Fréttir
  • Fyrirhugaðir valkostir í mati á umhverfisáhrifum.

Opinn íbúafundur vegna færslu Hringvegar (1) um Mýrdal

Farið yfir forsendur og matsferli kynnt

21.1.2021

Vegagerðin auglýsir opinn íbúafund þar sem kynnt verða drög að tillögu að matsáætlun vegna færslu Hringvegar (1-b2_b4) um Mýrdal. Fundurinn verður haldinn í netheimum þriðjudaginn 26. janúar 2021 klukkan 12.

Árið 2013 var aðalskipulag Mýrdalshrepps 2012-2028 samþykkt með nýrri veglínu Hringvegar um Mýrdal, í jarðgöng sunnarlega í Reynisfjalli og sunnan við byggðina í Vík. Samgönguáætlun 2020-2024 gerir ráð fyrir fjármagni í undirbúning þessarar nýju veglínu. Vegagerðin vinnur því að forhönnun og undirbúningi á mati á umhverfisáhrifum vegna færslu Hringvegarins. Tilgangur fundarins er að vekja athygli íbúa, landeigenda og annarra hagsmunaaðila á að fyrsti áfangi matsferilsins sé hafinn.

Á fundinum verður farið stuttlega yfir forsendur verkefnisins og matsferlið kynnt. Drög að matsáætlun greinir frá áætlun Vegagerðarinnar um hvernig fyrirhugað er að vinna umhverfismatið og er þar m.a. gerð grein fyrir eftirfarandi:

  • Valkostagreiningu.
  • Helstu áhrifaþáttum framkvæmdarinnar.
  • Hvernig staðið verði að mati á umhverfisáhrifum.
  • Fyrirkomulagi kynninga og samráðs.
  • Framsetning gagna í frummatsskýrslu.

Opnuð hefur verið vefsjá (vik-hringvegur.netlify.app) þar sem hægt er að nálgast ýmsar upplýsingar sem tengjast matinu og koma á framfæri ábendingum og athugasemdum, en einnig má senda á netfangið erla@vso.is.

Frestur til að senda inn ábendingar er til og með 1. febrúar n.k.

 Beint streymi

Streymið á fundinum má finna hér: https://livestream.com/accounts/5108236/events/9495969

Hægt er að spyrja spurninga meðan á fundinum stendur í gegnum þennan hlekk: https://app.sli.do/event/ac3kls2a