Fréttir
  • Framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar. Horft yfir til Grafar.
  • Tölvumynd af framtíðarvegi yfir Þorskafjörð og út að vestanverðu.
  • Horft út Þorskafjörð að vestanverðu yfir Grafarbæinn.

Samkomulag landeigenda Grafar og Vegagerðarinnar

Reynt verður að lágmarka áhrif á umhverfið

23.7.2021

Vegagerðin og landeigendur Grafar í Þorskafirði hafa náð samkomulagi um vegalagningu í Gufudalssveit.  Það er fagnaðarefni að ná þessum áfanga sem tryggir framgang þessarar nauðsynlegu samgöngubótar á Vestfjörðum en eigendur Grafar voru þeir einu sem ósamið var við.

Deilur hafa staðið um framkvæmdina vegna áhrifa á umhverfið. Við endurupptöku málsins nú síðustu ár hefur í allri hönnun verið lögð höfuðáhersla á að leita leiða til þess að lágmarka þau áhrif eins og nokkur kostur er.

Vegagerðin og landeigendur Grafar hafa átt í viðræðum á árinu með það meðal annars að markmiði að draga úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar en þessum viðræðum lauk með undirskrift samnings í dag, þann 23. júlí.

Vegagerðin og eigendur Grafar eru á einu máli að standa vel að verki og vanda frágang eins og kostur er.  Landeigendur Grafar hafa staðið gegn framkvæmdinni með hagsmuni náttúrunnar að leiðarljósi og verið í forgrunni í þeirri baráttu. Í kjölfar niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála varðandi framkvæmdaleyfi hafa þeir hins vegar unnið að því með Vegagerðinni að laga framkvæmdina sem best að landi innan landamerkja Grafar þannig að hún hafi sem minnst inngrip í náttúruna.

Framkvæmdir hófust sumarið 2020 með endurbyggingu Vestfjarðavegar frá Skálanesi í Gufudal sem gert er ráð fyrir að ljúki nú á næstu vikum og verður þá rúmlega 5 km kafli Vestfjarðavegar lagður bundnu slitlagi. Vorið 2021 hófust svo framkvæmdir við þverun Þorskafjarðar frá Kinnarstöðum að Þórisstöðum og er bygging 260 m langrar brúar að hefjast og er gert ráð fyrir verklokum 2024.  Næsti áfangi verksins er bygging Djúpadalsvegar, rúmlega 5 km langs vegar sem mun tengja Djúpadal við nýjan Vestfjarðaveg. Útboð var auglýst þann 21. júlí síðastliðinn og gert er ráð fyrir að þeim framkvæmdum verði lokið sumarið 2022.  Frekari útboð verða svo auglýst í haust.