Fréttir
  • Stór ökutæki þvera Hringveginn á Kjalarnesi. Því eru ökumenn beðnir um að fara varlega.
  • Kort sem sýnir 1. áfanga framkvæmdanna frá Varmhólum að Vallá.
  • Tölvuteiknuð mynd af fyrsta áfanga. Þar sést 2+1 vegur með aðskildum akbrautum auk hliðarvega.
  • Framkvæmdir hófust í september síðastliðnum. Myndin er tekin í byrjun apríl 2021.

Ökumenn fari varlega á Kjalarnesi

Stór ökutæki þvera Hringveg (1) vegna framkvæmda

20.5.2021

Vegagerðin vinnur að fyrsta áfanga í breikkun Hringvegar (1) um Kjalarnes milli Varmhóla og Vallár. Verkið gengur vel og að jafnaði eru þrjátíu starfsmenn við vinnu í mikilli nálægð við þunga umferð. Stór ökutæki þurfa að þvera Hringveginn vegna framkvæmdanna sem skapar hættu bæði fyrir starfsmenn og aðra vegfarendur.

Mikil áhersla er lögð á öryggi og er umferðarhraði tekinn niður. Ökumenn eru beðnir um að fara með gát þegar ekið er í gegnum vinnusvæðið.

Hér fylgir umfjöllun um framkvæmdina sem fjallað er um í nýjasta tölublaði Framkvæmdafrétta. Vefútgáfuna má nálgast hér.

Þrjú hringtorg leysa nærri 30 vegtengingar af hólmi

Framkvæmdir við fyrsta áfanga Hringvegar (1) um Kjalarnes ganga vel að sögn Önnu Elínar Jóhannsdóttur verkefnastjóra á framkvæmdadeild Vegagerðarinnar. Framkvæmdir hófust í september í fyrra og mun ljúka vorið 2023. Seinni áfangi verksins verður boðinn út síðar í ár og mun verkinu í heild ljúka vorið 2024.

Skrifað var undir samning við Ístak hf. um lagningu fyrsta áfanga í breikkun Hringvegar um Kjalarnes milli Kollafjarðar og Hvalfjarðar þann 10. september 2020 og framkvæmdir hófust í sama mánuði.

Fyrsti áfangi verksins gengur út á breikkun á 4,1 km löngum kafla Hringvegar frá Varmhólum að Vallá. Breikka á núverandi tveggja akreina veg í 2+1 veg með aðskildum akbrautum. Í verkinu eru hringtorg, tvenn undirgöng úr stálplötum, áningarstaður, hliðarvegir og stígar. Fergja á vegstæði og framtíðarstæði stíga meðfram hliðarvegum.

„Þau verkefni sem lögð er áhersla á fyrstu mánuðina eru fergingar fyrir vegum,“ segir Anna Elín en hún bendir á þessu svæði sé víða mjög langt niður á fast og jarðvegur blautur sem kalli á þá aðferð að fergja til að undirbúa jarðveginn fyrir vegalagninguna. Hún er spurð hvernig ferging gangi fyrir sig. „Þá er jarðefni ekið í vegstæðið og það látið þjappast í tiltekinn tíma, oft upp undir ár. Þegar réttum þéttleika í jarðveginum er náð er hægt að hefja vegagerð,“ lýsir Anna Elín en jarðtæknisérfræðingar meta hvenær réttum þéttleika er náð.

Fyrir utan fergingarvinnu hefur mesti tími verktakans farið í jarðvinnu fyrir lagnir en verkið er samstarfsverkefni Vegagerðarinnar, Reykjavíkurborgar, Veitna og Gagnaveitu Reykjavíkur. Verkinu tilheyra ræsi, regnvatnslagnir, veglýsing, lagnir fyrir upplýsingakerfi Vegagerðarinnar og breytingar á lögnum veitufyrirtækja.

Umferðaröryggi eykst til muna

Áhrif framkvæmdarinnar á umferðaröryggi eru ótvíræð en slysatíðni hefur verið há á þessum kafla Vesturlandsvegar. Á öllum kaflanum, frá Kollafirði í Hvalfjörð, eru tæplega 30 vegamót, tengingar og þveranir auk þess sem umferðin er öll á 1+1 vegi án aðskilnaðar milli akstursstefna. Umferðin er þung en að meðaltali fara rúmlega níu þúsund ökutæki um veginn á hverjum degi. Með því að skilja að akstursstefnur, fjölga akreinum, fækka vegtengingum og byggja hringtorg verður hægt að draga mjög úr líkum á umferðarslysum.

Nánar um framkvæmd við 1. áfanga

Fylling/ferging. Fergja þarf vegna Hringvegar, hliðarvega og stíga. Einnig þarf að fylla í skurði sem á að leggja af og gera framræsluskurði og grjótræsi. Bæði meðfram hliðarvegi fjallsmegin og sjávarmegin er gert ráð fyrir sameiginlegum hjóla- og göngustíg.

Hringvegur, vegagerð. Breikkun núverandi Hringvegar, ásamt gerð hringtorgs við Móa og malbikaðra tengivega frá hringtorgi að hliðarvegum.

Á kaflanum eru lagðar ein til tvær akreinar á nýjum aðskildum vegi í átt til Hvalfjarðar. Núverandi Hringvegur heldur sér á kaflanum ef frá eru taldir aðlögunarkaflar við byrjun og enda ásamt aðlögun að nýju hringtorgi. Þá er nýr áningarstaður lagður sjávarmegin upp við núverandi veg.

Hliðarvegir, vegagerð. Í þessum hluta er um að ræða gerð klæddra hliðarvega og tenginga við heimreiðar. Auk þess gerð tengistíga fyrir hjólandi vegfarendur frá Hringvegi að nýjum hjólastíg.

Undirgöng við Varmhóla. Gerð undirganga úr stálplöturæsi fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi undir Hringveg við Varmhóla.

Undirgöng við Saltvík. Gerð undirganga úr stálplöturæsi fyrir gangandi, hjólandi og ríðandi undir Hringveg við Saltvík.

Upplýsingakerfi Vegagerðarinnar. Jarðvinna fyrir upplýsingakerfi Vegagerðarinnar vegna strenglagna að upplýsingabúnaði og uppsetningu mastra fyrir myndavél og upplýsingaskilti, uppsetning á lokunarhliðum við hringtorg og uppsetning á grind umferðargreinis.

Jarðvinna vegna lagna. Jarðvinna fyrir lagnir veitufyrirtækja, bæði fyrir kerfi Gagnaveitu Reykjavíkur og ýmsar lagnir fyrir Veitur, til dæmis kaldavatns- og hitavatnslagnir.

Annar áfangi boðinn út í ár

Annar áfangi er 5,6 km langur og nær frá Vallá að Hvalfirði, í gegnum Grundarhverfi. Hönnun er á lokastigi en nýverið var auglýst útboð á eftirliti og ráðgjöf fyrir áfanga 2 með það fyrir augum að eftirlitsaðilar rýni hönnunargögn fyrir útboð. Breyting á deiliskipulagi er nú í sex vikna auglýsingu og var í kynningu hjá Reykjavíkurborg. Að því loknu verður sót um framkvæmdaleyfi og verkið boðið út. Stefnt er að því að framkvæmdir geti hafist í haust.

Áætlað er að bjóða út hljóðvarnir og stíga meðfram öllum vegarkaflanum með áfanga 2.

Framkvæmdir á fyrsta og öðrum áfanga verða því unnar samhliða en áætlað er að framkvæmdum við fyrsta áfanga ljúki 2023 en seinni áfanga árið 2024.

Áfangi 1, Varmhólar - Vallá

Lengd: 4,2 km

Vegamót fyrir: 10

Vegamót eftir: 0

Hringtorg: 1 við Móa

Undirgöng: 2 við Varmhóla og Saltvík

Verki lokið: 2023


Áfangi 2, Vallá - Hvalfjörður

Lengd: 5,5 km

Vegamót fyrir: 20

Vegamót eftir: 0  fyrir utan vigtunarplan við Bakka

Hringtorg: 2 við Móa og Dalsmynni

Undirgöng: 2 við Grundarhverfi og Arnarhamar auk lengingar á undirgöngum við Vallá.

Stálplöturæsi: 1 yfir Ártúnsá við Bakkaveg

Verki lokið: 2024