræstiblásarar 1 m í þvermál, eru 16 og eru tveir og tveir saman á 4 svæðum við tæknirýmin inni í göngunum. 

Í göngin skal leggja háspennukapla 3 einleiðara fyrir 132 kV spennu.  Þetta er gert fyrir Landsnet, en Vegagerðin kemur sem verkkaupi fram fyrir hönd Landsnets í verkinu. 

 

Helstu magntölur verksins eru:

 
Gröftur í göngum   312.000 m³
Fylling    580.000 m³

Burðarlag     

 90.000 m³

Rofvörn  

13.000 m³
Boltar   28.000 stk.
Sprautusteypa       14.000 m³
Einangrunarklæðing      50.000 m2
Steypa       3.200 m³
Jarðvatns- og ofanvatnslagnir  18.400 m
Ídráttarrör        45.000 m
Rafstrengir      74.000 m
Ljósleiðandi strengir        12.400 m
Upplýst umferðarmerki        83 stk.

Verkið hófst í júní 2017, með aðstöðusköpun og vinnu við forskeringu í Arnarfirði.

Fyrsta sprenging í Arnarfirði var 12. september 2017.

Fyrsta sprenging í Dýrafirði var 12. október 2018.

Verkinu skal að fullu og öllu lokið eigi síðar en 1. september 2020.