Fréttir
  • Sprengisandur kort framkvæmdasvæði

Sprengisandsleið - opið hús

kynning á drögum að matsáætlun

4.11.2014

Drög að matsáætlun vegna Sprengisandsleiðar verða kynnt á opnu húsi í Ljósvetningabúð í Þingeyjasveit 4. nóvember og í Stjórnsýsluhúsinu á Hellu daginn eftir. Þrátt fyrir að drög að matsáætlun séu nú kynnt munu framkvæmdir ekki hefjast á næstunni, sennilega í fyrsta lagi eftir 10-15 ár.

Opna húsið í Ljósvetningabúð í Þingeyjasveit verður kl. 18:00-22:00 og á Hellu hjá Steinsholti sf. kl. 16:00-20:00. Einnig verður opið hús í Reykjavík en það hefur ekki verið tímasett.

Landsnet kynnir á sama tíma drög að matsáætlun vegna háspennulínu yfir Sprengisand. Það er ástæða þess að Vegagerðin leggur í þessa vinnu núna þar sem eðlilegt er að veglína vegarins sé ákveðin og valin á sama tíma og ákvarðanir eru teknar um háspennulínuna. Upplifun ferðamanna á þessari leið er nátengd háspennulínunni og mikilvægt að tengja það saman þannig til dæmis að vegfarendur um veginn verði sem minnst varir við línuna.

Gert er ráð fyrir Sprengisandsleið á skipulagi svæðisins og vegurinn er einn af stofnvegum í grunnneti, ein af fjórum skilgreindum hálendisleiðum og þarf Vegagerðin að hyggja að því sem öðru. Eigi að síður er leiðin ekki á samgönguáætlun og til hennar hefur ekki verið áætlað neitt fé og verður ólíklega farið í framkvæmdir fyrr en í fyrsta lagi eftir 10-15 ár.

Ferlið sem nú fer af stað er til þess að kalla fram athugasemdir frá almenningi og hagsmunaaðilum enda um að ræða val á veglínu. Umfang vegarins, breidd og upphækkun í landi og fleiri tæknileg atriði verða einnig til umræðu og ákvörðunar síðar meir í ferlinu.

Drög að matsáætlun