Fréttir
  • Nýtt rafrænt útboðskerfi Vegagerðarinnar trendsign.is.

Nýtt rafrænt útboðskerfi Vegagerðarinnar

Ekki lengur haldnir opinberir opnunarfundir

21.10.2019

Frá því í ágúst sl. hafa öll útboð Vegagerðarinnar farið fram í gegnum nýtt rafrænt útboðskerfi á vefnum, TendSign. Kerfið er sænskt og er t.d. einnig notað af Ríkiskaup og Framkvæmdasýslu ríkisins.

Útboðsauglýsingar eru birtar á vegagerdin.is og útboðsvefur.is en í auglýsingunum er hlekkur á TendSign kerfið. Bjóðendur fá öll útboðsgögn afhent rafrænt í gegnum kerfið og er það með öllu endurgjaldslaust. Bjóðendur skila verðtilboðum í gegnum kerfið. Einnig svara þeir spurningum og skila gögnum sem skulu fylgja verðtilboðum samkvæmt skilmálum útboðs. Þar er um að ræða upplýsingar um verkreynslu bjóðenda, fjárhagsstöðu, gæðakerfi og annað sem getur skipt máli við mat á hæfi verktaka. Öll samskipti verkkaupa og bjóðenda á útboðstíma, fyrirspurnir og athugasemdir, eru meðhöndluð í rafræna útboðskerfinu.

Það er mikilvægt að verktakar sem eru að nota kerfið gefi sér góðan tíma í að skila gögnum, einkum til að byrja með á meðan þeir eru að fóta sig í þessu verklagi. Hjá Vegagerðinni veitir upplýsingar Gísli Gíslason, sími 522 1089 eða tölvupóstur gigi@vegagerdin.is.

Með tilkomu þessa verklags eru ekki lengur haldnir opinberir opnunarfundir. Bjóðendur fá sendar niðurstöður útboðs í tölvupósti sama dag og tilboðsfrestur rennur út.

Hér má skrá sig inn í hið nýja útboðskerfi.