Fréttir
  • Merki Vegagerðarinnar
  • Merki Vegagerðarinnar.
  • Brú yfir Önundarfjörð. Mynd/Haukur Sigurðsson
  • Bílar Vegagerðarinnar verða merktir á nýjan máta. Mynd/Baldur Kristjánsson
  • Frétt úr Vegamálum 1985 þegar merki Vegagerðarinnar var kynnt fyrst til leiks.

Nýju merki Vegagerðarinnar vel tekið

Bæði gamalt og nýtt í senn

19.2.2020

Nýtt merki Vegagerðarinnar hefur vakið nokkra athygli og hafa viðbrögð við þessari breytingu verið jákvæð. Það er ekki á hverjum degi sem breyting er gerð á gamalgrónu merki áberandi stofnunar. Með nýja merkinu er haldið í gamla merkið og það þróað áfram þannig að í raun má finna gamla merkið í því nýja og það því bæði gamalt og nýtt í senn.

Ný ásýnd Vegagerðarinnar var kynnt á starfsmannafundi í vikunni. Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri hóf fundinn á því að fara yfir ástæður þess að farið var í mörkun stofnunarinnar. Ýmsar breytingar standa fyrir dyrum hjá Vegagerðinni. Þar má nefna nýja stefnu sem unnin var fyrir árin 2020 til 2025, nýjar höfuðstöðvar sem flutt verður í á næstu tveimur árum, ný og uppfærð tölvukerfi sem kalla á ný gögn auk þess sem stefnt er að gerð nýs vefs. Þess utan eru að verða nokkur kynslóðaskipti í stofnuninni þar sem fjölmargir starfsmenn eru að komast eða þegar komnir á eftirlaunaaldur.

Halla Helgadóttir framkvæmdastjóri Hönnunarmiðstöðvar ræddi við starfsmenn um gildi góðrar ásýndar og Hörður Lárusson hönnuður hjá Kolofon fór yfir þá vinnu sem liggur að baki mörkun Vegagerðarinnar, kynnti nýja ásýnd og uppfært merki.

Eldra merki Vegagerðarinnar er upphaflega hugmynd Hallgríms Helgasonar sem var á sínum tíma starfsmaður Vegagerðarinnar, efnt var til hugmyndasamkeppni um nýtt merki árið 1983. Alls bárust tillögur frá 21 en Hallgrímur varð hlutskarpastur og hlaut að launum 10.000 kr. Merkið var síðan teiknað af Kristínu Þorkelsdóttur hjá auglýsingastofunni AUK árið 1985 sem fékk það verkefni að vinna fullmótaða tillögu.

Merkið er vissulega þekkt en hefur bæði kosti og galla. Til dæmis getur verið erfitt að nota það í stafrænu formi og nýjum miðlum. Nýja merkið endurspeglar fjölbreyttari skyldur Vegagerðarinnar sem í dag sinnir meðal annars höfnum, vitum, almenningssamgöngum og hjólastígum fyrir utan hinum hefðbundnu vegum. Upphaflega merkið vísaði til malbikaðs vegar annars vegar og náttúrunnar og malavegar hins vegar, eða það hefur verið almenn túlkun á merkinu hin síðustu ár. Auglýsingastofa Kristínar lýsti merkinu hinsvegar þannig fyrir 35 árum að um væri að ræða „sneið af hrjóstrugu landslagi [sem] formar bókstafinn [V]. Varanlegur vegur liggur yfir hrjóstrugt landslagið,“ segir í greinargerð með merkinu.

Nýja merkið hefur víðtækari skírskotun. Enn táknar hægri hluti merkisins malbikaðan veg en mýkri línurnar til vinstri tákna sjóinn, náttúruna, vegi, öldur og umferðareyjur. Auk þess er má láta ímyndunaraflið ráða og sjá ýmislegt annað út úr merkinu.

Þó merkinu hafi verið skipt út verður það gert hægt og rólega. Hlutir sem þegar hafa verið framleiddir með eldra merkinu verða notaðir áfram til að sporna við sóun og kostnaði. Þannig mun gamla merkið fylgja Vegagerðinni enn um skeið á ýmsum stöðum.

Hér má nálgast merki Vegagerðarinnar bæði í prent- og netupplausn.

Hér fyrir neðan má sjá myndband sem sýnir helstu einkenni hinnar nýju ásýndar

https://www.youtube.com/embed/oJGp1-Ujog8"