Fréttir
  • Kjalarnes undirskrift samnings
  • Kjalarnes undirskrift samnings

Skrifað undir samning um breikkun Hringvegar á Kjalarnesi

framkvæmdir hefjast strax

10.9.2020

Í dag var undirritaður samningur á milli Vegagerðarinnar og Ístaks hf. um lagningu fyrsta áfanga í breikkun Hringvegar um Kjalarnes milli Kollafjarðar og Hvalfjarðar. Um er að ræða breikkun á 4,1 km löngum kafla Hringvegar frá Varmhólum að Vallá. Breikka á núverandi 2 akreina veg í 2+1 veg með aðskildum akbrautum. Í verkinu felst gerð hringtorgs við Móa, tvenn undirgöng úr stálplötum við Varmhóla og Saltvík, áningarstaður, hliðarvegir og stígar. Fergja á vegstæði og framtíðarstæði stíga meðfram hliðarvegum. 

Verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Veitna og Gagnaveitu Reykjavíkur. Verkinu tilheyra ræsi, regnvatnslagnir, veglýsing, lagnir fyrir upplýsingakerfi Vegagerðarinnar og breytingar á lögnum veitufyrirtækja. 

Áætluð verklok eru 2023.

Ístak mun strax hefja vinnu við verkið.

Á annarri myndinni má sjá Karl Andreassen, framkvæmdastjóri Ístaks og Óskar Örn Jónsson forstöðumann framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar skrifa undir samninginn. Á hinni myndinni eru einnig þau Anna Elín Jóhannsdóttir og Gunnar Sigurgeirsson frá Vegagerðinni og Guðmundur Gíslason, Agnar Strandberg og Þröstur Sívertsen frá Ístaki.