Fréttir
 • Á slysakorti Samgöngustofu er að finna ítarlegar upplýsingar um umferðarslys sem hafa orðið á Íslandi frá 1. janúar 2007 til og með ársins 2018.
 • Kortið sýnir þau umferðaröryggisatriði sem farið verður í 2019.
 • Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar.

Oft má bæta öryggi vega með litlum tilkostnaði

Vegagerðin nýtir gögn frá Samgöngustofu til að auka öryggi vega

13.5.2019

Nýtt slysakort Samgöngustofu var kynnt á morgunverðarfundi nýverið sem boðið var til af Umferðaröryggisráði og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Yfirskrift fundarins var Víti til varnaðar og var markmið hans að kynna nýtt slysakort, fara yfir tölfræði umferðarslysa árið 2018, helstu breytingar og með hvaða hætti tölfræðin nýtist til forvarna.

Meðal þeirra sem tóku til máls var Auður Þóra Árnadóttir, forstöðumaður umferðardeildar Vegagerðarinnar, sem flutti erindið „Nýting slysagagna við forgangsröðun umferðaröryggisaðgerða. Helstu aðgerðir 2019.“ Þar fór hún yfir hvernig Vegagerðin nýtir þau gögn sem Samgöngustofa tekur saman til að bæta öryggi vega.

„Oft er hægt að gera mikið til að draga úr slysahættu á vegum án þess að það þurfi að kosta mikið,“ segir Auður og tekur sem dæmi að hægt sé að bæta merkingar, gera minniháttar breytingar á vegamótum, lagfæra umhverfi vega og setja upp vegrið. „Meðal annars má bæta öryggi mikið með því einu að fjarlægja stórgrýti, fylla í skurði og draga úr bratta fláa við vegi.“

Í erindi sínu fór hún yfir verklag Vegagerðarinnar þegar kemur að öryggisstjórnun vegamannvirkja en meginþættirnir eru fjórir; umferðaröryggismat nýrra vegamannvirkja, umferðaröryggisrýni nýrra vegamannvirkja, greining og lagfæring slysastaða og umferðaröryggisúttekt vega í notkun.

Auður fór sérstaklega yfir hvernig greining og lagfæring slysastaða fer fram. „Markmið þessa þáttar öryggisstjórnunar er að finna þá staði eða kafla þar sem umferðaröryggisaðgerðir skila mestum árangri og lagfæra þá í þeim tilgangi að fækka slysum. Vinnan byggist á gögnum um fjölda slysa og slysatíðni en Vegagerðin styðst við upplýsingar um umferðarslys frá Samgöngustofu í þessari vinnu.“

Auður tekur fram að algengur misskilningur sé að fjöldi slysa sé það sama og slysatíðni. Það rétta er að slysatíðni er reiknuð með tilliti til umferðar, enda er fjöldi slysa mjög háður umferðarmagni. Slysatíðni vegarkafla er þannig fjöldi slysa á milljón ekna kílómetra.

„Það er nauðsynlegt að taka bæði tillit til slysafjölda og slysatíðni þegar reynt er að finna þá staði þar sem hægt er að ná mestum árangri með lagfæringum,“ segir Auður en Vegagerðin vinnur að greiningu slysastaða á tveggja ára fresti.

Eftir greiningu eru hugsanlegir slysastaðir skoðaðir nánar, það er, athugað hvort slys verði af sama toga eða við sömu aðstæður og reynt að finna leiðir til úrbóta. „Niðurstöður greiningarvinnunnar eru ræddar á fundum með fulltrúum svæða Vegagerðarinnar  og tekin ákvörðun um fyrirhugaðar úrbætur svo og hvaða staði þurfi að skoða á vettvangi til að finna viðeigandi lausn. Þar eru einnig teknar fyrir ábendingar sem Vegagerðinni hafa borist um varasama staði.“

Þegar aðgerðir hafa verið ákveðnar sjá svæði Vegagerðarinnar um nánari undirbúning, fá fjárheimild og sjá um framkvæmd. Neðst í textanum má finna lista yfir helstu lagfæringar sem farið verður í 2019.

Nýtt og gagnvirkt slysakort

Á fundinum kynnti Gunnar Geir Gunnarsson, deildarstjóri öryggis- og fræðsludeildar Samgöngustofu möguleika nýja slysakortsins. Kortið má sjá hér.

Á kortinu er að finna ítarlegar upplýsingar um umferðarslys sem hafa orðið á Íslandi frá 2007 til 2018.

Hægt er að leita eftir mismunandi atriðum, til dæmis tegund slysa og alvarleika og með því að velja hitakort breytist framsetning gagnanna og birtist mynd sem sýnir „hita“ á svæði eftir þéttleika slysa og alvarleika.

Einnig má finna upplýsingar um stök slys eða slys á ákveðnu svæði sem hægt er að afmarka með bendli. Auk ofantalinna upplýsinga er hægt að sjá á kortinu færð sem uppfærð er í rauntíma, veðurupplýsingar og upplýsingar um þjónustu og afþreyingu. Að auki er hægt að mæla vegalengdir og flatarmál svæða.

Myndband af fundinum í heild má finna hér.

 


Helstu umferðaröryggisaðgerðir Vegagerðarinnar  2019

 

Lagfæringar á umhverfi vega og eða uppsetning vegriða – helstu aðgerðir 2019

 • Hringvegur austan Kirkjubæjarklausturs. Lenging ræsa.
 • Hringvegur milli Víkur og Þjórsár. Lenging ræsa. III. áfangi.
 • Biskupstungnabraut.  Lenging ræsa og fl.  IV. áfangi.
 • Þingvallavegur um Mosfellsheiði IV. áfangi.
 • Þrengslavegur um Skóghlíðarbrekku.
 • Hringvegur austan Akrafjalls, II. áfangi.
 • Hringvegur í grennd við Svignaskarð.
 • Hringvegur undir Hafnarfjalli, I. áfangi.
 • Hringvegur um Langadal og Vatnsskarð, V. áfangi.
 • Hringvegur um Blönduhlíð, II. áfangi.
 • Þverárfjallsvegur, uppsetning vegriða, I. áfangi.
 • Hringvegur um Fagradal. V. áfangi lagfæringa.
 • Hringvegur um sunnanverðan Fáskrúðsfjörð,IV. áfangi lagfæringa.
 • Hringvegur austan í Kambaskriðum, lenging vegriða.
 • Hringvegur utan við Fossárvík í Berufirði, uppsetning vegriðs, frh.

 

Lagfæring vegamóta

 • Hringvegur við  Dyrhólaveg. Dyrhólavegur færður til vesturs – aðgerðir hófust 2018 og verkinu lýkur í ár. 
 • Hringvegur við  Grundartangaveg, framhald aðgerða.
 • Hringvegur við Ólafsfjarðarveg, I. áfangi.

 

Öryggisaðgerðir í þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni

 • Hraðahindrandi aðgerðir á Vestfjarðavegi um Búðardal, lokaáfangi.
 • Öryggisaðgerðir á Djúpvegi um Súðavík, framhald aðgerða.
 • Gerð gangbrautar með miðeyju á:
 • -Hvammstangavegi um Hvammstanga
 • -Ólafsfjarðarvegi um Dalvík
 • -Hringvegi við Egilsstaði.