Fréttir
  • Nýi Herjólfur siglir til Vestmannaeyja.
  • Greipur Gísli Sigurðsson
  • Fyrsti snjómokstur vetrarins í október 2019. Mynd/@tryggviberg
  • Rafhlöður um borð í Herjólfi.
  • Tengið í hleðsluturninum.
  • Herjólfur er rafknúið skip.
  • Skýringarmynd á því hvernig skipið er tengt við hleðsluturninn.
  • Fannar Gíslason

Rafvæðing Herjólfs

Áætlað að Herjólfur sigli fyrir rafmagni í lok árs

26.8.2019

Í tilefni af eRally 2019, heimsmeistarakeppni rafbíla í nákvæmnisakstri, var haldinn morgunverðarfundur í húsnæði ON um raforkunotkun í samgöngum. Meðal fyrirlesara voru þeir Greipur Gísli Sigurðsson af vitadeild og Fannar Gíslason af hafnadeild Vegagerðarinnar. Þeir ræddu rafvæðingu hins nýja Herjólfs.
Nýi Herjólfur var upphaflega hannaður sem tvinnferja eða hybrid-ferja með 800 kWh rafhlöðum. Orkunotkunin átti því að vera sambland af dísel- og raforku sem þýddi umtalsverðan sparnað í olíukostnaði. Við hönnunina var hinsvegar ávallt gert ráð fyrir rými fyrir rafgeyma þannig að ferjan gæti siglt alfarið fyrir raforku síðar meir. Í byggingarferlinu var ákveðið að hefja rafvæðinguna strax í takt við aukna umhverfisvitund auk þess sem verð á rafgeymum lækkaði hratt sem gerði kostinn enn fýsilegri.

Skipið var smíðað af skipasmíðastöðinni Crist í Póllandi og afhent Vegagerðinni 4. júní 2019. Fyrsta áætlunarferðin með farþega milli lands og Eyja var farin 25. júlí.

Erfið leið þó stutt sé

Ennþá er skipið knúið dísilvélum einum, en þó er eitthvað verið að prófa og nýta tvinnmöguleika vélanna. „Í framtíðinni verður þessi leið milli Eyja og Landeyjahafnar farin á raforkunni einni saman og olían hverfur alveg,“ segir Greipur en bendir þó á að einhverjir óvissuþættir spili þar inn í. Til dæmis veður og öldufar sem gætu orðið til þess að skipið eyði meira rafmagni en áætlað er og því þurfi að grípa til vélanna líka.

Í eðlilegri ferð eyðast að meðaltali 1120 kW en vetrarsjólag getur keyrt eyðsluna upp. Greipur segir í reynd óþekkt fyrir rafmagnsferjur að sigla á svo útsettu hafsvæði þó siglingin sé stutt. „Mesta orkan fer í að yfirstíga skriðþunga þegar siglt er af stað. Ef farið er yfir 1250 kW þarf vélarafl að koma til eða lengja þarf hleðslutíma við bryggju.“

Hann tekur fram að ekki sé hægt að nýta raforkumöguleikann ef siglt er til Þorlákshafnar. Sú leið sé mun lengri og ekki gert ráð fyrir hleðslusturni í Þorlákshöfn. Á þeirri leið verði því að öllum líkindum notaður tvinnmöguleikinn.

Rafhleðsluturnar í notkun í lok október eða byrjun nóvember

Settir verða upp tveir hleðsluturnar, annar í Landeyjahöfn og hinn í Vestmannaeyjum. Turnarnir verða settir upp í næstu viku, 26. til 30. ágúst og síðan taka við ýmis tæknileg mál sem líklega verður lokið í kringum 15. október. „Þá fara fram prófanir á kerfinu. Skipstjórarnir þurfa að æfa sig að tengja og aftengja. Líklega verður lausnin tilbúin til notkunar um mánaðamótin október, nóvember,“ upplýsir Greipur.

Þegar allt er tilbúið er reiknað með að ferjan verði tengd rafmagni í hálftíma í hvorri höfn milli ferða. Sú innspýting á kerfið á að duga til að sigla á rafmagni einu saman milli lands og eyja.

Lætur vel að stjórn

Ekkert stýri er á nýja Herjólfi en rafmagnsferjur eru yfir höfuð ekki með stýri heldur svokölluð hældrif sem knúin eru rafmagnsmótorum. Greipur segir kosti hældrifsins marga. „Stýrið veldur núningi sem verður til þess að draga úr hraða skipsins þegar því er stýrt, hældrifin eru hins vegar alltaf í gangi og enginn núningur myndast við stjórnun skipsins. Þess vegna missir skipið ekki hraða þó því sé beygt eða siglt til hliðar. Hældrifin ýta skipinu áfram og geta snúist 360 gráður. Ganghraðinn er ekki fastur og auðveldara er að tímasetja komur til hafnar með hraðastýringu og hægt að sigla mjög hægt.“

Breytingar á Landeyjahöfn

Nokkrar breytingar verða gerða á Landeyjahöfn með tilkomu nýja skipsins. Fannar Gíslason fór yfir þessar breytingar á fundinum en byrjaði á því að árétta að miklar breytingar á höfninni séu varhugaverðar. „Það sem gert verður er að þrengja opið inn í höfnina og stækka innri höfnina.“ Breytingar á hafnarmynninu verða gerðar næsta sumar þegar útbúin verða plön fyrir dælukrana á endum hafnargarðanna á grjótfylltum stáltunnum. Breyting á innri höfninni er nærri lokið en hún snýst um að rýmka snúningspláss fyrir Herjólf og draga úr ókyrrð við hafnarbakkann.

Rafknúnar ferjusiglingar

Raforka hefur nokkuð lengi verið notuð í skipum en þær lausnir sem hafa verið til í raforkuhleðslum hafa takmarkast við langan bryggjutíma enda tími sem fer í að tengja og aftengja. Tiltölulega stutt er síðan farið var að þróa rafhleðslulausnir fyrir rafmagnsferjur í áætlunarsiglingum sem þarf að hlaða hratt og koma svo af stað aftur eftir skamman tíma.

Frumgerðir af slíkum hleðslulausnum komu fram árið 2015 í norsku rafmagnsbílferjunni Ampere en þar eru notuð hraðtengi bæði frá Stemman-Technik og Cavotec með sjálfvirkri lausn. Fleiri lausnir hafa fylgt í kjölfarið m.a. þjarkur frá ABB robotics sem notaður er í skipum á borð við Tycho Brahe, Aurora, Helsingör/Helsingborg, frá Wärtsilä Inductives sem má finna í ferjunni Folgefonn, og frá Visedo OY/DANFOSS og Mobimar sem eru í rafferjunni Ellen. 

Vegna skipshreyfinga í Landeyjahöfn var lausnin frá Stemman-Technic valin í Herjólf en hún hefur reynst einna best af þeim lausnum sem til eru.

Rafhlöður með 7 til 8 ára líftíma

Rafhlöður í skipinu eru af gerðinni Litíum- Nikkel-mangan-kóbalt Oxíð, (NMC) með grafít forskaut en framleiðandi þeirra er LG Chem. Uppsett afl er 2983 kWh ; 800 – 1100 VDC. Þessar rafhlöður eru svipaðar og í sumum rafmagnsbílum og geta orðið fyrir orkutapi vegna kulda, en hins vegar hefur kuldinn jákvæð áhrif á endingu.

Líftími rafhlaðanna er sagður 10 ár að tilteknum vissum forsendum. Reiknað hefur verið út að við þær aðstæður sem uppi eru við Íslandsstrendur og miðað við uppsetta siglingaáætlun Herjólfs sé líklegt að líftími rafhlaðanna sé nær 7 til 8 árum. Ef ferðum fjölgar er líklegt að líftími þeirra styttist enn meir.


Samanburður á nýja og gamla Herjólfi

                                      Herjólfur nýi               Herjólfur III

Heildarbreidd:            15,5 metrar                16,03 metrar

Heildarlengd:             71,78 metrar              70,5 metrar

Rista:                           3,01 metrar                4,0 metrar