Fréttir
  • Fjallabaksleið nyrðri.
  • Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar setti málþingið.
  • Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra ávarpaði þingið.
  • Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar.
  • Páll Gíslason staðarhaldari í Kerlingafjöllum.
  • Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar.
  • Helgi Kjartansson oddviti Bláskógarbyggðar.
  • Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður.
  • Gunnar Valur Sveinsson verkefnastjóri hjá SAF.
  • Hafliði Sigtryggur Magnússon og Snorri Ingimarsson frá Ferðaklúbbi 4x4.
  • Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands.
  • Tryggvi Felixson formaður Landverndar.
  • Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir verkefnastjóri hjá Vatnajökulsþjóðgarði.
  • Aðeins fyrirlesarar voru í salnum en áhorfendur fylgdust með í beinu streymi.
  • Aðeins fyrirlesarar voru í salnum en áhorfendur fylgdust með í beinu streymi.

Ólíkar skoðanir á framtíð þjóðvega á hálendinu

Málþing Vegagerðarinnar fór fram 11. maí

12.5.2021

Hátt í 300 manns fylgdust með beinu streymi af málþingi Vegagerðarinnar um framtíð þjóðvega á hálendinu sem haldið var þriðjudaginn 11. maí. Málþingið er upphafsstef í vinnu Vegagerðarinnar við að móta stefnu um hönnun vega á hálendi Íslands í samræmi við áherslur í landsskipulagsstefnu. Mjög góð umræða skapaðist á þinginu. Þó sjónarmiðin væru ólík voru allir sammála um að vernda náttúruna eftir fremsta megni.

Málþingið var haldið á Hilton Reykjavík Nordica. Allir fyrirlesarar mættu á staðinn en áhorfendur fylgdust með í beinu streymi. Bergþóra Þorkelsdóttir opnaði málþingið og bauð fólk velkomið.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra ávarpaði þingið. Hann sagði augu fólks hafa opnast fyrir nauðsyn uppbyggingar á hálendinu með auknum ferðalögum fólks og fjölgun ferðamanna. Hann taldi mikilvægt að gera grein fyrir mismunandi vegakerfum og ákveða þyrfti hvaða vegir skyldu vera greiðfærir og hverjir aðeins færir vel búnum bílum. Hann nefndi sem dæmi Kjalveg sem væri þekkt ferðaleið frá landnámsöld og enn í dag vinsæl til ferðalaga. Hann lýsti ánægju með orkuskipti á Kili en nýr ljósleiðari og raforkustrengur hafa nú leyst af hólmi mengandi dísilvélar.

Vegagerðin hefur metnað til að hanna vegi sem falla vel inn í náttúruna

Guðmundur Valur Guðmundsson framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar steig næstur í pontu og fór yfir stöðu vega á hálendinu í dag. Hann renndi yfir flokkun vega en stofnvegir á hálendinu eru fjórir; Kjalvegur(35), Sprengisandsleið (26), Fjallabaksleið nyrðri (F208) og Kaldidalur (550) , samtals 480 km. Hann greindi frá því að ekki væru áætlanir um framkvæmdir við hálendisvegi næstu 15 árin samkvæmt samgönguáætlun.

Guðmundur tók sérstaklega fyrir Kjalveg og Sprengisandsleið og hvaða hugmyndir hafa verið um uppbyggingu þeirra en umræðan um uppbyggingu á hálendinu er ekki ný af nálinni.

Að lokum áréttaði hann að Vegagerðin hefði mikinn metnað til að hanna vegi sem falla vel inn í náttúruna og sama eigi við um framkvæmdaaðila sem vanda sig við að ganga vel frá vegum.

Vill hóflega uppbyggðan Kjalveg

Páll Gíslason staðarhaldari í Kerlingarfjöllum fjallaði um sína sýn. Hann hefur í gegnum tíðina mótmælt langtímalokunum á stofnvegum og telur þær stangast á við lög. Hans skoðun er að byggja þurfi upp veginn á Kili enda eigi hálendið að vera fyrir alla. Hann er þó fylgjandi hóflega uppbyggðum vegi þar sem snjór safnist ekki fyrir. Hann sýndi máli sínu til stuðnings myndir af Kjalvegi í afar mismunandi ástandi og taldi ótrúlegt ef menn vildu halda honum í slíku horfi til að halda í einhverja „upplifun“ sem oft fælist í illa skemmdum bílum. Í því tilliti benti hann einnig á að rafbílar þoli illa Kjalveg sem rími illa við framtíðarstefnu í bílaeign landsmanna.

Góður upptaktur að samvinnu Vegagerðarinnar og Skipulagsstofnunar

Ásdís Hlökk Theodórsdóttir forstjóri Skipulagsstofnunar fjallaði um skipulagsforsendur vegakerfis og veghönnunar á hálendinu. Hún ræddi um landsskipulagsstefnu og mikilvægi þess að standa vörð um náttúru og landslag miðhálendisins vegna náttúruverndargildis og mikilvægis fyrir útivist. Í landsskipulagsstefnu sé til dæmis tekið fram að vegaframkvæmdum verði haldið í lágmarki, möskvar vegakerfisins verði sem stærstir og að hönnun allra vega taki mið af náttúruvernd, sérstaklega með tilliti til landslags, víðerna og verndar viðkvæmra svæða.

Hún taldi málþingið góðan upptakt að samvinnu Skipulagsstofnunar við Vegagerðina um greiningu á kostum varðandi þróun samgöngukerfis og útfærslu vega á miðhálendinu.

Þarf að huga strax að umhverfismati á Kjalvegi

Helgi Kjartansson oddviti Bláskógarbyggðar vill hóflega uppbyggingu stofnvega, sér í lagi Kjalvegar. Hann telur ekki þörf á uppbyggingu slóða en hins vegar eigi að viðhalda þeim. Hann segir mikið álag á vegunum eins og þeir eru í dag enda mikill áhugi á að fara um þá. Með því að byggja vegina upp væri komið í veg fyrir utanvegaakstur, skemmdir á bílum og rykmengun. Með uppbyggðum vegi fengju fleiri tækifæri til að skoða hálendið og njóta þess. Hann bendir einnig á að viðhald veganna sé dýrt, þá þurfi að laga oft með stórvirkum vinnuvélum og tilheyrandi flutningi á dísilolíu yfir illa greiðfæra vegi.

Stórt hagsmunamál fyrir landsbyggðina

Njáll Trausti Friðbertsson alþingismaður er mikill áhugamaður um Kjalveg. Hann benti á að 70 til 80 prósent allra ferðamanna sem sæki Ísland heim skoði Gullfoss og Geysi. Með heilsársvegi yfir Kjöl væri mögulegt að stytta til muna leiðina landshorna á milli og auðvelda ferðamönnum að komast til Norðurlands. Hann vill tengja Gullfoss og Mývatn en með Kjalvegi verði aðeins 300 km á milli.

Hann sagði uppbyggingu Kjalvegar stórt hagsmunamál fyrir landsbyggðina en hann hefur lagt til að Kjalvegur verði einkaframkvæmd.

Njáll benti á nýlega rannsókn sem sýndi að 1,3 milljónir erlendra ferðamanna sem komið hafi til landsins 2018 hafi tekið bíl á leigu sem sé sjöföld aukning frá 2010. Þetta sýni að fólk vilji ferðast á eigin vegum á bílaleigubílum og komast sem víðast.

Bæta þarf akstursskilyrði þjóðvega á hálendinu

Gunnar Valur Sveinsson verkefnastjóri hjá SAF, Samtökum ferðaþjónustunnar sagði helstu áskoranir SAF tengdum hálendisvegum vera opnun veganna að vori, viðhald vega og heflun, utanvegaakstur, tjónuð ökutæki, viðhald hópbifreiða og takmarkað aðgengi vegna ástands vega.

Afstaða SAF sé að bæta þurfi akstursskilyrði á þjóðvegum á hálendinu með lítillega uppbyggðum vegum þannig að þeir losi auðveldlega af sér vatn og haldist lengur opnir miðað við það sem nú er. Þeir vegir sem ekki séu F vegir; Kjalvegur, Kaldidalur og Fjallabaksleið nyrðri, verði gerðir að upp byggðum ferðamannavegum að mestu í núverandi vegstæði. Aðrir vegir á hálendinu verði skilgreindir í samræmi við akstursskilyrði.

Gunnar Valur telur að með því að bæta akstursskilyrði verði til betri dreifing ferðamanna, fleiri hringleiðir og það dragi úr álagi á þjóðvegi 1. Einnig muni það draga úr utanvegaakstri. Með bættum vegum geti ný kynslóð ökutækja og ökumanna komist á hálendið og umferðaröryggið verði meira.

Allir sammála um að vernda náttúruna

Snorri Ingimarsson og Hafliði Sigtryggur Magnússon komu fram fyrir hönd Ferðaklúbbs 4x4. Þeir sögðu skiptar skoðanir innan klúbbsins um framtíð vega á hálendinu en samhljómur væri um að vernda náttúruna.

Ferðaklúbbur 4x4 vill standa vörð um öræfastemninguna og ferðamenningu. Torfarnar slóðir eigi að vera til áfram og ekki eigi að setja kerfislæga þröskulda fyrir ungt fólk sem vilji fara inn á hálendið, eins og námskeið eða gjald til að komast inn á hálendið. Þeir telja ferðaleiðirnar menningarminjar og leggja áherslu á að miðhálendið megi ekki verða yfirfall fjölda-túrisma. Miðhálendið eigi að vera fyrir þá sem vilji njóta sérstöðu þess.

Þeir lögðu áherslu á að ekki eigi að fækka slóðum. Þegar séu til stór svæði án vélknúinna ökutækja víða um land.

Þeir sögðust ekki vera á móti því að laga þvottabretti og ryk og í raun væri það tvímælalaust náttúruverndarmál að lyfta sumum vegum í sömu hæð og landið í kring.  En huga þurfi vel að fjöldatakmörkunum ef farið verði í vegbætur.

Þeir telja mikilvægt að skilgreina ökutæki sem aka megi um ákveðna vegi. Í því augnamiði vilji þeir lögvernda hugtakið „jeppi“ fyrir torfærubifreið G, og að aðeins jeppar fái þá aðgang að F3 vegum.

Jeppafólk er að sögn þeirra Snorra og Hafliða mjög passasamt og styðji lokanir vega á vorin. Hins vegar sé farið fram á að unnið sé vel að ákvörðunum um upphaf og endi lokunartíma, að það ráðist af aðstæðum en ekki ráðningarsamningum landvarða.

Vilja tryggja aðgengi og auka öryggi

Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands sagði uppbyggingu innviða ævarandi verkefni FÍ. Hann var ánægður að heyra á málþinginu að þrátt fyrir ólík sjónarmið væru allir sammála um að standa vörð um náttúruna.

Helstu áherslur FÍ eru að endurbætur vega tryggi aðgengi að hálendinu, auki öryggi og komi í veg fyrir akstur utan vega, en að alltaf verði tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Enda sé náttúran stærsta aðdráttaraflið fyrir ferðamenn.

Hann telur mikilvægt að bæta aðgengi en stýra fjölda því massatúrismi á hálendinu sé alls ekki æskilegur.

Hálendisvegir eru ekki þjóðleið milli landshluta

Tryggvi Felixson formaður Landverndar var sammála því að þvottabretti og ryk væru leiðinda ferðafélagar. En hinsvegar yrði að sýna hálendinu umburðarlyndi og láta sig hafa slík leiðindi.

Hann taldi að ef aðgengið að hálendinu verði bætt of mikið með betri vegum þurfi að takmarka það með öðrum hætti.

Að mati Landverndar eiga hálendisvegir ekki að vera þjóðleið milli landshluta. Þjóðleiðin liggi meðfram strönd landsins. Þá eigi að varast uppbyggða vegi á hálendinu nema fyrir því ríki miklir þjóðhagslegir hagsmunir. Takmarka eigi gerð nýrra vega og slóða og merkja vel þar sem aka má. Einnig sé nauðsynlegt að greina milli ferðamannavega og almennra vega. Ferðamannavegi eigi að leggja þannig að þeir raski sem minnst landslagi og náttúrufari.

Tryggvi hvatti fólk til að nýta reynslu erlendis frá og hafði trú á því að Íslendingar gætu vel náð utan um þessi mál.

Vöð eru öflugar náttúrulegar hindranir

Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir verkefnastjóri hjá Vatnajökulsþjóðgarði fjallaði um þjóðgarðinn, þær áskoranir sem þar er glímt við og ferli ákvarðanataka. Hún segir mikilvægt að huga að fleiri innviðum en vegum og bílastæðum. Einnig þurfi að huga að stígum og útsýnispöllum sem dæmi. Hún telur mikilvægt að kynna fyrir fólki muninn á vegtegundum og einnig hvað þau merki þýði sem sett eru upp.

Jóhanna fjallaði sérstaklega um ár og vöð sem hún segir skipta miklu í upplifun gesta. Þau séu í raun öflugar náttúrulegar hindranir en með því að brúa allar ár verði að beita öðrum fjöldatakmörkunum sem gæti orðið umdeilt. 

Hér fyrir neðan má sjá upptöku af málþinginu í heild en slóðin er  https://vimeo.com/545466315

.