Fréttir
  • Mynd 1. 	Staðsetning ræsipunkta á höfuðborgarsvæðinu ásamt umferðaljósum sem eru tengd við neyðarkerfi. Rauðir punktar sýna ræsipunkta en grænir punktar tákna gatamót sem eru tengd við neyðarkerfi.
  • Mynd 2.		Staðsetning ræsipunkta fyrir gatnamótin Snorrabrautar og Gömlu Hringbraut .
  • Mynd 3.	Fjöldi skipta sem neyðarkerfi fór í gang á dag ásamt meðalfjölda skipta á dag eftir vikunúmerum á gatnamótum Snorrabraut – Gamla Hringbraut. 
  • Mynd 4.	Tíminn sem neyðarkerfi voru virk við gatnamót Snorrabraut – Gömlu Hringbraut (1067).
  • Mynd 5.	Fjöldi skipta sem neyðarbílar kalla á neyðarprógram eftir stefnu á gatnamótum Snorrabrautar og Gömlu Hringbraut.

Ræsipunktakerfi neyðarbíla reynist vel

Rannsóknarverkefni styrkt af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar

11.4.2023

VSÓ ráðgjöf vann nýverið verkefni þar sem úttekt var gerð á ræsipunktakerfi/forgangskerfi neyðarbíla á höfuðborgarsvæðinu fyrir Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins(SHS), Vegagerðina og Skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Verkefnið var styrkt af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Á höfuðborgarsvæðinu er notast við forgangskerfi til að gefa neyðarakstri forgang í gegnum ljósastýrð gatnamót. Fjöldi umferðarljósa sem tengd eru við neyðarbílakerfið er 53 talsins af samtals 209 ljósastýrðum gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt upplýsingum frá sumarmánuðum 2022. Forgangskerfið virkar þannig að neyðarbílar hafa um borð tölvubúnað sem gefur frá sér GPS staðsetningu bílsins. Þegar bíllinn keyrir fram hjá ræsipunkti með forgangsljósin á, þá sendir tölvubúnaðurinn merki í miðstýrða tölvu sem skipar næstu umferðaljósum að setja af stað neyðarforrit sem gefur grænt ljós á þá stefnu sem bíllinn keyrir. Kerfið var tekið í notkun árið 2016 og er reynsla rekstraraðila jákvæð, en fram kemur að kerfið virki vel og auki öryggi bílstjóra neyðarbíla og annarra farartækja.  

Markmið verkefnis er að stuðla að styttri viðbragðstíma neyðarbílakerfis, auka skilning notenda kerfisins, gegnsæi á virkni kerfis og að kortleggja blinda punkta þess sem hjálpar við forgangsröðun framkvæmda og endurnýjun umferðarljósa.  

Með gögnum úr stýrikössum umferðarljósa frá Reykjavíkurborg og gögnum frá SHS úr búnaði neyðarbíla var hægt að kortleggja ræsipunkta á höfuðborgarsvæðinu og framkvæma tölfræðilega greiningu á virkni ræsipunktakerfisins.

Tekin var saman tölfræði um tvö gatnamót, Snorrabraut - Eiríksgötu og Snorrabraut – Gömlu Hringbraut, um hversu oft kerfið fer í gang og um neyðarbíla sem fara þar í gegn. Á tímabilinu 1. apríl – 14. júní 2022 hafði kerfið verið ræst 270-285 sinnum á hvorum gatnamótum, það er 3,5-3,8 sinnum á dag að meðaltali. Mest var kerfið ræst 10 sinnum á einum degi. Kerfið var að meðaltali í gangi í 62-63 sekúndur þegar það var ræst – en fór í 9%-12% tilfella nálægt hámarkstíma sem skilgreindur er (3 mín). 

Heilt yfir má því segja að kerfið sé mikið notað, bílar ræsi sig inn og út úr kerfinu innan skilgreindra tímamarka og hafi því ekki teljandi neikvæð áhrif á almenna umferð. Þó má fækka fjölda skipta sem kerfið keyrir til loka skilgreinds hámarkstíma, sér í lagi þeirra tilfella sem verða vegna tæknilegra annmarka.  

Langoftast er kallað á kerfið þegar neyðarbílar keyra til vesturs frá Fossvogsspítala og Skógarhlíð þar sem neyðarbílar hafa aðsetur eða í 92%-95% tilvika. Það skýrist af stórum hluta af því að neyðarljós eru líklegri til að vera á þegar bíll er á leið á vettvang – heldur en á leið til baka. Þó er athyglisvert hversu hátt hlutfallið er. 

Þegar höfuðborgarsvæðið er skoðað sem heild sést að flest ljósastýrð gatnamót sem tengd eru kerfinu eru staðsett í Reykjavík og þá helst á stofnbrautum eins og Bústaðavegi og Miklubraut. Helst vantar tengingu við Sæbraut, Suðurlandsbraut, Hringbraut, Breiðholtsbraut og Nýbýlaveg.  

Meginniðurstaða verkefnisins er að kerfið er mikið notað og neyðarbílar fá forgang oft á dag sem gefur til kynna að kerfið hafi hjálpað til við að stuðla að bættum viðbragðstímum í mörgum tilfellum. Betri endurgjöf mætti þó berast frá kerfinu til notenda (bílstjóra) svo þeir sjái að kerfið virki, og bílstjórar geti gefið endurgjöf til rekstraraðila ef ljós hefur ekki orðið grænt þegar kallað er á það. Áhugavert væri einnig í framtíðinni að setja viðbragðstíma fyrir upptöku kerfisins í samhengi við viðbragðstíma eftir upptöku þess, skilgreina árangursmælikvarða og halda úti tölfræði fyrir öll umferðarljós höfuðborgarsvæðisins.  

Greinin birtist fyrst í Framkvæmdafréttum 2. tbl. 2023 nr. 724.    Rafræna útgáfu má finna hér.     Áskrift að Framkvæmdafréttum er án endurgjalds og hægt er að skrá sig fyrir áskrift með því að senda póst á sogi@vegagerdin.is.