Fréttir

Rekstur almenningsvagna á Austurlandi flyst til Vegagerðarinnar um áramót

Heildstætt kerfi á landsvísu

2.12.2021

Vegagerðin mun um áramótin taka við rekstri almenningsvagna á Austurlandi af hendi SV-Aust, Strætisvagna Austurlands. Kerfi almenningsvagna á Austurlandi renna þannig inn í heildstætt kerfi á landsvísu. 
 
Í kjölfar útboðs fyrr á þessu ári var ákveðið að nýta tækifærið og færa rekstur strætó á Austurlandi til Vegagerðarinnar sem hefur rekstur almenningsvagna á milli byggðarlaga á sinni könnu.
Vegagerðin er með þjónustusamning við Strætó bs. sem heldur utan um tímatöflur, vagnaferla, þjónustu við farþega og farmiðasölu auk samskipta við rekstraraðila. 

Með þessari breytingu verður kerfið betra, heildstætt á landsvísu og felur í sér nokkra hagræðingu.