Fréttir
  • Opnun fjallvega á vorin ræðst í grunninn af veðurfari og snjóalögum.

Opnun fjallvega ræðst af veðurfari og snjóalögum

Ástand vega metið í samstarfi Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs.

3.6.2021

Samráðshópur Vegagerðarinnar, Lögreglunnar, Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs hélt árlegan vorfund sinn síðastliðinn mánudag, 31. maí.

Fyrrgreindar stofnanir eiga með sér gott samstarf, þar sem þungamiðjan er náttúruvernd, aðgengi, verndun innviða, öryggi vegfarenda og ábyrg ferðahegðun á hálendi Íslands. Liður í samstarfinu eru fastir fundir að vori – þar sem farið er yfir stöðuna varðandi tímabundnar vorlokanir á hálendisvegum (tímasetningar og mögulegar undanþágur), verkefni á komandi sumri, skiltamál, viðhald og stikun vega, meðferð utanvegaakstursmála og fleira.

Opnun fjallvega á vorin ræðst í grunninn af veðurfari og snjóalögum. Vegir eru opnaðir þegar frost er farið úr þeim og ekki hætta á skemmdum. Það fellur að sjónarmiðum náttúruverndar sérstaklega við akstursleiðir inn á, og um viðkvæm svæði. Allt kapp er lagt á að greiða för gesta um vegina eins fljótt og hægt er. Því er erfitt að ákveða tímasetningar fyrirfram með óyggjandi hætti.

Á heimasíðu Vegagerðarinnar má finna viðmiðunarupplýsingar. Þar er tafla yfir opnunardagsetningar helstu fjallvega á undanförnum 5 árum, sem gefa vísbendingar um hvenær má vonast eftir að fært sé orðið. Ef hægt er að opna fyrr, án þess að vegir og náttúra bíði tjón af því, er það gert. Ef ekki er unnt að opna vegi á meðaltalsdagsetningu þessa tímabils,  geta ferðaþjónustuaðilar sótt um undanþágu, nema ástand vega og svæða leyfi það alls ekki.

Ástand vega og svæða er metið í samstarfi Vegagerðarinnar, Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs, m.a. með sameiginlegum vettvangsferðum. Umhverfisstofnun og Vatnajökulsþjóðgarður sjá svo um að tryggja landvörslu á friðlýstum svæðum frá og með áðurnefndri meðaltalsdagsetningu og fyrr ef þörf er á.

Á köldum vorum, þegar vegir opna með seinna móti, er því gjarnan fyrsta verkefni landvarða að hafa eftirlit með lokunum Vegagerðarinnar og reyna að stemma stigu við því að ekið sé framhjá þeim með tilheyrandi afleiðingum og skemmdum. Slík atvik eiga sér því miður stað og eru sameiginlegt vandamál allra þeirra aðila sem að samstarfinu koma. Samhliða þessu er unnið hörðum höndum að því að standsetja hreinlætisaðstöðu og aðra innviði, jafnóðum og unnt er, svo hægt sé að taka fagnandi á móti gestum sumarsins.

Frekari upplýsingar um opnun hálendisvega má sjá á vef Vegagerðarinnar vegagerdin.is og í minnisblaði samráðshópsins frá 2018, sjá hér.