Fréttir
  • Karl Andreassen framkvæmdastjóri Ístaks og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar við undirskriftina.
  • Ný veglína en við framkvæmdirnar styttist Hringvegur um 12 km.
  • Ný brú yfir Hornafjarðarfljót, 250 m í sex höfum.
  • Ný brú yfir Bergá, 52 m í tveimur höfum.
  • Ný brú yfir Hoffellsá, 114 m í þremur höfum.
  • Ný brú yfir Djúpá, 52 m í tveimur höfum.

Samið um fyrsta samvinnuverkefnið, Hringveg um Hornafjörð

Tímamót hjá Vegagerðinni

14.7.2022

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar og Karl Andreassen framkvæmdastjóri Ístaks hf. skrifuðu undir verksamning í húsakynnum Vegagerðarinnar þann 14. júlí 2022. Verkið snýst um byggingu og framkvæmdafjármögnun samvinnuverkefnisins; Hringvegur (1) um Hornafjörð.

Um er að ræða nýja legu Hringvegarins um Hornafjarðarfljót sem mun stytta núverandi Hringveg um 12 kílómetra. Framkvæmdin felur í sér lagningu 19 kílómetra langs þjóðvegar, byggingu fjögurra tvíbreiðra brúa, 52 metra langrar á Djúpá, 250 m langrar á Hornafjarðarfljót, 114 m langrar á Hoffellsá og 52 m langrar á Bergá. Einnig lagningu nokkurra hliðarvega, samtals um 9 kílómetra langra, auk tveggja áningarstaða.

Bergþóra var ánægð við undirskriftina. „Þetta eru stór tímamót fyrir Vegagerðina enda í fyrsta sinn gengið til samninga um svokallað samvinnuverkefni, sem snýst um að einkaaðili annast fjármögnun opinbers mannvirkis í heild eða að hluta. Hringvegur um Hornafjarðarfljót er með stærri samgönguframkvæmdum. Þar með styttist Hringvegurinn um 12 kílómetra og einbreiðum brúm fækkar um þrjár. Fólk hefur beðið lengi eftir þessari framkvæmd og ánægjulegt að hún skuli nú loks verða að veruleika.“

Karl Andreassen tók í sama streng. „Þetta er búinn að vera langur aðdragandi og mjög lærdómsríkt ferli. Nú hlökkum við til að hefja framkvæmdir og vera í samstarfi við alla aðila á svæðinu um þessa uppbyggilegu framkvæmd.“

Tilboð voru opnuð 17. maí 2022 og var Ístak hf. lægstbjóðandi í verkið, með tilboð upp á rétt tæplega 6,3 milljarða króna.

Verkinu skal að fullu lokið og afhent eigi síðar en 1. desember 2025.

Hér að neðan má sjá myndband sem sýnir grafískt yfirflug yfir fyrirhugaðar framkvæmdir.


Hringvegur um Hornafjörð