Fréttir
  • Landeyjahöfn janúar 2015
  • Landeyjahöfn janúar 2014
  • Landeyjahöfn janúar 2013
  • Landeyjahöfn janúar 2012

Dýpi í Landeyjahöfn svipað og síðustu ár

tilgangslítið að dýpka þegar Herjólfur gæti hvort eð er ekki siglt vegna ölduhæðar

22.1.2015

Dýpi í Landeyjahöfn er svipað í vetur og verið hefur síðustu vetur. Aðeins breytilegt eftir staðsetningu en sandurinn er álíka mikill sem þyrfti að fjarlægja fyrir Herjólf. Það yrði þó tilgangslítið starf því vegna ölduhæðar í vetrarveðrum gæti Herjólfur sjaldan siglt til Landeyjahafnar auk þess sem nær ógjörningur yrði að viðhalda dýpinu við vetraraðstæður.

Dýpi nú sambærilegt og undanfarin ár

Vegna umfjöllunar um að aldrei hafi verið meiri sandur í Landeyjahöfn vill Vegagerðin árétta eftirfarandi. Mælingar sýna að magnið af sandi sem truflar siglingar í Landeyjahöfn er nú svipað því sem verið hefur seinustu ár. Meiri sandur er í hafnarmynninu og á rifinu en í fyrra en minna innan hafnar og í heild er magnið minna en í fyrra sem þarf til að ná nægu dýpi fyrir Herjólf. Dýpið núna á rifinu er ekki ósvipað og árið 2012 en meira en árin 2013 og 2014. 


Eins og meðfylgjandi myndir sýna þá er dýpið í hafnarmynninu álíka núna og það var árin 2014, 2013 og 2012. Munurinn er frekar sá að efnið við garðana er meira en síðustu 2 ár. Heildarmagnið sem þarf að fjarlægja til að gera Herjólfi kleift að sigla er hins vegar alltaf svipað. 

Athygli er vakin á því að til lítils er að reyna að halda fullu dýpi fyrir núverandi Herjólf eins og málum er nú háttað. Þar veldur tvennt. Annarsvegar að nánast ógjörningur er að það takist að viðhalda nægjanlegu dýpi fyrir núverandi skip við erfiðustu vetraraðstæður og hins vegar að jafnvel þótt það væri hægt þá ræður skipið ekki við siglingar inn í Landeyjahöfn í meira en 2,5 m ölduhæð. Siglingar núverandi Herjólfs til Landeyjahafnar féllu því niður flesta daga jafnvel þótt dýpi væri meira en þá siglir hann til Þorlákshafnar í mun meiri ölduhæð.

Það er alveg ljóst að sandburður í og við höfnina var vanmetinn. Verkefnið við halda nægu dýpi í höfninni er því bæði krefjandi og vandasamt. 

Miklar vonir voru bundnar við tilkomu Landeyjahafnar en því miður hafa þær væntingar brugðist yfir vetrartímann. Frá upphafi hefur legið fyrir að núverandi Herjólfur gæti ekki haldið uppi tryggum ferðum allt árið í Landeyjahöfn. Því miður þurfti að fresta nýsmíði ferju árið 2008 vegna erfiðrar stöðu í ríkisfjármálunum. Nú er hönnun nýrrar ferju hins vegar í fullum gangi. Það skiptir málið að sú vinna haldi áfram án tafa. 

Vegagerðin vinnur nú ásamt stýrihópi að hönnun og útboði á nýrri Vestmannaeyjaferju. Undirbúningur er nú á lokastigi og meðal annars er nú í bígerð ferð í siglingahermi í Danmörku þar sem þátttakendur verða meðal annarra einn af skipstjórum Herjólfs og hafnsögumaður Vestmannaeyjahafnar sem báðir eru reyndir sjómenn með haldgóða staðþekkingu. Nýju ferjunni verður ætlað að viðhalda öruggum samgöngum allt árið í Landeyjahöfn. Eftir sem áður verður hún búin því sem til þarf til að tryggja sem öruggastar og þægilegastar siglingar í Þorlákshöfn ef á slíkt reynir. Þannig er gert ráð fyrir allt að 30 kojum í viðbót við góða aðstöðu til lengri siglinga í almennu farrými. Þá mun ferjan geta flutt jafnmarga farþega og núverandi Herjólfur en fleiri bíla. Siglingahraði ferjunnar mun verða sambærilegur við núverandi Herjólf.

Vonir standa til að hægt verði að bjóða út nýsmíði Herjólfs nú á vormánuðum en það ræðst af fjármögnun verkefnisins. Smíðatíma skipsins mun Vegagerðin nota til að ljúka rannsóknum og prófunum á dýpkunaraðferðum og öðrum þáttum sem snúa að höfninni sjálfri. 

Að lokum má ekki gleyma því að með tilkomu Landeyjahafnar þá hefur farþegafjöldi til Eyja margfaldast og sá samfelldi tími sem Landeyjahöfn er opin lengist með hverju ári.  Það er einlægur vilji Vegagerðarinnar að vinna að því að gera Landeyjahöfn að heilsárshöfn en það næst aldrei nema með nýju skipi samhliða endurbótum á höfninni. Og heldur ekki þá verður aldrei hægt að tryggja að ekki komi til einhverra frátafa.