Fréttir
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar
  • Frá opnun Reykjavegar

Reykjavegur formlega opnaður

vegagerðin á sér langa sögu og var lengi á dagskrá

3.9.2021

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar opnuðu Reykjaveginn í Bláskógabyggð  formlega við hátíðlega athöfn 2. september. Lengi hefur legið fyrir að endurbæta Reykjaveginn og leggja hann bundnu slitlagi og fögnuðu heimamenn þessum áfanga. Vegurinn bætir mjög samgöngur innansveitar á milli bæjarfélaga sveitarfélagsins.

Sigurður Ingi og Bergþóra klipptu á borða á brúnni yfir ána Fullsæl og opnuðu þannig veginn formlega. Heimamenn, verktakar, landeigendur, Vegagerðarfólk og fleiri voru viðstaddir opnunina og lýstu menn almennt ánægju sinni með verkið. Flestir höfðu á orði að þessi vegagerð hefði veri lengi í bígerð en hún frestaðist af ýmsum mismunandi ástæðum nokkuð oft. Slíkt gleymist þó yfirleitt fljótt þegar farið er að aka eftir nýjum, breiðum og öruggum vegi með bundnu slitlagi.

Bergþóra kom einnig inn á þetta. " Til umhugsunar er að þegar ákvörðun um endurbætur á Reykjavegi voru teknar var heildarakstur á stofnvegum í Bláskógabyggð milli 20 og 30 þúsund km og þegar við raunverulega komumst af stað 2019 þá var þessi heildarakstur kominn í 80 þús. km. Umferðin hafði því rúmlega þrefaldast á þessu tímabili." Og bætti við, "Við þekkjum öll þessa sögu þegar heill atvinnuvegur, ferðaþjónustan, hóf sig til flugs en auk þess er vert að geta þess að nýr vegur yfir Lyngdalsheiði og ný vegtenging við Flúðir bættu að sjálfssögu aðgengi að svæðinu."

Ráðherra tók undir þetta í sínu ávarpi og lagði áherslu á mikilvægi samgangna innansveitar, benti á að mikið hefði verið gert á undanförnum árum auk þess sem að það væru mörg verk líka á áætlun til að mynda Einholtsvegurinn. "Markmiðið með nýjum vegi er að stytta vegalengdir og efla samgöngur fyrir íbúa og ferðafólk í uppsveitum Árnessýslu, en ekki síður að auka umferðaröryggi með því að leggja veg með bundnu slitlagi sem uppfyllir nútíma hönnunar- og öryggiskröfur," sagði ráðherra.

Endurbættur Reykjavegur leysir af hólmi 5,5-6,5 m breiðan lítið uppbyggðan malarveg sem á voru krappar beygjur þar sem mörg umferðaróhöpp hafa orðið í gegnum tíðina, auk einbreiðrar brúar yfir ána Fullsæl sem byggð var árið 1962. 

Vegurinn gegnir þýðingarmiklu hlutverki í sameinuðu sveitarfélagi en stysta leiðin milli þéttbýliskjarna er um Reykjaveg, þ.e.a.s. milli Laugarvatns og Reykholts. Einnig styttist leið að fjölförnum sumarhúsabyggðum á svæðinu. Vegurinn er um 8 km langur og liggur á milli Biskupstungnabrautar (35) rétt neðan Reykholts og Laugarvatnsvegar (37) ofan Brúarár.

Skæravörður var Ella Sóley Grétarsdóttir frá Syrði-Reykjum og heiðursmenn þeir Grétar Einarsson og Steinar Vignir Þórhallsson hjá Vegagerðinni á Suðursvæði.