Fréttir
  • Fulltrúar Samgöngustofu og umferðaröryggisrýnarnir

Umferðaröryggisrýnar útskrifaðir

Ellefu rýnar fengu skírteini

22.12.2014

Ellefu umferðaröryggisrýnar útskrifuðust á dögunum og fengu afhent skírteini því til staðfestingar. Umferðaröryggisrýnar taka út vegamannvirki, eins og nafnið bendir til, út frá umferðaröryggi. Þeir þurfa að hafa fengið sérstaka þjálfun og staðist hæfnispróf. Þetta eru fyrstu rýnarnir sem nú útskrifast.

Á myndinni eru Reynir Sigurðsson Samgöngustofu, umferðaröryggisrýnarnir Erna Hreinsdóttir, Auður Þóra Árnadóttir, Baldur Grétarsson, Halldór Sveinn Hauksson, Hilmar Finnsson, Heimir F. Guðmundsson og Halldór Zoëga Samgöngustofu.

Markmið öryggisstjórnunar vegamannvirkja er að fækka umferðarslysum með því að fylgja ákveðinni aðferðafræði sem hefur umferðaröryggi að leiðarljósi við undirbúning og lagningu nýrra vega sem og við úttektir á vegum sem þegar hafa verið teknir í notkun. Byggir þetta á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins frá því í nóvember 2008 um öryggisstjórnun sem innleidd var hér með reglugerð 2011, reglugerðin var endurskoðuð núna í ár. Vegagerðin hafði þó áður og árum saman unnið samkvæmt þessari aðferðafræði þótt ekki væri hún í lög leidd.

Umferðaröryggisrýni innifelur kerfisbundna, óháða úttekt á umferðaröryggi vegamannvirkja, nýrra eða endurbyggðra, og fer fram á undirbúnings- og hönnunarstigi og í upphafi notkunar mannvirkisins. Markmiðið er að tryggja að ný mannvirki séu hönnuð og byggð á þann hátt að umferðaröryggis sé gætt eins og kostur er. 

Nánar tiltekið að:
  • draga úr hættu á því að umferðarslys verði og að lágmarka alvarleika þeirra slysa sem verða. 
  • meta umferðaröryggi með þarfir allra vegfarenda í huga.
  • tryggja að mannvirkið sé einfalt í notkun.
  • lágmarka þörf á endurbótum eftir að framkvæmd lýkur.
  • efla vitund allra þeirra sem koma að gerð og viðhaldi umferðarmannvirkja um mikilvægi umferðaröryggis.

Þeir sem rýna mega ekki hafa komið að undirbúningi eða hönnun viðkomandi mannvirkja. Rýnendur koma athugasemdum sínum og tillögum til eiganda mannvirkisins, sem tekur afstöðu til þeirra og ákveður hvort breyta skuli hönnun í samræmi við athugasemdirnar. Hann skal síðan gera skriflega grein fyrir þeim atriðum sem hann hafnar og ástæðum þess. Nauðsynlegt er að rýnendur skoði aðstæður eftir að mannvirkið hefur verið tekið í notkun og skili eiganda lokaathugasemdum sínum eftir það. Flest lönd í Evrópu hafa tekið upp umferðaröryggisrýni og hér á landi hefur þessari aðferð verið beitt á öll stærri mannvirki síðastliðin ár.

Í reglugerðinni frá 30. janúar 2014 kemur fram að Vegagerðin skuli láta fara fram umferðaröryggisrýni við undirbúning framkvæmda á vegum sem eru hluti af samevrópska vegakerfinu.

Umferðaröryggisrýni skal vera óaðskiljanlegur hluti af hönnunarferli verkefna á sviði vegamannvirkja á mismunandi stigum, þ.e. forhönnunarstigi, verkhönnunarstigi, áður en þau eru tekin í notkun og innan árs frá því  að þau voru tekin í notkun.

Rýnir skal gera grein fyrir þeim hönnunarþáttum, sem eru mikilvægir að því er varðar öryggi, í rýniskýrslu fyrir hvert stig verkefna á sviði vegamannvirkja. Ef ekki er farið að tillögum rýna í einstaka tilvikum skal tilgreina ástæður fyrir því í viðauka við skýrsluna í lok hvers hönnunarstigs.

Til að öðlast starfsleyfi sem umferðaröryggisrýnir skal viðkomandi hafa viðeigandi reynslu eða þjálfun í vegahönnun, tæknivinnu á sviði umferðaröryggis og slysagreiningu og ljúka námskeiði í samræmi við námskrá sem Vegagerðin hefur látið semja og staðfest hefur verið af ráðherra.

Samgöngustofa annast útgáfu hæfisskírteina til þeirra sem uppfylla skilyrði til að sinna starfi umferðaröryggisrýnis.

Umferðaröryggisrýnar skulu viðhalda þekkingu sinni með því að taka reglulega þátt í endurmenntunarnámskeiðum.

Eftirfarandi einstaklingar hafa nú hlotið skírteini frá Samgöngustofu til staðfestingar á því að þeir hafi uppfyllt skilyrði til að sinna starfi umferðaröryggisrýnis og hafi því rétt til að starfa sem slíkur.

Erna Bára Hreinsdóttir
Kristján Kristjánsson
Baldur Grétarsson
Auður Þóra Árnadóttir
Daníel Árnason
Erlingur Freyr Jensson
Gunnar H. Jóhannesson
Hilmar Finnsson
Halldór Sveinn Hauksson
Heimir F. Guðmundsson
Bryndís Friðriksdóttir