Fréttir
  • Ný Vestmannaeyjaferja í smíðum
  • Ný Vestmannaeyjaferja í smíðum
  • Ný Vestmannaeyjaferja í smíðum

Ný Vestmannaeyjaferja sigli nær alfarið fyrir rafmagni

Samgönguráðuneytið felur Vegagerðinni að semja við skipasmíðastöðina

6.2.2018

Samgönguráðuneytið hefur falið Vegagerðinni að semja við pólsku skipasmíðastöðina CRIST C.A. um að nýja Vestmannaeyjaferjan verði útbúinn með stærri rafgeymum og tengibúnaði þannig að unnt verði að hlaða skipið í landi og sigla þannig milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar fyrir rafmagni eingöngu.

Við upphaflega hönnun ferjunnar var gert ráð fyrir vélar um borð myndu hlaða rafgeymana með rafmagni til að knýja skrúfur skipsins. Þannig myndu hefðbundnar vélar framleiða rafmagnið en síðar mætti bæta við rafgeymum og þá hlaða skipið í landi. Það var því gert ráð fyrir tvinnskipi en nú verður hönnun breytt og skipið verður tengitvinnskip. 

Samgönguráðuneytið vísar til stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum og markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Skipasmíðastöðin hefur lagt fram tilboð um þessa breytingu en í því felst að setja stærri rafgeyma í Herjólf en einnig þarf að koma upp tengibúnaði fyrir hleðslu úr landi hvorttveggja í Vestmannaeyjum og í Landeyjahöfn. Ráðuneytið reiknar með að fjárfestingin muni skila sér á 10 árum en nokkur kostnaður mun hljótast af breytingunni á skipinu og uppbyggingunni í landi. Ráðuneytið mun beita sér fyri sérstakri fjárveitingu vegna verkefnisins.

Þessi breyting mun einnig seinka afhendingu nýrrar Vestmannaeyjaferju nokkuð, að öllum líkindum um nokkrar vikur, en reynt verður að lágmarka þann tíma svo sem kostur er.

Smíði ferjunnar gengur annars vel sem sjá má á myndunum sem fylgja fréttinni og voru teknar í Póllandi seint í nýliðnum janúar.