Fréttir
  • Sprengisandur kort framkvæmdasvæði

Sprengisandsleið (26) milli Suður- og Norðurlands, drög að tillögu að matsáætlun

opið hús 4. og 5. nóvember í Þingeyjarsveit og á Hellu

29.10.2014

Vegagerðin auglýsir hér með drög að tillögu að matsáætlun vegna fyrirhugaðra framkvæmda á Sprengisandsleið (26) milli Suður- og Norðurlands. Framkvæmdin felur í sér nýjan og endurbyggðan veg frá Sultartangalóni að Mýri í Bárðardal. Fyrirhugað framkvæmdasvæði er í þremur sveitarfélögum: Rangárþingi ytra, Ásahreppi og Þingeyjarsveit.

Núverandi vegur er 219 km langur sumarvegur og er á köflum aðeins niðurgrafinn slóði með óbrúuðum ám.  Hann liggur hátt yfir sjó, eða mest í um 800 m hæð. Nýr vegur verður 187-197 km langur -háð leiðarvali, 8 m breiður og nokkuð uppbyggður vegur með bundnu slitlagi og brúuðum ám. Hönnunarhraði verður á bilinu (50) 70-90 km/klst og háður landslagi þar sem við á. Áætlanir eru um að meta umhverfisáhrif tveggja leiða.

Markmið framkvæmdarinnar er að bæta samgöngur um miðhálendi Íslands milli Suður- og Norðurlands. Einnig að bæta aðgengi almennings að miðhálendinu til útivistar og til að styrkja ferðaþjónustu.

Drög að tillögu að matsáætlun eru kynnt á vef Vegagerðarinnar http://www.vegagerdin.is/framkvaemdir/umhverfismat/matsaetlun/, samkvæmt reglugerð 1123/2005 um mat á umhverfisáhrifum. Þar má sjá drögin og teikningar.

Almenningur getur gert athugasemdir við áætlunina og er athugasemdafrestur til 20. nóvember 2014. Athugasemdir má  senda með tölvupósti til  helga.adalgeirsdottir@vegagerdin.is eða soley.jonasdottir@vegagerdin.is, eða senda til Vegagerðarinnar, Miðhúsavegi 1, 600 Akureyri.

Opið hús

Vegagerðin og Landsnet hafa haft samstarf um leiðarval vegna Sprengisandsleiðar og Sprengisandslínu, en mat á umhverfisáhrifum fyrir Sprengisandslínu er einnig að hefjast. Vegagerðin og Landsnet hafa ákveðið að standa sameiginlega að kynningarfundi um matsáætlanir þessara verkefna. Opin hús verða haldin á eftirtöldum stöðum:

  - Þriðjudaginn 4. nóvember í Ljósvetningabúð í Þingeyjarsveit kl.  18:00-22:00

  - Miðvikudaginn 5. nóvember hjá Steinsholti sf., Suðurlandsvegi 1-3, Hellu  kl. 16:00-20:00

Á opnu húsunum verða drög að tillögu að matsáætlun Sprengisandsleiðar og Sprengisandslínu kynnt með útprentuðum gögnum og með upplýsingum á skjávörpum og tölvuskjám.  Fulltrúar frá Landsneti, Vegagerðinni og ráðgjöfum verða á staðnum til að ræða við gesti og svara fyrirspurnum.

Allir eru velkomnir