Fréttir
  • Guðmundur Jón Björgvinsson og Ástþór Ingi Ólafsson, rafvirkjar á vitadeild, eru rúmlega hálfnaðir á siglingu sinni í kringum landið.
  • Efni hlaðið um borð í Tý á brottfarardegi.
  • Mikill efniviður var með í för. Mynd/GJB
  • Einar Heiðar Valsson skipherra á Tý.
  • Hornbjargsviti. Mynd/GJB
  • Grafa í gúmmíbát. Mynd/GJB
  • Beita þurfti ýmsum ráðum til að koma gröfunni í land. Mynd/GJB
  • Flytja þurfti ógrynni af efni í Hornbjarg. Mynd/GJB
  • Guðmundur við tvö hjól sem nýtt verða í ferðalaginu.

Sigla hringinn með varðskipinu Tý

Gott samstarf Vegagerðar og Landhelgisgæslu

20.6.2019

Rafvirkjar vitadeildar Vegagerðarinnar, þeir Guðmundur Jón Björgvinsson og Ásþór Ingi Ólafsson, héldu þann 11. júní af stað í hringferð kringum landið með Landhelgisgæslunni á varðskipinu Tý.

„Við erum að fara í alla þá vita sem við komumst ekki í af landi og þurfum því að sigla í. Þetta eru 36 vitar og einhverjar baujur, 42 verkefni í allt,“ segir Guðmundur en undirbúningur þessarar ferðar hefur staðið yfir í allan vetur.

„Það er alltaf ákveðin stemning að fara í svona ferð. Þetta er þó alls ekki eins og að fara í sumarfrí enda hörkupúl allan tímann. Við erum bara tveir frá Vegagerðinni í þetta skiptið en fáum mjög góða aðstoð frá strákunum í gæslunni sem hjálpa okkur þegar á þarf að halda.“

Guðmundur segir mjög gott samstarf ríkja milli Vegagerðarinnar og Landhelgisgæslunnar. Undir þetta tekur Einar Heiðar Valsson skipherra á Tý til 39 ára sem hefur farið í ófáar vitaferðir í gegnum tíðina. „Fyrst með Vita- og hafnamálastofnun, síðan Siglingastofnun og nú Vegagerðinni. Þetta eru mjög skemmtilegar ferðir. Hér áður fyrr vorum við að slást við gashylki sem gat verið erfitt en alltaf skemmtilegt. Ég man líka vel eftir því þegar verið var að skipta út gashylkjunum fyrir rafmagn sem var spennandi verkefni. Hlé varð á þessu samstarfi í nokkur ár en ég er mjög ánægður að það sé byrjað aftur.“

Yfir fimmtíu ferðir út í Hornbjarg

Mikill farangur fylgir vitadeildinni á slíku ferðalagi en hann jafnaðist þó ekki á við annan farm sem Landhelgisgæslan tók að sér að flytja út í Hornbjarg fyrir Ferðafélag Íslands í þessari ferð. FÍ leigir húsið við Hornbjargsvita af Vegagerðinni og stefnir í miklar framkvæmdir í sumar og af því tilefni þurfti að flytja mörg tonn af efnivið ásamt lítilli gröfu í land. „Upphaflega átti þyrlan að aðstoða við flutninginn en þar sem hún var biluð þurfti að notast við handafl og gúmmíbáta,“ segir Guðmundur en þeir Ingi tóku virkan þátt í flutningunum enda veitti ekki af mannskapnum í verkið. „Ætli hafi verið farnar í kringum fimmtíu eða sextíu ferðir með gúmmíbátum milli skips og lands,“ lýsir hann.

Hluti af efniviðnum var á vegum Vegagerðarinnar en til stendur að laga þak vitans í sumar. Guðmundur og Ingi stóðu þó ekki aðeins í flutningum við Hornbjarg heldur sinntu aðkallandi verkefnum í vitanum sjálfum, en skipta þurfti um vindrafstöð og vindhraðamæli.

Nú er ferðalagið rúmlega hálfnað en stærsta verkefnið sem bíður er í vitanum í Seley fyrir utan Reyðarfjörð. „Þar tökum við 19 rafgeyma og setjum 16 í staðinn. Hver rafgeymir er um 23 kíló eða þyngri og því mikið puð. En strákarnir í gæslunni ætla að hjálpa okkur við þetta,“ segir Guðmundur og er þakklátur því að veðrið hafi leikið við þá mestan tímann.