Fréttir
  • Umferðin með spá út árið
  • Umferðin eftir mánuðum
  • Umferðin eftir landssvæðum

Umferðin á Hringvegi farin að nálgast metárið 2007

umferðin eykst líklega um 5,6 prósent í ár á Hringveginum

3.11.2014

Umferðin á Hringveginum, völdum talningastöðum, jókst um 3,4 prósent í október. Þótt það sé minni aukning en í fyrra þá stefnir í mikið aukna umferð í ár, hún hefur aukist um 5,4 prósent það sem af er ári og stefnir í að verða 5,6 prósentum meiri en í fyrra. Nálgast þá mjög metárið 2007.

Milli mánaða 2013 og 2014
Umferð jókst um 3,4% milli októbermánaða 2013 og 2014, það er heldur minni aukning en varð á síðasta ári en mun meiri en meðaltal áranna 2012 og 2013.  Nú hefur umferðin aukist í öllum mánuðum það sem af er ári ef frá er talinn mars. Ástæða fyrir samdrætti á milli marsmánaða má fyrst og fremst rekja til tímasetningar páska.Mest jókst umferðin um talningastaði á Austurlandi eða um 8,2% en eins prósents samdráttur varð um Vesturland. Helstu ástæðu fyrir samdrætti um Vesturland má rekja til lokunar á Hvalfjarðargöngum helgina 18 - 19 október en sú lokun leiddi til 3% samdráttar í umferð um göngin á milli október mánaða.

Milli ára 2013 og 2014, miðað við það sem af er ári
Umferð hefur aukist mjög mikið, frá áramótum eða um 5,4% miðað við sama tímabil síðasta árs. Þetta er mesta aukning miðað við árstíma síðan árið 2007. Mest hefur umferðin aukist um Norðurland og minnst um höfuðborgarsvæðið, þó umferðin þar hafi aukist um 4%, sem telst mikið.

Horfur út árið 2014
Mikið þarf að gerast, í síðustu tveim mánuðum ársins, til þess að ekki verði veruleg aukning umferðar, nú í ár.  Lengi framan af ári stefndi í rúmlega 4% aukingu en nú gerir reiknilíkan Vegagerðarinnar ráð fyrir 5,6% aukningu. Gangi þessi spá eftir gæti heildarumferðin á Hringveginum orðið aðeins minni en hún hafði mest verið, árið 2007. Vegagerðin hefur sýnt fram á að umferðin er afar góður rauntímamælikvarði á hagvöxt (verga landsframleiðslu), í því ljósi mætti telja umferðaukningu jákvæða sem slíka, en rúmlega 5% vöxtur yfir lengri tíma þarf ekki að vera jákvæð þróun. Það verður því fróðlegt að fylgjast með umferðinni á næsta ári og árum.


Neðsta línuritið hér fyrir ofan sýnir umferðina frá 2005, breytingu á henni, eftir landsvæðum.