Fréttir
  • Ölduspá Breiðafjörður

Ölduspá fyrir Breiðafjörð

nýtt hafsvæði með ölduspá á grunnslóð

4.5.2018

Vegagerðin hefur nú bætt við nýju hafsvæði í upplýsingakerfið Veður og sjólag undir liðnum Ölduspá á grunnslóð á heimasíðu Vegagerðarinnar.  Um er að ræða Breiðafjörð, en fyrir eru ölduspár fyrir Faxaflóa, Skjálfanda, Grynnslin við Hornafjörð og svæðið milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar. Síðuna er hér að finna .

Tilgangur ölduspáa á grunnslóð er að auka öryggi sjófarenda þar sem búast má við mikilli umferð fiskiskipa auk frístunda-, útsýnis- og hvalaskoðunarskipa.  Á úthafi þar sem botnáhrifa gætir ekki, er ölduspáin byggð á veðurupplýsingum frá Evrópsku veðurstofunni í Reading, ECMWF.  Nær landi þar sem sjávardýpi hefur áhrif á útbreiðslu öldunnar þarf að nota öldufarsreikninga og setja upp nákvæm reiknilíkön sem taka mið af botni og öldufari á djúpsævi.  Slíkt líkan keyrir nú tvisvar á sólarhring og birtir spá fjóra daga fram í tímann.  Hægt er að velja um myndir af ölduhæð, sveiflutíma öldu og öldustefnu.  Kortið fyrir Breiðafjörð sýnir enn fremur staðsetningu öldudufls við Flatey. Þannig fæst tenging ölduspákerfisins við rauntímamælingar duflsins og eru þær sýndar í töflu undir myndinni. 

Vonast er til að þessi viðbót nýtist þeim sem sigla um Breiðafjörð og hafi þeir athugasemdir eru þeir hvattir til að koma með ábendingar.  Upplýsingakerfið Veður og sjólag er í stöðugri þróun, sjófarendum til hagsbóta, og má búast við frekari umbótum og fleiri hafsvæðum á næstu misserum.