Fréttir
  • Bílar Vegagerðarinnar verða merktir á nýjan máta. Mynd/Baldur Kristjánsson
  • Merki Vegagerðarinnar
  • Merki Vegagerðarinnar.
  • Eldra merki Vegagerðarinnar

Sjór og ófæra í eldra merki

áhugaverð umræða um merki Vegagerðarinnar

21.2.2020

Nokkur umræða hefur átt sér stað um nýtt merki Vegagerðarinnar. Höfundar eldra merkis Vegagerðarinnar benda á að þeirra hugsun hafi verið að í merkinu væri bæði ófæra og þess vegna sjór auk vegar. Flestir sem hafa tjáð sig um nýja merkið eru nokkuð jákvæðir fyrir þessari breytingu, enda var ætlunin að hanna nýtt merki á gömlum grunni þannig að þrátt fyrir nýja útgáfu léki enginn vafi á að um væri að ræða Vegagerðina. 

Líkt og kom fram í eldri frétt af merkinu þá vann Hallgrímur Helgason hugmyndasamkeppni um nýtt merki árið 1983. Auglýsingastofa Kristínar var síðan fengin í það verk að hanna merkið og lauk þeirri vinnu 1985 en það gekk ekki þrautalaust fyrir sig.

Kristín Þorkelsdóttir upplýsir að hugmynd Hallgríms hafi verið á þá leið "að fjárstígur myndi breytast í malarveg og svo í malbikaðan veg". Kristín fékk það verkefni að raungera hugmyndina í merki. Hún segist hafa fengið tvo góða merkjahönnuði í verkið en það hafi ekki gengið. 

Kristín og maður hennar Hörður Daníelsson ákváðu þá að taka hönnunina alfarið að sér, og þau hönnuðu merki Vegagerðarinnar frá grunni út frá nýrri hugmynd, segir Kristín: "Í merkinu er hugmyndin að Vegagerðin leggi veg sem leiðir um ófærur og inn í byggt umhverfi. Það má einnig túlka sem frá sjó og inn í land." 

Sum sé, í vinstri hlið merkis Kristínar og Harðar eru ófærur eða sjór, og í hægri hliðinni er byggt land. Þannig að hugmyndinni svipar til tillögu Hallgríms en er þó ekki alveg sú sama, upplýsir Kristín. 

Það er rétt að halda því til haga að Kristín og Hörður hönnuðu eldra merkið og eiga hugmyndina að því þótt vinnan hafi hafist með vinningshugmynd Hallgríms.

Þannig getur legið löng leið að niðurstöðu, til merkis sem verður að lokum notað. Það á reyndar mjög vel við í vegagerð því vegagerðarfólk þekkir það vel að löng leið er frá því að hugmynd að nýjum vegi kemur fram og þar til hann er tekinn í notkun.


Nýja merkið er hannað af Kolofon. Merkið er í raun útfærsla á eldra merki Kristínar og Harðar enda lagt upp með það að það færi ekki á milli mála að Vegagerðin ætti í hlut. Merkið er þannig í senn nýtt og gamalt. Það hefur þó víðtækari skírskotun til nýrra og fjölbreyttari verkefna Vegagerðarinnar en við sameiningu samgöngustofnana árið 2013 komu til dæmis verkefni tengd höfnun, vitum og sjóvörnum til nýrrar Vegagerðar. 

Hægri hluti nýja merkisins táknar malbikaðan veg en mýkri línurnar til vinstri tákna sjóinn, náttúruna, vegi, öldur og umferðareyjur. Auk þess er má láta ímyndunaraflið ráða og sjá ýmislegt annað út úr merkinu sem reyndin hefur verið, hver hefur sína sýn. Sama má segja um eldra merkið sem hefur verið túlkað á margvíslegan hátt. Það má síðan túlka þá staðreynd á þann veg að um mjög gott merki sé að ræða.