Fréttir
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin á höfuðborgarsvæðinu
  • Meðalumferð eftir vikudögum á hb

Metumferð á höfuðborgarsvæðinu 2014

Meiri umferð er árið 2008 sem átti fyrra met

7.1.2015

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst lítillega í desember frá sama mánuði ári áður. Umferðin á svæðinu allt árið jókst um rúm þrjú prósent og aldrei hefur mælst meiri umferð en í fyrra. Sama á við um umferðina á Hringveginum, sjá fyrri frétt.

Umferðin í desember

Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst einungis um 0,4% milli desember mánaða 2014 og 2013 en meðalvöxtur milli desembermánaða á árunum frá 2005 til 2013 er 1,1%.  Þessi niðurstaða er því vel undir meðaltali undanfarinna ára. Nú í ár mælist mikill munur milli nóvember og desember. Slíkt er ekki óþekkt þótt að meðaltali sé umferðin svipuð í þessum mánuðum.  Gera má ráð fyrir að slæm tíð í nýliðnum desember og frekar hagstæð tíð í nóvember, sama ár, hafi ýkt muninn nú.


Árið í heild sinni
Þegar árið er gert upp liggur það fyrir að umferðin jókst í hverjum einasta mánuði ársins 2014 borinn saman við sama mánuð fyrir árið 2013. Slíkt hefur aðeins gerst einu sinni áður, frá því að þessi samantekt hófst, en það var árið 2007. Í heild jókst umferðin um 3,1% milli áranna 2014 og 2013. Þótt þessi vöxtur sé tvöfalt minni en á Hringvegi þarf enn og aftur að leita aftur til ársins 2007 til að finna meiri vöxt á milli ára á þessu svæði. Lengi var fyrirséð að það stefndi í met ár í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu og var svo komið að desemberumferð 2014 hefði þurft að vera mun minni en í sama mánuði 2013 svo sú spá gengi ekki eftir.  Þessi litli vöxtur dugði því til að nýtt met var slegið í umferðinni um höfuðborgarsvæðið.  Umferðin nýliðið ár varð rúmlega 1% meiri en hún hafði áður mælst mest en það var árið 2008.

Umferðin eftir vikudögum
Þegar umferð eftir vikudögum er skoðuð kemur talsvert annað mynstur í ljós en á Hringvegi. Föstudagar eru sannarlega stærstir eins og á Hringvegi en ekki eins afgerandi stórir.  Helgarumferð er einnig hlutfallslega mun minni en út á þjóðvegum. Þegar umferð eftir vikudögum er borin saman á milli ára sést að umferðin eykst langmest á virkum dögum og allra mest á þriðjudögum eða um heil 15,5%.   Þetta gæti verið vísbending um að umferðaraukningin sé byggð á aukinni virkni atvinnulífsins á höfuðborgarsvæðinu.

Meðalumferð eftir vikudögum á hb