Fréttir
  • Sjólag.is er ný vefsíða sem ætlað er að þjónusta sjófarendur.
  • Gamli vefurinn Veður og sjólag er enn virkur.
  • Nokkur tákn sem eru notuð á vefnum.
  • Sjólag.is er ný vefsíða. Vefurinn er hannaður með litblinda í huga.

Sjolag.is - Ný kortasjá um veður og sjólag

Aukin þjónusta við sjófarendur

19.11.2021

Í vor fór í loftið fyrsta útgáfa nýrrar kortasjár Vegagerðarinnar fyrir sjófarendur, sjolag.is. Vefnum er ætlað að uppfæra eldri spákort Veðurs og sjólags, á vef Vegagerðarinnar.  Með vefnum er þjónusta við sjófarendur aukin til muna auk þess sem gögn úr mælitækjum og spár eru gerðar aðgengilegar í vefþjónustum. Um sinn verða gömlu spákortin enn aðgengileg á sínum stað á Vegagerðin.is.

Upphafið

Siglingastofnun þróaði upplýsingakerfi um veður og sjólag til notenda á hafi upp úr aldamótum 2000. Kerfið skiptist annars vegar í mælingar (öldudufl og veðurstöðvar) og hins vegar í spár (öldu- og veðurspá og sjávarfallaspá). Við sameiningu hluta Siglingastofnunar og Vegagerðarinnar árið 2013 tók Vegagerðin við þessu kerfi.

Hafnadeild Vegagerðarinnar hefur bætt við sértækum ölduspám á grunnslóð við þetta kerfi og til þess nýtt öldulíkön. Þau sýna ítarlegri spár um ölduhæð á völdum stöðum við landið sem úthafsölduspáin náði ekki yfir.

Óveður kallar á breytingar

Mikið óveður gekk yfir landið norðanvert í desember 2019 og janúar 2020 svo af hlaust nokkuð tjón á höfnum. Eftir það kölluðu viðbragðsaðilar eftir ítarlegri upplýsingum um ölduspá við landið svo hægt væri að meta hvort og hvenær von væri á mesta ölduþunganum við hafnirnar og einnig var óskað eftir upplýsingum um sjávarhæð. Ríkisstjórnin ákvað á þessum tíma að veita sérstöku fjármagni í uppbyggingu innviða og bættar upplýsingar til sjófarenda. Sótt var um fé í þennan óveðurssjóð til að gera uppfærslu á Veðri og sjólagi.

Niðurstaða heils árs vinnu

Vinna við þessa uppfærslu hefur verið í gangi síðastliðið ár. Vinnan hefur aðallega snúist um að setja upp þysjanlega kortasjá á vefnum þar sem hægt er að birta flest gögn og spákort í upplýsingakerfi Veðurs og Sjólags á einum stað, á einu korti. Úthafsölduspáin frá Evrópsku Veðurstofunni (sem var fengin í gegnum Veðurstofu Íslands) var uppfærð og hún er í hærri upplausn þannig að hún sýnir stærra svæði í kringum landið með hærri tímaupplausn.

Grunnslóðalíkönum var fjölgað og bætt við sömu kortasjá en þar má einnig sjá mælingar úr duflum og veðurstöðvum auk sjávarfallaupplýsinga.

Læsileiki vefsins og aðgengi var stórbætt, til dæmis fyrir þá sem eiga erfitt með að greina liti.

Til stendur að bæta við vefmyndavélum sem vísa út á sjó, koma að frekari upplýsingum um hafnirnar og mælingar á sjávarhæð og öldum í þeim. Mögulega verða einnig gerð sértæk sjávarfallalíkön á völdum stöðum en auk þess eru enn fleiri hugmyndir á lofti um þróun vefsins í framtíðinni. Með tilkomu nýs vefs Vegagerðarinnar verður upplýsingakerfið Veður og Sjólag svo í heild sinni uppfært.

Hafnadeild Vegagerðarinnar hefur haft yfirumsjón með verkinu. Hún naut leiðsagnar ráðgjafanna Greips Gíslasonar og Guðfinns Sveinssonar og aðstoðar starfsmanna úr öðrum deildum. Hönnunarstofan Kolofon hannaði vefinn og forritaði.

Þessi grein birtist í 6. tbl. Framkvæmdafrétta.   Rafræna útgáfu má finna hér.  Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.