Fréttir
  • Skiltið er opnað þegar Kjalarnesvegi er lokað.
  • Fyrirtækið M&T sá um rafbúnað.
  • Rafmagn í skiltið er tekið úr nærliggjandi ljósastaur og leitt í rafgeymi sem tryggir straum þó rafmagnið fari af svæðinu.

Nýtt skilti sem vísar á fjöldahjálparstöð á Kjalarnesi

Opnað þegar Kjalarnesvegi er lokað

28.11.2019

Nýverið var sett upp skilti 200 metra norðan við syðri afleggjara inn í Grundarhverfi á Kjalarnesi. Skiltið er svokallað samlokuskilti og einungis opnað þegar Kjalarnesvegi er lokað vegna óveðurs eða við aðrar aðstæður sem kalla á opnun fjöldahjálparstöðvarinnar í Klébergsskóla á Kjalarnesi. Tilgangurinn er að vara vegfarendur við lokuninni og vísa þeim inn að hjálparstöðinni og minnka þannig áreitið á björgunarsveitafólk sem er á verði á lokunarstað.

Skiltið er í tveimur hlutum sem liggja saman eins og samloka. Þegar skiltið er opnað kviknar á tveimur led blikkljósum sem lýsa upp skiltið og vara vegfarendur við. Rafmagn í skiltið er tekið úr nærliggjandi ljósastaur og leitt í rafgeymi sem tryggir straum þó rafmagnið fari af svæðinu.

Töluverð vinna liggur að baki skilti sem þessu. Viktor Arnar Ingólfsson, útgáfustjóri Vegagerðarinnar, sá um að hanna skiltið í samráði við Almannavarnarnefnd. Skiltið var framleitt hjá BB skiltum í Garðabæ og  fyrirtækið M&T sá um rafbúnað.  Umsjón með verkefninu höfðu Nicolai Jónasson og Guðmundur Ragnarsson á þjónustudeild Vegagerðarinnar.

Áætlað er að setja svipað skilti upp rétt austan við Hvolsvöll sem verður opnað þegar Hringvegurinn undir Eyjafjöllum er lokaður vegna veðurs eða annarra hamfara, til að upplýsa vegfarendur áður en lengra er haldið.

Meðfylgjandi eru myndir sem sýna skiltið og frágang búnaðar. Myndirnar tók Torfi B. Jóhannsson.