Fréttir
  • Dettifossvegur
  • Elliðaárbrýr
  • Dettifossvegur
  • Dettifossvegur
  • Elliðaárbrýr
  • Elliðaárbrýr
  • Elliðaárbrýr
  • Elliðaárbrýr
  • Elliðaárbrýr
  • Elliðaárbrýr
  • Elliðaárbrýr

Dettifossvegur og göngu- og hjólabrýr við Elliðaárvog hljóta viðurkenningu

Varðan 2014, viðurkenning Vegagerðarinnar

19.12.2014

Varðan 2014 er viðurkenning Vegagerðarinnar vegna hönnunar og frágangs vegamannvirkja og er veitt á þriggja ára fresti. Viðurkenninguna fyrir árin 2011-2013 hljóta Dettifossvegur og göngu- og hjólabrýr við Elliðaárvog. Þetta er í fimmta sinn sem þessi viðurkenning er veitt en formleg afhending bíður nýs árs.

Vegagerðin veitir viðurkenningu vegna hönnunar og frágangs vegamannvirkja á þriggja ára fresti. Tilgangurinn með viðurkenningunum er að efla vitund um útlit og frágang mannvirkja meðal starfsmanna og verktaka Vegagerðarinnar, stuðla að umræðu þar um og að vitna um ákveðinn vilja yfirstjórnarinnar á þessu sviði.

Þetta í fimmta sinn sem þessi viðurkenning er veitt hjá Vegagerðinni en hún var tilraunaverkefni þar til í maí 2014 þegar Verklagsreglan Varðan nr. 4.0.02 var gefin út í gæðahandbók Vegagerðarinnar.

Yfirstjórn skipaði dómnefnd til að annast mat á tilnefningum og veitingu Vörðunnar.  Í nefndina voru skipuð þau Aron Bjarnason deildarstjóri í framkvæmdadeild, Eiríkur Bjarnason forstöðumaður áætlanadeildar og Helga Aðalgeirsdóttir landslagsarkitekt á hönnunardeild.  Matthildur B. Stefánsdóttir deildarstjóri í gæðadeild var ritari nefndarinnar.

Svæði Vegagerðarinnar tilnefndu fyrr á þessu ári þau mannvirki, sem þau töldu skara framúr á tímabilinu 2011-2013. Þessi mannvirki eru:

·         Dettifossvegur (862), Hringvegur – Dettifoss.

·         Göngu- og hjólabrýr við Elliðaárvog.

·         Norðausturvegur (85), tenging Vopnafjarðar.

·         Snæfellsnesvegur um Haffjarðará (54-05).

·         Suðurstrandarvegur (427), Grindavík-Þorlákshöfn.

·         Strandavegur (643), Djúpvegur – Geirmundarstaðavegur.

·         Vestfjarðavegur (60), Þverá – Þingmannaá.

Dómnefnd skoðaði allar tilnefningar sumar og haust 2014 og mat þær samkvæmt ákveðnu kerfi. Hún ákvað að veita Vörðuna í tveimur flokkum að þessu sinni, annarsvegar í flokki vega og hins vegar í flokki brúa.

Verkefnin sem dómnefndin valdi til viðurkenningar eru:

Dettifossvegur (862), Hringvegur – Dettifoss og

Göngu- og hjólabrýr við Elliðaárvog

Þeir sem komu að undirbúningi og vinnu við Dettifossveg (862), Hringvegur – Dettifoss voru:

Hönnun: Vegagerðin, Hönnunardeild.

Val efnistökustaða og ákvörðun um frágang: Vegagerðin, Jarðefni.

Eftirlit og umsjón framkvæmdar: Vegagerðin, Norðursvæði.

Verktaki: Árni Helgason ehf.

Þeir sem komu að undirbúningi og vinnu við Göngu- og hjólabrýr við Elliðaárvog voru:

Hönnun: Teiknistofan Tröð, Nýbýli ehf., Snøhetta, Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar og Magnús Andersen Myndvinnsla

Eftirlit: Mannvit hf.

Verktaki: ÍSTAK

Í greinargerð dómnefndar er gerð nánari grein fyrir mati hennar á mannvirkjunum.

Formleg afhending viðurkenninga fer fram í byrjun árs 2015.