Fréttir
  • Hornbjargsviti stendur á forkunnarfögrum en afskekktum stað. Mynd/Landhelgishæslan
  • Búnaður vegna viðgerðarinnar var fluttur í land í gúmmíbát. Mynd/Landhelgisgæslan
  • Nokkuð brölt þarf til að komast að vitanum. Mynd/Landhelgisgæslan
  • Nýr vindhraðamælir kominn að Hornbjargsvita. Mynd/Landhelgisgæslan
  • Vindhraðamælirinn bilaði þegar ísing féll á hann úr mastrinu. Mynd/Landhelgisgæslan
  • Varðskipið Þór. Mynd/Landhelgisgæslan
  • Hornbjargsviti stendur í Látravík suðaustan við Hornbjarg. Þangað er ekki auðvelt að komast með stuttum fyrirvara.

Skipt um bilaðan vindhraðamæli við Hornbjargsvita

Landhelgisgæslan kom til bjargar

16.4.2020

Vindhraðamælir Vegagerðarinnar við Hornbjargsvita bilaði þann 5. apríl síðastliðinn þegar ísing féll á hann. Ekki er hlaupið að því að komast út í Hornbjargsvita með stuttum fyrirvara í apríl en vitinn stendur í Látravík suðaustan við Hornbjarg. Haft var samband við Landhelgisgæsluna og varðskipið Þór og úr varð að nýr vindhraðamælir var sendur í varðskipið með þyrlu sem var á leið til þangað vegna reglulegra æfinga áhafnarinnar. Varðskipsmenn fóru síðan í Hornbjargsvita þegar fært var í land þann 9. apríl og klukkan 15 þann dag var búnaðurinn kominn í lag á ný.

Vegagerðinni er ómetanlegt það góða samstarf sem hún á við Landhelgisgæsluna sem oft hefur hlaupið undir bagga þegar mikilvæg tæki stofnunarinnar bila á afskekktum stöðum.

Þess má geta að strax að lokinni æfingu með áhöfninni fór þyrla gæslunnar til leitar að týndum mönnum á fjórhjólum fyrir vestan.