Fréttir
  • Frá Bíldudal

Rétt og satt um útboð í flugi

vegna útboðsins Áætlunarflug á Íslandi – sérleyfi fyrir Vegagerðina

12.11.2020

Sú lagaskylda hvílir á Vegagerðinni að bjóða út áætlunarflug á Íslandi, sérleyfi fyrir Vegagerðina. Útboði vegna flugs á Gjögur, Bíldudal og til Hafnar í Hornafirði er nú lokið líkt og tilkynnt var í gær. Útboðið hefur tekið langan tíma m.a. vegna kærumála og af þeirri ástæðu að hægt var á ferlinu til þess að tryggja bjóðendum jafnræði og svigrúm til þess að leggja fram viðbótargögn og skýra sín tilboð. Þegar því var lokið var lægstbjóðendum með gild tilboð boðið til samninga. Útboðið fór fram samkvæmt reglum frá á EES-svæðinu.

Vegna yfirlýsinga sem birst hafa í fjölmiðlum er nauðsynlegt að árétta nokkur atriði. Útboðið var auglýst í apríl sl. og hafa verið fluttar fréttir af gangi mála síðustu mánuði þ. á m. þess efnis að Vegagerðin hefði látið fara fram nýtt val á bjóðendum eftir að hafa gefið þeim færi á að leggja fram viðbótargögn. Fréttir af því að lægsta gilda boði hafi verið tekið ætti því ekki að koma á óvart enda í samræmi við lög.

Tilgangur laganna sem útboðið byggir á er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.

Niðurstaða útboðsins var sú að Norlandair ehf. var með lægsta gilda tilboðið í flugleiðirnar Reykjavík – Gjögur – Reykjavík og Reykjavík – Bíldudalur – Reykjavík en Ernir ehf. var með lægsta gilda boð í flugleiðina Reykjavík – Höfn – Reykjavík. Bæði flugfélög uppfylltu skilyrði útboðsins.

Varðandi önnur atriði sem gagnrýnd hafa verið:

Flugvélar sem Norlandair ehf. býður fram til verksins uppfylla allar kröfur sem gerðar voru í útboðsgögnum, þar með taldar kröfur um jafnþrýstibúnað, burðargetu og farþegafjölda. Vélarnar eru að fullu samanburðarhæfar við þá vél sem fyrri rekstraraðili hefur notað sl. ár.

Samkvæmt upplýsingum frá Norlandair ehf. þá hyggst flugfélagið í framhaldinu aðlaga flugáætlun sína að þörfum íbúa og fyrirtækja fyrir vestan og taka tillit til birtuskilyrða á flugvellinum á Bíldudal.

Norlandair ehf. er í samstarfi við Air Iceland Connect með aðstöðu og farmiðasölu í Reykjavík og nýta bókunarvél félagsins við farmiðasölu.  

Norlandair ehf. sinnir sambærilegu verkefni fyrir Vegagerðina með flugi til Grímseyjar, Þórshafnar, auk þess að sjá um áætlunarflug á milli Akureyrar og Nerlerit Inaat á Grænlandi.