Fréttir
  • Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar 2014
  • Hreinn Haraldsson
  • Þórir Ingason
  • Rannsóknaráðstefna Vegagerðarinnar 2014

Rannsóknaráðstefnan 2014 vel sótt

alls sóttu 190 manns ráðstefnuna

3.11.2014

Alls sóttu tæplega 200 manns rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar í Hörpu sl. föstudag. Fjölbreytileiki erinda vakti athygli líkt og oft áður en alls voru flutt erindi um 20 af ríflega 100 styrktum rannsóknaverkefnum þetta árið. Glærurnar sem sýndar voru eru nú aðgengilegar á vefnum sem og ágrip erindanna.

Erindin 20 voru öll áhugaverð en nefna má rannsóknir á klæðingum og klæðingarefnum, aðferðum við að meta kostnað umferðarslysa, rafræna ferðavenjukönnun og notkun snjallsíma, staða hjólreiða á landsvísu, Ísland allt árið eða hvað?, hvernig nota megi umferðartalningar til að meta fjölda ferðamanna og tvö erindi um Kolgrafafjörð, um sjávarstrauma og súrefnisbúskap annarsvegar og hinsvegar um áhrif síldardauðans á lífríki hafsbotnsins.

Hreinn Haraldsson vegamálastjóri kom inn á þennan fjölbreytileika þegar hann sleit þessari 13. rannsóknaráðstefnu Vegagerðarinnar og sagði að hjá öðrum Vegagerðum einbeittu menn sér að því sem sneri beint að byggingu vegar en hér væri nauðsynlegt að stunda víðtækar rannsóknir, grunnrannsóknir sem væru ekki mikið stundaðar annarsstaðar á þessum sviðum í landinu. Hann sagði að trauðla fynndust annarsstaðar á vegagerðarráðstefnum erindi um rannsóknir á jöklum og höfnum eða síldardauða í fjörðum svo nefnd væru dæmi. En allt skipti þetta eigi að síður máli fyrir vegagerð í landinu og fyrir Vegagerðina.