Fréttir
  • Umferðin á höfuðborgarsvæðinu með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum

Stefnir í meiri umferð á höfuðborgarsvæðinu en metárið 2008

gangi spár eftir verður umferðin 2014 meiri en 2008

4.11.2014

Ef ekki eitthvað mikið gerist má reikna með því að umferðin árið 2014 á höfuðborgarsvæðinu verði meiri en hún var metárið 2008. Umferðin á Hringveginum verður þó ekki jafnmikil í ár og hún var metárið þar, sem var árið 2007. Það sem af er ári hefur umferðin á höfuðborgarsvæðinu aukist um 3,3 prósent sem er mesta aukning síðan árið 2007.

Milli mánaða 2013 og 2014
Umferðin innan höfuðborgarsvæðisins jókst um 3,5% milli októbermánaða 2013 og 2014.  Þetta er, hlutfallslega nánast, sama aukning og varð á Hringvegi á milli sömu mánaða. Áætlað er að umferð hafi aukist mest um mælisnið á Reykjanesbraut við Dalveg í Kópavogi eða um 5,7% en minnst um mælisnið á Hafnarfjarðarvegi sunnan Kópavogslækjar eða um 1,7%.

Þróun, það sem af er ári, milli áranna 2013 og 2014
Það sem af er ári hefur umferð innan höfuðborgarsvæðis aukist um 3,3%, sem er mesta aukning miðað við árstíma síðan árið 2007. 

Horfur út árið 2014
Nú, þegar aðeins tveir mánuðir eru eftir af árinu 2014, eru allar líkur á að umferðin á höfuðborgarsvæðinu aukist um 3,4% á árinu 2014 miðað við árið á undan.  Gangi þessi spá eftir er þetta mesta aukning síðan árið 2007 og þá yrði um nýtt met í umferðinni að ræða, sem jafngildir 1,5% meiri umferð en met árið 2008. Líkt og á Hringvegi er birt vísitölurit, er sýnir þróun umferðar frá árinu 2005.  Hafi einhver velkst í vafa um fylgni milli umferðar og hagvaxtar má benda á meðfylgjandi vísitölurit umferðar og hagvaxtar þar sem glöggt má sjá hversu gríðarleg fylgni er þarna á milli.