Fréttir
  • Holtavörðuheiði - úr-safni
  • Holtavörðuheiði 25. janúar
  • Laxárdalsheiði 25. janúar
  • Brattabrekka 25. janúar

Ekkert ferðaveður var á Laxárdalsheiði

veður gekk ekki niður fyrr en um miðja nótt

4.2.2015

Sunnudaginn 25. janúar sl. var Holtavörðuheiði ófær, reynt var að opna Laxárdalsheiði sem hjáleið en um kvöldið var ástandið þar þannig að björgunarsveitarmenn voru einn og hálfan tíma yfir og ekkert vit í að fara þá leið. Fyrr um daginn hafði Heydalur verið undirbúinn sem hjáleið.

Svo sem fram hefur komið í fréttum þá varð stór hópur manna veðurtepptur beggja vegna Holtavörðuheiðar vegna veðurs sunnudaginn 25. janúar. Aðstæður voru slæmar, ekki vegna mikils fannfergis heldur fyrst og fremst vegna hálku, roks og vindhviða og fjúks þannig að skyggni var lítið. Vegagerðin vinnur eftir ákveðnu föstu verklagi í samvinnu við lögreglu og björgunarsveitir með aðstoð veðurfræðings þegar kemur að ákvörðunum um hvenær loka þarf fjallvegum, hvenær freista á þess að opna þá aftur o.s.frv. Undanfarna vetur hefur veðrátta verið þannig að í auknum mæli hefur þurft að grípa til lokana eftir ansi marga snjóléttari vetur þar á undan. Frá þeim tíma hefur margt breyst í þjóðfélaginu, bæði eru miklu fleiri á ferðinni á veturna um fjallvegi og einnig fleiri kunnáttulitlir ökumenn jafnvel á frekar illa búnum bílum til vetraraksturs. Því hefur reynslan sýnt að betra er að loka heiðum og fjallvegum fyrr, áður en margir bílar festa sig eða fjúka út af veginum. Það kallar á aðstoð björgunarsveita og nauðsyn þess að fjarlægja farartæki áður en hægt er að hefjast handa við að ryðja ófæra fjallvegi. Þess vegna getur verið fljótlegra fyrir alla aðila að loka fyrr og geta þannig opnað miklu fyrr en ella. En það kallar á þolinmæði þeirra vegfarenda sem bíða þurfa af sér óveður.

Aðstæður á Holtavörðuheiði, Laxárdalsheiði og á Bröttubrekku sunnudaginn 25. janúar voru þannig að í fyrsta lagi hefði verið hægt að opna leiðirnar um miðja nótt, um 2-3 leytið og líklega enn síðar. Heydalur var opinn. Á þeim tíma voru vegfarendur sem biðu þess að komast yfir Holtavörðuheiði flestir búnir að koma sér fyrir fyrir nóttina.

Á Holtavörðuheiðinni var snjóþekja að morgni 25. janúar, heiðin var hreinsuð, en var flughál. Hún var þá hálkuvarin og skráð hál rétt fyrir átta um morguninn. Uppúr klukkan tíu fer að skafa og það var komið óveður í hádeginu,  vindur kominn í 22 m/sek. Samkvæmt verklagi Vegagerðarinnar var skráð óvissustig og björgunarsveitum gert viðvart samkvæmt samkomulagi við sveitirnar. Klukkan 14:33 var heiðinni lokað en þá voru bílar farnir að fjúka út af veginum og stór flutningabíll fauk á hliðina. Því má gagnrýna Vegagerðina fyrir að hafa ekki lokað fyrr.

Klukkan 17:15 óskar lögregla eftir að allir vegir sem voru merktir ófærir yrðu skráðir lokaðir og akstur um þá þannig bannaður.

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar upplýsti að veður færi að ganga niður á tímabilinu 21-24. Vaktstöð Vegagerðarinnar setti verktaka í vetrarþjónustunni  þá í viðbragðsstöðu. Björgunarsveitarmenn ásamt starfsmanni Vegagerðarinnar fóru upp á Holtavörðuheiði rétt fyrir klukkan 21 en þá var veður eitthvað farið að ganga niður. Þeir færðu bíla af veginum til að hægt væri að komast framhjá þeim, mikil hálka var en lítill snjór nema þar sem bílar höfðu verið skildir eftir. Rétt fyrir 22 fer mokstursbíll á heiðina en þó ekki nema eftir að vera búinn að keðja bílinn. Ætlunin á þeim tíma var að hreinsa veginn og fylgja bílum yfir heiðina, þeim sem voru í Staðarskála. Þegar upp á heiðina var komið reyndist veður þannig að ekki var unnt að hreinsa og því síður fylgja bílum, mörgum  vanbúnum, yfir heiðina. Veður versnaði á tímabilinu 22-23 en fór síðan að ganga niður aftur. En veðrið var ekki gengið niður fyrr en milli 02-03 um nóttina en þá hafði aðgerðum við að reyna að opna heiðina verið hætt.

Fyrr um daginn, eða um klukkan þrjú, fór hefill og mokstursbíll um Heydal og hreinsaði veginn þar til að tryggja hjáleið fyrir Bröttubrekku sem var ófær. Síðdegis var hálka og skafrenningur á Heydal.

Ekki reyndi á að nýta Heydalinn sem hjáleið því Laxárdalsheiðin var metin ófær. Heydalurinn nýttist þó sem hjáleið fyrir Bröttubrekku í og úr Dölum. Milli 20 og 21 fór tveir björgunarsveitarbílar um heiðina. Þær upplýsingar fengust frá björgunarsveitarmönnunum að ekkert vit væri í að reyna að koma umferð yfir Laxárdalsheiði  þar sem þar væri mjög blint, mikill vindur og mjög mikil hálka. Þeir voru sjálfir eina og hálfa klukkustund að komast yfir heiðina. Á þessum tíma var veður þar þó farið að ganga niður en það jók aðeins í veðurhaminn um klukkan 22, veður gekk niður um klukkan 01 en jókst aftur upp úr því.

Miðað við þessar upplýsingar var talið óskynsamlegt að senda fjölda fólks á misbúnum bílum yfir Laxárdalsheiði, þótt snjór væri ekki mikill. Leiðin til Reykjavíkur um Holtavörðuheiði úr Staðarskála er 163 km, en hjáleið um Laxárdalsheiði og Bröttubrekku er 196 km en 220 km ef fara þarf um Heydalinn. Þannig að sú leið er tæplega 60 km lengri. Viðbúið er miðað við mikinn vind og hviður að einhver hluti bíla sem sendir hefðu verið á heiðina hefðu fokið, þá með tilheyrandi vandræðum þess fólks og björgunaraðgerðum í kjölfarið.

Vegagerðin hefur sem fyrr sagði unnið verklagsreglur þar sem tekist er á við aðstæður af þessu tagi og eru skilgreind nokkur mismunandi stig sem unnið er eftir, óvissustig, hættustig/lokanir, opnun vegar og neyðarstig. Þetta verklag er til staðar fyrir flesta fjallvegi en aðlaga þarf verklagið að hverjum stað fyrir sig. Unnið er í samvinnu við björgunarsveitir og lögreglu og almannavarnir komi til þess á neyðarstigi.

Vegagerðin hefur sett upp lokunarhlið við flesta fjallvegi landsins og samið við björgunarsveitir um að manna hliðin komi til lokunar og fá þær greitt fyrir þá vinnu. Mikilvægt er að landsmenn séu meðvitaðir um að vegum er ekki lokað fyrr að vel athuguðu máli og samkvæmt verklagi. Það er til þess að forða því að fjöldi fólks lendi í vandræðum á fjallvegum en til þess að þetta gangi sem skyldi er óskað að fólk sýni þessu verklagi þolinmæði. Þegar upp er staðið má reikna með að flestir komist þannig fyrr til síns heima. Enda verður með þessu móti yfirleitt hægt að opna fjallvegina miklu fyrr en ella eftir óveður.

Þetta verklag er síðan alltaf í þróun. Til umhugsunar eftir ástandið á Holtavörðuheiðinni sunnudaginn 25. janúar er hvort rétt sé að bíða lengur eftir að veður gangi niður, en það kallar á að halda öllum mannskap í viðbragðsstöðu og kostar auðvitað töluverða fjármuni. En einnig þarf að hafa í huga að flestir vegfarendur voru búnir að koma sér fyrir þegar veðrið gekk niður um nóttina.