Fréttir
  • Framtíðin er gömul

Sjálfkeyrandi bílar á leiðinni

ekki spurning hvort heldur hvenær

24.10.2016

Framtíðin er handan við hornið en samt er mikið í hana spáð. Í samgöngumálum er fólk upptekið af nýjungum varðandi bílana en þróun í sjálfkeyrandi bílum er hröð þess dagana. Það er þó mismunandi hversu fljótt menn sjá fyrir sér að sjálfkeyrandi bílar verði komnir í notkun, hvað þá almenna notkun. Örfá ár eða áratugir? Enn erfiðara verður svo um að spá hvenær að því komi að okkur verði einfaldlega bannað að aka bíl. Tæknin sjái ein um það og á miklu öruggari hátt.

Líkt og sjá má á myndinni sem fylgir fréttinni þá er þetta ekkert ný hugsun en nú má reikna með að þessi framtíð sé ekki lengur fjarlægur möguleiki heldur veruleiki morgundagsins.

Umferðaröryggi er mikilvægt og sá þáttur sem margir líta til varðandi sjálfkeyrandi bíla. Ef hægt verður að losna við mannlega þáttinn úr akstrinum sjá margir fyrir sér mikla fækkun alvarlegra slysa og banaslysa í umferðinni. Annað er þáttur peninganna en með sjálfkeyrandi bílum má reikna með að umferðarmannvirki geti verið mun fyrirferðarminni auk þess sem sumir sjá einfaldlega fyrir sér að nýta mætti vel flest bílastæði í eitthvað allt annað. Land í borgum er dýrt og ef hægt væri að breyta notkun á bílastæðum væri það gríðarlegur hagur allra. 

Það er margt áhugavert sem spá má í varðandi framtíðina í þessum málum. Það verður gert þann 17. nóvember næst komandi á ráðstefnunni Bílar, fólk og framtíðin sem haldin verður í Hörpu þann dag. 

Vista Expo stendur að framkvæmd ráðstefnunnar í samstarfi við Samgöngustofu og Vegagerðina. Aðrir samstarfsaðilar ráðstefnunnar eru Bílgreinasambandið, innanríkisráðuneytið, Félag íslenskra bifreiðaeigenda og Samtök atvinnulífsins. Fjöldi aðila mun verða með kynningu á þjónustu sinni og vörum á meðan á ráðstefnunni stendur.

Markmiðið er að allir sem koma að umferð og umferðaröryggismálum hér á landi komi saman til að ræða þessa þróun og að hægt sé að marka vel skilgreinda stefnu.

Meðal fyrirlesara eru:

  • Aled Williams, verkefnastjóri EuroNCAP
  • Andreas Egense, frá dönsku Vegagerðinni
  • Ferry Smith, formaður stjórnar EuroRAP
  • Gunnar Haraldsson, hagfræðingur
  • Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar
  • Hreinn Haraldsson, vegamálastjóri
  • Tom Palmaerts, framtíðarrýnir

Heimasíða ráðstefnunnar er: www.bff.is en þar er hægt að skrá sig og nálgast nánari upplýsingar um ráðstefnuna, dagskrá hennar o.fl.

Ráðstefnan Bílar, fólk og framtíðin